Öryggismál á dagskránni á fundum Norðurlandaráðs í Helsinki

26.08.19 | Fréttir
Hans Wallmark
Ljósmyndari
Johannes Jansson/norden.org

Hans Wallmark, forseti Norðurlandaráðs, kallar eftir nýrri skýrslu til að fylgja eftir hinni svonefndu Stoltenberg-skýrslu, sem kom út 2009.

Utanríkis- og öryggismál verða í brennidepli á fundum Norðurlandaráðs í Helsinki dagana 2. til 3. september, en fundirnir marka upphaf á pólitísku starfi haustsins. Á fundunum verður meðal annars efnt til umræðu um norrænt samstarf á sviði utanríkismála í dag og í framtíðinni.

Sú umræða fer fram á fyrri fundardeginum og þar verður höfð að leiðarljósi hin svonefnda Stoltenberg-skýrsla, sem kom út árið 2009 og innihélt 13 tillögur að því hvernig norrænu löndin gætu aukið samstarf sitt á sviði utanríkis- og öryggismála.

Þingmenn Norðurlandaráðs munu meðal annars ræða árangur af Stoltenberg-skýrslunni, hvernig tillögum hennar hefur verið hrint í framkvæmd og þau markmið og forgangsröðun sem norrænt samstarf um utanríkis- og öryggismál ætti að hafa í framtíðinni.

„Á tímum þegar blikur eru á lofti í pólitísku landslagi verður norrænt samstarf um utanríkis- og öryggismál æ mikilvægara. Það er löngu tímabært að stíga næstu skref í norrænu samstarfi. Skýrsla sem fylgdi eftir Stoltenberg-skýrslunni, eins konar Stoltenberg II, væri góð byrjun og gæti vísað veginn um það hvernig þróa á samstarfið áfram á komandi árum,“ segir forseti Norðurlandaráðs, Hans Wallmark.

Utanríkis- og öryggismál njóta mikils forgangs í starfi Norðurlandaráðs. Forsætisnefnd vinnur nú að nýrri stefnu á sviði samfélagsöryggis en það málefni verður tekið fyrir á fundi nefndarinnar þann 3. september í Helsinki.  

Ráðherra tekur þátt

Í umræðunni 2. september verður Antti Kaikkonen, varnarmálaráðherra Finnlands, á meðal þátttakenda og mun hann flytja ávarp um norrænt samstarf á sviði varnarmála. Þá mun Ulf Sverdrup, framkvæmdastjóri norsku utanríkisstofnunarinnar Norges Utrikespolitiska institut, flytja ávarp um Stoltenberg-skýrsluna og þau málefni sem leggja eigi áherslu á í nýrri stefnu og Kirsti Narinen hjá Evrópsku sérfræðimiðstöðinni um baráttu gegn fjölþættum ógnum (Europeiska kompetenscentret för motverkande av hybridhot) heldur erindi um norrænt samstarf um netvarnir og fjölþættar ógnir.

Á fundardögunum tveimur í Helsinki verða meðal annars haldnir fundir í flokkahópum, forsætisnefnd og fagnefndum Norðurlandaráðs. Septemberfundirnir marka upphaf á annasömu pólitísku hausti en hápunkturinn verður 71. þing Norðurlandaráðs sem fram fer í Stokkhólmi dagana 29.–31. október.

Fjölmiðlar velkomnir

Umræðan um utanríkis- og öryggismál þann 2. september verður opin fjölmiðlum. Hún fer fram kl. 16–17:30 í fyrirlestrarsal finnska þingsins. Þátttakendur verða að skrá sig fyrirfram. Skráningu lýkur þann 30. ágúst kl. 12 (að sænskum tíma). Hægt er að senda tölvupóst á matlin@norden.org eða hringja í +45 2969 2905.

Tengiliður