Nýtt Info Norden veitir enn meiri gagnlegar upplýsingar

10.01.19 | Fréttir
Mænd flytter skriveborde
Photographer
Yadid Levy/Norden.org

Nýtt Info Norden veitir upplýsingar til Norðurlandabúa sem vilja vita meira um frjálsa för milli norrænu ríkjanna. Frá áramótum hafa verkefni Info Norden aukist.

Norræna ráðherranefndin styrkir upplýsingaþjónustu sína við Norðurlandabúa. Frá og með áramótunum getur fólk sem vill vita meira um norrænan stuðning og styrki eða einstaklingar sem hafa áhuga á að reka fyrirtæki í öðru norrænu ríki leitað aðstoðar hjá Info Norden.

Info Norden er nýtt heiti á upplýsingaþjónustu ráðherranefndarinnar sem áður kallaðist Halló Norðurlönd og hefur í áraraðir veitt þeim Norðurlandabúum sem hyggjast flytja eða stunda nám eða starf í öðru norrænu ríki gagnlegar upplýsingar. Þessi þjónusta er mikilvægasti upplýsingarfarvegur ráðherranefndarinnar til borgaranna og vefsíðan er mikið notuð af Norðurlandabúum.

Um áramótin var nafni upplýsingaþjónustunnar breytt í Info Norden til þess að endurspegla betur hvert hið eiginlega hlutverk hennar er og um leið voru verkefni hennar aukin. Info Norden á nú einnig að veita þeim einstaklingum upplýsingar sem hyggjast koma á fót og reka fyrirtæki á Norðurlöndum. Þetta snýst um að leiðbeina fólki að réttum stöðum og stofnunum. Auk þess er Info Norden ætlað að veita borgurum upplýsingar um norrænan stuðning og styrki og veita almennar upplýsingar um norrænt samstarf.

„Við verðum vör við greinilega þörf fyrir meiri upplýsingar hjá borgurum á Norðurlöndum og það er gott að við styrkjum nú upplýsingaþjónustu okkar, Info Norden, á þann hátt að nú er þar að finna meira af almennum upplýsingum um norrænt samstarf og norræna styrki. Öll norrænu ríkin hafa gagn af frjálsri för og innan norræna samstarfsins ætlum við að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að auðvelda borgurum okkar hreyfanleika. Þar gegnir Info Norden miklu hlutverki,“ segir Dagfinn Høybråten, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar.

Upplýsingar á þínu tungumáli

Hægt er að nálgast Info Norden á vefsíðu Norrænu ráðherranefndarinnar, Norden.org. Info Norden rekur einnig skrifstofur í öllum norrænu ríkjunum ásamt Álandseyjum, Færeyjum og Grænlandi. Upplýsingar eru veittar á öllum Norðurlandamálum og ensku.

Þjónustan er fyrst og fremst veitt á netinu sem þýðir að samband við Info Norden á sér aðallega stað gegnum eyðublað sem finna má á vefsíðunni. Þó er einnig símanúmer fyrir hvert land sem hægt er að hringja til ef áhugi er fyrir hendi.

Contact information