Rætt um samstarf á víðsjárverðum tímum á norrænum ráðherrafundi á Álandseyjum

14.09.21 | Fréttir
Ministrarna Thomas Blomqvist, Anette Holmberg-Jansson och Anna Hallberg, tillsammans med generalsekreterare Paula Lehtomäki
Photographer
Mary Gestrin
Samstarf Norðurlandanna, bæði á tímum kórónaveirufaraldursins og í framtíðinni, var eitt af þeim málum sem rætt var á fundi norrænu samstarfsráðherranna í Maríuhöfn 13.–14. september.

„Við verðum að draga lærdóm af reynslu okkar af þessum tímum,“ sagði Thomas Blomqvist, samstarfsráðherra Finnlands sem stýrði ráðherrafundinum. „Markmið okkar er að Norðurlönd verði að samþættasta svæði heims og þess vegna þurfum við einnig að undirbúa okkur í sameiningu undir framtíðarkrísur,“ sagði hann.

 

Norrænu samstarfsráðherrarnir ákváðu í vor að láta gera stefnumótandi úttekt á norrænu samstarfi sem á að draga fram 10–15 markvissar aðgerðir sem geta styrkt norrænt samstarf á erfiðleikatímum. Höfundur úttektarinnar er Jan-Erik Enestam, sem meðal annars hefur starfað sem innanríkisráðherra, varnarmálaráðherra og norrænn samstarfsráðherra í Finnlandi. Á fundinum kynnti Enestam niðurstöður sínar fyrir ráðherrunum.

Markmið okkar er að Norðurlönd verði að samþættasta svæði heims og þess vegna þurfum við einnig að undirbúa okkur í sameiningu undir framtíðarkrísur.

Thomas Blomqvist, samstarfsráðherra Norðurlanda í Finnlandi

Á fundinum ræddu samstarfsráðherrarnir einnig við meðlimi Stjórnsýsluhindranaráðs Norrænu ráðherranefndarinnar.

Stjórnsýsluhindranaráðið hefur frá upphafi heimsfaraldursins unnið skýrslur um aðgerðir sem hamlað hafa frjálsri för á svæðinu og átt í samskiptum við yfirvöld landanna til að ráða bót á vandanum. Á þessum ófyrirséðu hættutímum reyndist norræna hugmyndin um frjálsa för vega minna en heilbrigðisöryggi landanna, eins og fram kemur í skýrslunum.

 

Paula Lehtomäki, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, leggur áherslu á stefnumótandi mikilvægi Stjórnsýsluhindranaráðsins.

„Umboð Stjórnsýsluhindranaráðsins verður endurnýjað um áramótin og þá þarf jafnvel að styrkja það,“ segir hún. „Slíkt gæti auðveldað samþættingu á landamærasvæðum á hættutímum.“

100 ára sjálfstjórn Álandseyja

Annette Holmberg-Jansson, samstarfsráðherra Álandseyja, stóð fyrir fundi samstarfsráðherranna á Álandseyjum. Fundurinn var haldinn á 100 ára afmæli sjálfstjórnar Álandseyja sem haldið er upp á frá 9. júní 2021 til 9. júní 2022.