Ráðherra norræns samstarfs: Við viljum vinna með ungmennum að mótun framtíðar norræns samstarfs
- Við ætlum að vinna með ungmennum að því að móta framtíð norræns samstarfs. Því gerði ég það að mínu fyrsta verki á formennskuári Dana í Norrænu ráðherranefndinni að stofna til samtals við ungt fólk. Mikilvægasta verkefni mitt á næstu árum verður að efla norræna samkennd – sérstaklega meðal ungs fólks, segir Mogens Jensen, ráðherra norræns samstarfs. Chris Preuss, formaður Danska ungmennaráðsins, er ánægður með yfirlýsinguna og sjálfar umræðurnar og segir:
- Það erum við unga fólkið sem munum þurfa að lifa hvað lengst með þeim ákvörðunum sem teknar eru. Ég fagna því að forystumenn í Norrænu ráðherranefndinni vilji tala við okkur en ekki bara um okkur.
Ungt fólk vill taka þátt
Á fundinum ræddi ráðherrann við ungmenni í um 35 ungmennasamtökum innan Danska ungmennaráðsins, auk fleiri. Þau bentu á ýmis mikilvæg málefni sem þau hvetja Norrænu ráðherranefndina til að beina athygli sinni að. Sjálfbærni og loftslagsmál voru ungmennunum efst í huga. Einnig voru rædd menning, tungumál, jafnrétti og jaðarsetning. Í umræðunum kom fram einróma ósk um að ungt fólk taki aukinn þátt í pólitísku samstarfi á Norðurlöndum. Chris Preuss, formaður Danska ungmennaráðins, bindur vonir við samstarfið:
- Norræna ráðherranefndin er dæmi um öflugt menningar- og stjórnmálasamstarf sem getur hjálpað til við mótun framtíðarsýnar á Norðurlöndum, til dæmis á sviði loftslagsmála.
Mikilvægasta verkefni mitt á næstu árum verður að efla norræna samkennd – sérstaklega meðal ungs fólks.
Borgaralegt samfélag spili stærra hlutverk
Danmörk fer með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni á árinu 2020 og Mogens Jensen, ráðherra norræns samstarfs, vill nýta formennskuárið til að beina sviðsljósinu að ungu fólki og grasrótinni.
- Ég vil endurheimta þátttöku almennings í norrænu samstarfi. Þegar öllu er á botninn hvolft er grasrótarsamstarfið grundvöllur hins pólitíska samstarfs á Norðurlöndum. Það er mikilvægt að auðvelda Norðurlandabúum að hittast, hvort sem það eru skólahópar, samtök eða fyrirtæki. Við mótun nýrrar framtíðarsýnar fyrir Norrænu ráðherranefndina vil ég einblína á að styrkja tengsl milli fólks. Ég vil einnig auka beina þátttöku hins borgaralega samfélags í norrænu starfi – sérstaklega ungs fólks. Það gerum við meðal annars með því að setja á oddinn málefni sem eru þeim hugleikin, eins og umhverfis- og loftslagsmál, segir Mogens Jensen.
Græn, samkeppnishæf og sjálfbær Norðurlönd
Á formennskuárinu verða einnig innleiddar aðgerðaáætlanir um græn, samkeppnishæf og sjálfbær Norðurlönd. Farið verður í ýmsar markvissar aðgerðir, til dæmis er varða ungt fólk, líffræðilegan fjölbreytileika og endurnýjanlega orku. Danmörk, Grænland og Færeyjar fara saman með formennskuna og hafa kynnt sameiginlega formennskuáætlun þar sem áhersla er lögð á græn, samkeppnishæf og sjálfbær Norðurlönd.