Nýtt verkfæri til að tilkynna um stjórnsýsluhindranir fer vel af stað

03.12.21 | Fréttir
Samarbetsministrarna och gränsregionala informationstjänster på sessionen 2021.

Samarbetsministrarna och gränsregionala informationstjänster på sessionen 2021.

Photographer
Magnus Fröderberg/norden.org

Norrænu samstarfsráðherrarnir og forseti Norðurlandaráðs og varaforseti ásamt starfsfólki upplýsingaskrifstofa landamærasvæðanna á þingi Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn 2021.

Komið er nýtt stafrænt verkfæri til þess að tilkynna um vandamál þeirra sem vinna og eru með starfsemi á norrænu landamærasvæðunum. Verkfærið var kynnt fyrir mánuði síðan og fer vel af stað. Þegar hefur verið tilkynnt um fjölmörg vandamál sem tengjast landamærum.

Nýja verkfærið er bæði ætlað einstaklingum og fyrirtækjum sem vinna og eru með starfsemi yfir landamæri á landamærasvæðunum Svíþjóð-Danmörk, Svíþjóð-Finnland, Svíþjóð-Noregur, Finnland-Svíþjóð og Finnland-Noregur.

Aðili sem telur sig verða fyrir stjórnsýsluhindrun getur tilkynnt erindi sitt stafrænt hratt og auðveldlega gegnum nýja verkfærið og jafnframt stungið upp á því hvernig leysa megi úr vandanum.

Hugsunin er sú að vinnan vegna stjórnsýsluhindrana verði skilvirkari og gegnsærri. Nýja verkfærið veitir þeim sem tilkynnir um vandamál tækifæri til þess að fylgjast með erindi sínu gegnum allt ferlið.

Auðveldar starf að stjórnsýsluhindrunum

Verkfærið auðveldar einnig vinnu hinna þriggja norrænu upplýsingaskrifstofa landamærasvæðanna, Öresunddirekt, Landamæraþjónustunnar Norðurkollu og Landamæraþjónustu Noregs og Svíþjóðar. Þær hafa þegar það verkefni að tilkynna um hugsanlegar stjórnsýsluhindranir til Stjórnsýsluhindranaráðsins. Nú fá þær nýjan vettvang til þess að greina stjórnsýsluhindranir og vinna saman og með skilvirkari hætti að því að létta líf hinna tugþúsund einstaklinga og fyrirtækja sem ferðast yfir landamæri vegna vinnu og starfa á landamærasvæðunum.

„Við finnum greinilega fyrir eftirspurn eftir verkfæri af þessu tagi. Það var kynnt fyrir mánuði síðan og við höfum þegar fengið um hundrað tilkynningar um margs konar vanda. Það verður mikil hjálp í þessu, bæði í stjórnsýsluhindranastarfi okkar og upplýsingastarfinu,“ segir Oskar Danielsson hjá Landamæraþjónustu Noregs og Svíþjóðar.

Samstarfsráðherrarnir fjármögnuðu verkefnið

Upplýsingaskrifstofur landamærasvæðanna þróuðu verkfærið. Norrænu samstarfsráðherrarnir stóðu að fjármögnunni en einni milljón danskra króna var veitt til verkefnisins árið 2019.

„Framtíðarsýn norrænu landanna er að Norðurlönd verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims árið 2030. Samstarfið á sviði stjórnsýsluhindrana er afar mikilvægt til þess að framtíðarsýnin geti orðið að raunveruleika og frjáls för er einn af hornsteinum norræns samstarfs. „Ég er mjög ánægður með að nýja verkfærið hefur nú verið tekið í notkun og með hinar góðu viðtökur sem það hefur fengið. Ég er sannfærður um að verkfærið geti orðið mikilvægt framlag í vinnunni að því að létta þeim lífið sem búa og starfa á landamærasvæðunum,“ segir Thomas Blomqvist sem er formaður samstarfsráðherranna árið 2021.

Verkfærið var kynnt á þingi Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn 1.-4. nóvember og þá áttu samstarfsráðherrarnir þess kost að hitta starfsfólk landamæraskrifstofnanna og kynnast viðmóti verkfærisins.

Vinnan að frjálsri för er mikið forgangsmálefni í Norrænu ráðherranefndinni. Upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar, Info Norden sem er með skrifstofur í öllum aðildarlöndunum, hefur eins og svæðisbundnu upplýsingaþjónusturnar það hlutverk að tilkynna um stjórnsýsluhindranir sem hún verður áskynja gegnum íbúa og fyrirtæki sem flytja, ferðast vegna vinnu og stunda starfsemi yfir norrænu landamærin.