Óvenjumargar tillögur að tilnefningum til umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2020

05.06.20 | Fréttir
Bees
Photographer
Boris Smokrovic
Almenningur á Norðurlöndum hefur setið við lyklaborðin og sent inn metfjölda tillagna að tilnefningum til Umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs: 112 tillögur sem skiptast á 72 verkefni. Nú er komið að dómnefndinni að tilnefna þau sem komast í úrslitin.

Umhverfisverðlaunin eru einu verðlaun Norðurlandaráðs þar sem hver sem er getur sent inn tillögur að tilnefningum og í ár hafa óvenjulega margir nýtt sér þetta tækifæri. Norðurlandaráði hafa borist samtals 112 tillögur um alls 72 mismunandi verkefni. Í ljós kemur 4. september 2020 hver þessara 72 verkefna verða tilnefnd til verðlaunanna. 

Þema umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs í ár er líffræðileg fjölbreytni með áherslu á lífbreytileika sem uppsprettu velferðar og undirstöðu tilvistar okkar. Það kemur þannig í hlut dómnefndarinnar að velja þau verkefni sem leggja sérstaklega mikið af mörkum til þess að standa vörð um fjölbreytileikann í náttúrunni okkar.

 

Elva Rakel Jónsdóttir, formaður dómnefndar, segir: „Við höfum fengið fleiri tillögur en við erum vön í ár þannig að ýmislegt bendir til að þema ársins, líffræðileg fjölbreytni, hafi komið við græn hjörtu Norðurlandabúa. Við höfum alltaf haft náin tengsl við náttúruna á Norðurlöndum og borið mikla virðingu fyrir því hversu háð við erum náttúrunni. Líffræðileg fjölbreytni er forsenda þess að viðhalda jafnvægi í náttúrunni og þar með lífsgrundvelli okkar. Þetta á hvort heldur sem er við um varðveislu á ósnortnum skógi og skipulag borga og bæja.“ 

Um þema ársins: Líffræðileg fjölbreytni

Umhverfisverðlaunum Norðurlandaráðs er ætlað að styrkja nýskapandi verkefni sem horfa til framtíðar og tryggja auðugri náttúru fyrir sameiginlega framtíð okkar. Á þessu ári er lögð áhersla á líffræðilega fjölbreytni sem grundvöll fyrir lífi okkar.

Samkvæmt Náttúruvísindanefnd Sameinuðu þjóðanna (IPBES) hefur hnignun líffræðilegrar fjölbreytni í náttúrulegum vistkerfum aldrei verið meiri en hún er nú. Aukin fátækt náttúrunnar er einnig ógn við velferð okkar.

Svæði sem eru rík af tegundum og búsvæðum eru betur í stakk búin til þess til að aðlagast loftslagsbreytingum. Margir og mismunandi frjóberar er mikilvæg forsenda matvælaframleiðslu. Líffræðileg fjölbreytni í vistkerfinu gagnast heilsu okkar.

Náttúra norrænu landanna er fögur og hefðin fyrir því að gæta hennar löng. Miðað við hnattræna hlýnun og aukna tegundafátækt þá gerum við ekki nægilega mikið nú til þess að að standa vörð um líffræðilega fjölbreytni. Bæði í náttúrulegu umhverfi og á svæðum í byggð þarf skapandi og áhrifaríkar lausnir sem geta aukið margbreytileika gena, tegunda og búsvæða og sums staðar er meira að segja þörf á nýjum vistkerfum.

Þema umhverfisverðlaunanna í ár endurspeglar og styður við 14. og 15. heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um líf í hafi og á landi.

Tillögurnar 72 sem hafa borist í ár veita okkur verðmæta innsýn í margbreytileg verkefni um öll Norðurlönd þar sem unnið er af krafti að líffræðilegri fjölbreytni. Við í dómnefndinni hlökkum ótrúlega mikið til þess að kafa niður í allar þessar tilnefningar og ekki síst til þess að beina sjónum að þeim verkefnum sem eru allra nýstárlegust og mest skapandi þegar við birtum tilnefningar okkar þann 4. september. 

Elva Rakel Jónsdóttir, formaður dómnefndar

Tilnefningar dómnefndar til verðlaunanna verða birtar 4. september og verðlaunahafinn verður tilkynntur á þingi Norðurlandaráðs á Íslandi í október.

 

Um umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs:
Verðlaunin eru veitt árlega norrænu fyrirtæki, samtökum eða einstaklingi sem hefur tekist á framúrskarandi hátt að flétta náttúru- og umhverfissjónarmið í starfsemi sína, eða hefur á annan hátt lagt fram mikilvægan skerf í þágu náttúru og umhverfis.