Nýr forseti Norðurlandaráðs

26.06.19 | Fréttir
Það heyrir til undantekninga að skipt sé um forseta Norðurlandaráðs á miðju tímabili. Forsætisnefnd Norðurlandaráðs kaus Hans Wallmark frá Svíþjóð forseta á fundi sínum 26. júní. Wallmark tekur við embættinu af Jessicu Polfjärd. Hún var kjörin á Evrópuþingið og hefur þess vegna sagt af sér þingmennsku á sænska þinginu og sem forseti Norðurlandaráðs.

Lýðræði er forgangsmál í sænsku áætluninni vegna forsetaársins og það er líka málefni sem brennur sérstaklega á Hans Wallmark.

„Við verðum að berjast fyrir lýðræðinu á hverjum degi - það er aldrei sjálfsagt, ekki heldur hér hjá okkur,“ segir hann með áherslu.

„Á Norðurlöndum eru margir góðir lýðræðissinnar,“ segir hinn nýkjörni forseti. „Við höfum búið lengi við þetta kerfi og gerum okkur grein fyrir samspilinu milli lýðræðis og stjórnmálaflokka ásamt virðingu fyrir minnihlutum, þörfina fyrir að búa í réttarríki og við fjölmiðlafrelsi - allt þetta eru grunnstoðir sem eru fyrir hendi í norrænu ríkjunum. Þess vegna liggur einnig hjá okkur ábyrgð á því að breiða út þessa hugsun, bæði heima fyrir og um heim allan.“

Við verðum að berjast fyrir lýðræðinu á hverjum degi - það er aldrei sjálfsagt, ekki heldur hér hjá okkur.

Hans Wallmark

Aukin samkeppni á alþjóðavettvangi hefur áhrif á stefnumótun á Norðurlöndum

„Bæði Norðurlandaráð og Norræna ráðherranefndin vinna í umhverfi þar sem samkeppni á alþjóðavettvangi færist stöðugt í vöxt,“ segir Hans Wallmark. Norðurlöndin eru leiðandi svæði á sviði 5G, þau styðja við vísindi, þróun og nýsköpun - allt þetta skiptir máli til þess að við getum lyft okkur alþjóðlega.  

„Við verðum að hlaupa hraðar en hinar þjóðirnar. Við megum ekki halla okkur aftur í sætinu og hvíla í fyrri sigrum. Við verðum að vinna nýja sigra dag hvern, saman,“ segir Hans Wallmark.  

„Saman myndum við hagkerfi sem skiptir máli, tökum það pláss en við skulum líka gera okkur grein fyrir því að ekkert kemur án fyrirhafnar, við áorkum aðeins hlutum með mikilli vinnu dag hvern,“ segir hann að lokum..

Contact information