Stjórnsýsluhindranaráðið biðlar til Svíþjóðar að taka ekki upp aukið landamæraeftirlit

17.03.22 | Fréttir
Gränskontroller i Katstrup.
Photographer
News Øresund - Johan Wessman

Farþegar á leið frá Danmörku til Svíþjóðar gangast undir landamæraeftirlit á lestarstöðinni við Kastrup-flugvöll í Kaupmannahöfn árið 2016.

Norræna Stjórnsýsluhindranaráðið biðlar til sænsku ríkisstjórnarinnar að taka ekki upp nýtt landamæraeftirlit á Eyrarsundssvæðinu við landamærin að Danmörku. Eftirlitið bitnar illa á þeim þúsundum sem sækja vinnu eða nám yfir landamærin og einnig máttu þola skerðingar í heimsfaraldrinum, segir í bréfi Stjórnsýsluhindranaráðsins til ríkisstjórnarinnar.

Sænska ríkisstjórnin vill endurinnleiða möguleikann á landamæraeftirliti í rútum, lestum og ferjum sem koma til Svíþjóðar á Eyrarsundssvæðinu.

Yrði það raunin myndu t.d. allir farþegar frá Kastrup á leið til Svíþjóðar þurfa að framvísa skilríkjum áður en stigið væri um borð í lestina. Að auki þyrftu þeir einnig að vera tilbúnir að gangast undir landamæraeftirlit á Hyllie-stöðinni í Svíþjóð. Það ætti einnig við um þau u.þ.b. 18 þúsund sem dag hvern ferðast á milli Svíþjóðar og Danmerkur til vinnu.

„Enn á ný eru fyrirhugaðar aðgerðir sem bitna harkalega á fólki sem ferðast yfir landamæri til vinnu. Það fólk hefur nýverið gengið í gegnum langt tímabil í heimsfaraldrinum þar sem það var miklum vandkvæðum bundið að komast til og frá vinnu. Þessar stöðugu skerðingar á frjálsri för draga úr trausti til skilvirks sameiginlegs vinnumarkaðs þvert á landamæri á Norðurlöndum. Það er von okkar að Svíþjóð taki ekki aftur upp landamæraeftirlit,“ segir Vibeke Hammer Madsen, formaður Stjórnsýsluhindranaráðsins sem vinnur að frjálsri för á Norðurlöndum.

Ástæða aðgerða Svíþjóðar er flóttamannastraumurinn frá Úkraínu. Svíþjóð vill geta krafist þess að fyrirtæki sem flytja farþega yfir landamærin til Svíþjóðar viti deili á farþegum sínum.

Í bréfinu til sænsku ríkisstjórnarinnar leggur Stjórnsýsluhindranaráðið til að í staðinn verði skoðað hvernig nýta mætti núverandi og tímabundar aðgerðir í landamæraeftirliti til að halda upp lögum og reglu eða verja þjóðaröryggið.

„Um leið og við stöndum frammi fyrir gríðarlegum flóttamannavanda er mikil þörf á virkum og sameiginlegum vinnumarkaði á Eyrarsundssvæðinu. Í Danmörku er mikil þörf á sænsku vinnuafli, m.a. í þjónustu-, verslunar- og flutningageiranum, og á Skáni er mikið atvinnuleysi,“ skrifar Stjórnsýsluhindranaráðið.

Í bréfinu er vísað til úttektar sem unnin var eftir flóttamannavandann 2015 þegar Svíþjóð tók einnig upp landamæraeftirlit. Meðal þess sem úttektin leiddi í ljós var að þeim störfum sem hægt var að ná til á innan við klukkustund frá Malmö og Lundi fækkaði um hundruð þúsunda.

Einnig kom fram að hætta væri á að dönsk fyrirtæki gætu ekki haldið sænsku starfsfólki sínu ásamt því að eiga erfitt með að ráða nýtt fólk frá Svíþjóð vegna lengri ferðatíma.

„Hvort sem landamæraeftirlitið verður tekið upp að nýju eða ekki hvetjum við til samráðs við aðila á landamærasvæðunum, dönsku ríkisstjórnina, viðeigandi yfirvöld í Danmörku og Svíþjóð og flutningafyrirtækin til að finna betri leið en þá sem var farin 2015–2017,“ skrifar Stjórnsýsluhindranaráðið.