Samningur um verkefni í fjárhagsáætlun fyrir árið 2024 liggur fyrir

26.04.23 | Fréttir
Nordens Hus
Ljósmyndari
norden.org
Norræna ráðherranefndin og Norðurlandaráð hafa samið um verkefni í fjárhagsáætlun fyrir árið 2024. Forsætisnefnd Norðurlandaráðs samþykkti samninginn í mars og í dag samþykktu norrænu samstarfsráðherrarnir hann.

Framtíðarsýn okkar 2030, sem norrænu forsætisráðherrarnir samþykktu, myndar umgjörð norræns samstarfs. Framtíðarsýnin kveður á um að Norðurlönd eigi að verða sjálfbærasta og samþættasta svæði heims árið 2030. Miklar breytingar verða gerðar á fjárveitingum 2024 til þess að styðja við hin þrjú stefnumarkandi áherslusvið framtíðarsýnarinnar: Félagslega sjálfbærni, samkeppnishæfni og ekki síst græn umskipti.

Aukinn stuðningur við mennta- og menningarsvið

Norðurlandaráð og Norræna ráðherranefndin hafa samið um verkefni í fjárhagsáætluninni og meðal annars komið sér saman um að auka framlög til mennta- og menningarsviðs. Samningurinn er upp á 20,5 milljónir danskra króna og í honum felst að 10,5 milljónir danskra króna verði veittar til frjálsra félagasamtaka og borgarasamfélagsins. Þá verður 8 milljónum danskra króna veitt til helstu norrænu aðila á sviði mennta- og menningarmála. Loks er einnig lögð áhersla á norræna menningarmiðlun utan Norðurlanda. Samningurinn felur það jafnframt í sér að auðveldara verður fyrir viðeigandi aðila að sækja um fjárstyrki.

 

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, formaður samstarfsráðherranna, segir:

 

Ég hef átt mjög ánægjulegar og uppbyggilegar viðræður við Norðurlandaráð og það hefur skilað sér í samningi sem er í anda framtíðarsýnar Norrænu ráðherranefndarinnar og tekur jafnframt mið af óskum og sjónarmiðum Norðurlandaráðs. Samningurinn eflir norrænar stofnanir. Jafnframt er gert ráð fyrir fjárveitingum til þeirra sem vinna að norrænum málefnum, ekki aðeins á Norðurlöndum heldur einnig utan þeirra.“

                                                                                                                                            

Jorodd Asphjell, forseti Norðurlandaráðs, segir:

 

„Niðurstaða viðræðnanna ber vott um að Norðurlandaráð og Norræna ráðherranefndin séu samstíga í því að árið 2030 skuli Norðurlönd vera sjálfbærasta og samþættasta svæði heims. Jafnframt er samningurinn byggður á sameiginlegum skilningi beggja aðila á mikilvægi menntunar og menningar í þessu tilliti.“

 

Viðræður við Norðurlandaráð og samkomulag um fjárhagsáætlun

Pólitískar samningaviðræður Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndarinnar um fjárhagsáætlun ársins 2024 fóru fram vorið 2023 en þeim lyktaði með samkomulagi um eftirfarandi verkefni sem nema alls 20,5 milljónum DKK.

 

Stuðningur við norræn samtök borgaralegs samfélags og félagasamtök (10.500.000 DKK): 

Borgaralegt samfélag er ein af grundvallarstoðunum í norrænum samfélögum og mörg samtök gegna mikilvægu hlutverki í norrænu samstarfi. Árið 2021 var því sett á laggirnar áætlun með það fyrir augum að efla borgaralegt samfélag í norrænu löndunum. Til að byrja með gildir áætlunin til og með 2024.

Þessi áætlun verður aðlöguð og aukinn kraftur settur í hana í því skyni að stuðla að frekari menningar- og þekkingarskiptum.
Samstarfsráðherrarnir ráðstafa því 10.500.000 DKK til áætlunarinnar til viðbótar við það fé sem gert er ráð fyrir í fjárhagsáætlun fyrir árið 2024. Á grundvelli þeirra viðræðna sem fram hafa farið á milli Norrænu ráðherranefndarinnar og Norðurlandaráðs getur áætlunin stutt við fjölbreyttan hóp viðtakenda.

Á árinu 2024 eru eftirfarandi fjárhæðir eyrnamerktar sem hér segir:

• 3.250.000 DKK til menningarlegs samstarfs á Norðurlöndum, þ.m.t. hljómsveitasamstarfs og samspils þvert á norræn landamæri, og fræðslu um norrænar bókmenntir.

• 3.250.000 DKK til fræðslu, þekkingarmiðlunar og tungumálaskilnings, þ.m.t. til verkefna sem tengjast fræðslu um Norðurlönd og annarra verkefna sem tengjast Norðurlöndum innan menntastofnana (t.d. grunnskóla, menntaskóla, háskóla), stuðningi við skilning ungs fólks á öðrum norrænum tungumálum, átaki til vitundarvakningar um norrænt sjónarhorn í blaðamennsku.

• 1.000.000 DKK til funda og samstarfsneta sem styrkja rödd borgaralegs samfélags og auka tækifæri samtaka til að hafa áhrif á samfélagið, þ.m.t. til funda, ráðstefna og vinnustofa með norrænu þema og jafnframt fyrirgreiðslu og miðlun hugmynda og þekkingar á milli ólíkra borgaralegra samtaka á Norðurlöndum.

