Nýi framkvæmdastjórinn trúir á öflugra norrænt samstarf eftir kórónufaraldurinn

01.02.21 | Fréttir
Nordiska rådets direktör Kristina Háfoss

Kristina Háfoss

Ljósmyndari
Charlotte de la Fuente

Nýr framkvæmdastjóri Norðurlandaráðs, Kristina Háfoss, vill sjá meiri upplýsingar um norrænt samstarf í skólum norrænu landanna og einnig að íbúarnir sjái raunverulegan árangur af samstarfinu.

Ráðherra, þingmaður, deildarstjóri hjá tryggingafélagi, hagfræðingur hjá banka, stjörnuíþróttakona. Hin færeyska Kristina Háfoss hefur afkastað heilmiklu á 45 æviárum. Nú tekur hún við keflinu sem framkvæmdastjóri Norðurlandaráðs og er bjartsýn á enn öflugra norrænt samstarf.

Þann 1. febrúar hóf Kristina Háfoss störf á skrifstofu Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn, en á þessum tímum er fyrsti dagurinn í nýrri vinnu auðvitað dálítið óvanalegur. Kórónufaraldurinn geisar og því vinnur nýi framkvæmdastjórinn heima við í stað þess að mæta í Hús Norðurlanda að Ved Stranden 18.

Nú er það hennar hlutverk sem æðsta embættismanns Norðurlandaráðs að leiða norrænt samstarf gegnum kórónufaraldurinn. Faraldurinn hefur reynt mikið á samstarfið en Kristina Háfoss sér þó fleiri möguleika í stöðunni en vandamál og trúir því að faraldurinn geti blásið auknu lífi í norrænt samstarf.

„Alltaf má eyða tíma í að líta á það sem miður hefur farið og auðvitað eigum við að læra af faraldrinum, en ég vil horfa fram á veginn og er þeirrar skoðunar að kórónukreppan geti eflt samstarfið. Nú höfum við séð hvað gerst getur á krepputímum og það getur gert okkur betur í stakk búin til að finna sameiginlegar norrænar lausnir í framtíðinni, til dæmis hvað varðar neyðarviðbúnað,“ segir Kristina Háfoss.

Burt með stjórnsýsluhindranir

Frjáls för á Norðurlöndum er Kristinu Háfoss hugleikin og hún vill gjarnan sjá á bak öllum stjórnsýsluhindrunum sem aftra hreyfanleika.

„Í starfi okkar eigum við að einbeita okkur að þeim sem vilja starfa, stunda nám og reka fyrirtæki yfir landamæri landanna. Þetta fólk á að finna að norrænt samstarf sé til staðar og að það auðveldi því að flytja milli landa, eða búa í einu landi og starfa í öðru. Við höfum náð miklum árangri, en eigum þó enn nokkuð í land.“

Mikilvægt verkfæri á þessu sviði, að mati Kristinu Háfoss, er stafræn þróun – málefni sem hún hefur áður starfað að á norrænum vettvangi, sem ráðherra á sviði stafrænnar þróunar og innleiðingar nýs rafræns auðkennis og rafrænna innviða í Færeyjum. Hún tekur rafræn auðkenni sem dæmi um þá möguleika sem stafræn umskipti geta skapað fyrir frjálsa för.

„Þegar við fáum rafræn auðkennakerfi norrænu landanna til að „tala saman“ munu Norðurlandabúar geta notað rafræn auðkenni frá sínum löndum í hinum norrænu löndunum. Það væri stórt skref í starfinu að afnámi stjórnsýsluhindrana. Og við erum ekki langt frá því takmarki,“ segir Kristina Háfoss.

Aukna norræna áherslu í skólunum

Háfoss vill líka að norrænt samstarf verði sýnilegt í heimi barna og ungmenna. Hún vill sjá aukna kennslu um löndin okkar, sögu okkar, menningu, tungumál og um norrænt samstarf, og einnig aukna áherslu á að sýna samstarfið – ekki aðeins sem pólitískt verkefni heldur einnig út frá þýðingu þess fyrir venjulegt fólk.