• Allt að 3.000.000 DKK til verkefna ungs fólks á sviði umhverfis- og loftslagsmála, sbr. kafla um „ungmennasjóð“ hér fyrir neðan. Verði þetta fé ekki nýtt í þessu skyni má nýta það til annarra ofangreindra verkefna.

Borgaraleg samtök á öllum samfélagssviðum geta sótt um styrki í tengslum við ofangreinda flokka, þ.m.t. frjáls félagasamtök, stofnanir, góðgerðarsamtök, borgarasamtök, hagsmunasamtök, vinnumarkaðssamtök, trúfélög, samvinnufélög eða óhagnaðardrifin samtök. Fulltrúar að minnsta kosti þriggja norrænna landa þurfa að standa að verkefninu.

 

Stuðningur við lykilaðila á sviði menningar og menntamála á Norðurlöndum (alls 8.000.000 DKK):

Nokkrir aðilar gegna mikilvægu hlutverki í norrænu samstarfi á sviði menningar- og menntamála. Með hliðsjón af starfsemi þessara aðila ráðstafa samstarfsráðherrarnir til þeirra 8.000.000 DKK til viðbótar við það fé sem gert er ráð fyrir í fjárhagsáætlun fyrir árið 2024.

Féð skiptist sem hér segir:

• 1.000.000 DKK til Norræna hússins í Reykjavík (NOREY).

• 1.000.000 DKK til Norðurlandahússins í Færeyjum (NLH).

• 350.000 DKK til Norrænu stofnunarinnar á Álandseyjum (NIPÅ).

• 650.000 DKK til styrkjaáætlunarinnar til menningarmála sem Norræna stofnunin á Grænlandi (NAPA) hefur ráðstöfunarrétt yfir.

• 2.500.000 DKK til Norræna rannsóknarráðsins, NordForsk (m.a. til rannsókna á sýklalyfjaónæmi).

• 1.000.000 DKK til Norrænu menningargáttarinnar (m.a. til menningarverkefna fyrir börn og ungt fólk á Norðurlöndum).

• 1.500.000 DKK til Norræna menningarsjóðsins.

 

Önnur svið:

Auk ofangreindra mála lýsa samstarfsráðherrarnir eftirfarandi yfir í framhaldi af samráði við Norðurlandaráð:

• að umhverfis- og loftslagsmálasvið hafi í tengslum við samkomulag um fjárhagsáætlun 2023 veitt 3.000.000 DKK til svonefnds „Norræns æskulýðssjóðs fyrir loftslagsmál og líffræðilega fjölbreytni“, en þar getur ungt fólk sótt um styrki til að skipuleggja eða taka þátt í norrænu starfi sem hvetur ungt fólk á Norðurlöndum til að láta til sín taka í loftslagsmálum og málefnum líffræðilegrar fjölbreytni. Hægt er að nota féð til og með 2025 og því munu samstarfsráðherrarnir fylgjast með framgangi vinnunnar við sjóðinn á árinu 2024 og upplýsa Norðurlandaráð um hann.
Verði allt féð nýtt á árinu 2023 getur ráðherranefndin um umhverfis- og loftslagsmál leitað eftir frekari styrk við sjóðinn á árinu 2024 af því fé sem veita skal til verkefna fyrir ungt fólk á sviði loftslags- og umhverfismála samkvæmt samkomulagi um fjárhagsáætlun 2024, sbr. ofangreint.
Verði það fé jafnframt nýtt til fulls eru samstarfsráðherrarnir jákvæðir gagnframt því að finna leiðir til frekari fjármögnunar.

• að samið hafi verið um að samstarfsráðherrarnir ráðstafi 1.000.000 DKK til þess að efla tækifæri til norrænna menningarskipta utan norrænu landanna.

• að MR-S ráðstafi allta að 1.000.000 DKK til skýrslu um fátækt á meðal barna á Norðurlöndum til að fylgja eftir tilmælum Norðurlandaráðs 21/2022 um börn og ungt fólk sem elst upp við viðvarandi lágar tekjur.

• að samstarfsráðherrarnir hafi í tengslum við samkomulag um fjárhagsáætlun 2023 ráðstafað 500.000 DKK til eftirfylgni við skýrslu Jans-Eriks Enestam um að efla samstarf um almannavarnir á Norðurlöndum og jafnframt 250.000 DKK til að efla vinnu í tengslum við afnám stjórnsýsluhindrana á milli norrænu landanna. Samstarfsráðherrarnir munu fylgjast með framgangi vinnunnar við samstarf um almannavarnir og afnám stjórnsýsluhindrana og upplýsa Norðurlandaráð um hann

• að samið hafi verið um að viðræður fari fram milli Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndarinnar til að skapa, eftir því sem kostur er, sameiginlegan skilning á því hvernig fjárhagsramma skuli háttað á komandi tímabili og hvaða meginreglur skuli ráða við gerð fjárhagsáætlunar.

• að samið hafi verið um að halda áfram viðræðum við Norðurlandaráð um hvort koma megi á fót ráðherranefnd samgöngumála.

• að samið hafi verið um að fulltrúar núverandi og næsta formennskuríkis Norrænu ráðherranefndarinnar fundi með núverandi og næsta formanni og varaformanni Norðurlandaráðs í lok árs 2023 til að ræða gerð norrænna fjárhagsáætlana í framtíðinni.