Að auki leggur hún áherslu á mikilvægi Norðurlanda sem alþjóðlegrar fyrirmyndar, meðal annars í loftslagsmálum, málefnum norðurslóða og lýðræðismálum, svo og baráttunni gegn óréttlæti og ójöfnuði í heiminum.

Bæði hagfræðingur og lögfræðingur

Kristina Háfoss hefur átt glæstan feril allt frá árinu 1992 þegar samfélagsmál og stjórnmál tóku að vekja áhuga hennar í framhaldi mikils efnahagshruns í Færeyjum. Atburðurinn varð til þess að hún hóf nám í þjóðhagfræði við Kaupmannahafnarháskóla. Til að öðlast betri innsýn í samfélagið lagði hún einnig stund á lögfræðinám og lauk tveimur gráðum á sama tíma og flestir ljúka einni.

Háfoss hefur einnig verið þingmaður á Lögþingi Færeyinga, þar sem hún hóf störf 26 ára gömul sem yngsta þingkona Lögþingsins frá upphafi, hefur tvisvar gegnt ráðherraembætti, starfað í banka og verið deildarstjóri stærsta tryggingafélags Færeyinga.

Að auki hefur hún átt glæstan feril í íþróttum, meðal annars með færeyska landsliðinu í sundi og ungmennalandsliðinu í blaki, og orðið Færeyjameistari í hlaupi. Háfoss gekk einnig í tónlistarskóla sem barn og unglingur og spilar á píanó.

Í dag er fjölskyldan, eiginmaður og fjögur börn, í forgangi hjá henni utan vinnutíma.

„Mér finnst líka gaman að fara út að hlaupa eða ganga í náttúrunni. Og ef tími gefst til les ég bækur,“ segir Kristina Háfoss.

Ráðning hennar í stöðu framkvæmdastjóra hljóðar upp á 5+3 ár. Hvernig verða Norðurlönd að átta árum liðnum, Kristina Háfoss?

„Ég vona innilega að hið norræna samstarf okkar verði þá enn öflugra en nú og að allar þær stjórnsýsluhindranir sem við þekkjum í dag verði á bak og burt. Einnig sé ég fyrir mér að rafræn auðkenni okkar megi þá nýta jafnt í öllum norrænu löndunum, að pólitísk ímynd Norðurlanda gagnvart umheiminum verði sterkari en nú er og að við höfum gert framtíðarsýnina um Norðurlönd sem sjálfbærasta og samþættasta svæði heims að veruleika.“

Upplýsingar:

Nafn: Kristina Háfoss.

Fæðingardagur: 26. júni 1975.

Búseta: Í Kaupmannahöfn og Þórshöfn.

Fjölskylda: Eiginmaður og fjögur börn.

Menntun: Hagfræði- og lögfræðipróf frá Kaupmannahafnarháskóla og CBA-próf (Certificate in Business Administration).

Flokkur: Tjóðveldi, vinstriflokkur sem beitir sér fyrir sjálfstæði Færeyja.

Stjórnmálaferill: Þingmaður á Lögþingi Færeyinga 2002–2004, 2011–2015 og 2019–2021, ráðherra menningarmála, menntamála og rannsókna 2008 og fjármálaráðherra 2015–2019. Þingmaður í Vestnorræna ráðinu 2019–2021.

Ferill utan stjórnmálanna: Hagfræðingur hjá Landsbanka Færeyja 2004–2005, hagfræðingur hjá Færeyjabanka 2006, deildarstjóri hjá tryggingafélaginu Føroyar, Betri pensjón og TF Holding 2007–2011 og ráðgjafi og regluvörður 2011–2015. Hefur einnig setið í fjölda stjórna, meðal annars á vettvangi atvinnulífsins í Færeyjum, og gegnt stöðu formanns í félagi lögfræðinga og hagfræðinga í Færeyjum.