Tíu stjórnsýsluhindrunum var rutt úr vegi 2015

29.02.16 | Fréttir
Gränshinderrådets Årsrapport 2015
Tíu norrænum stjórnsýsluhindrunum var rutt úr veg í fyrra í kjölfar þess að Stjórnsýsluhindranaráðið þrýsti á ríkisstjórnir Norðurlanda um að finna lausnir á þeim. Meðal annars var tryggt að námsmenn sem flytja milli landanna fái aðild að almannatryggingum. Einnig var skorið úr um það að einstaklingar sem sækja vinnu yfir landamæri og sem verða fyrir vinnuslysum eigi rétt á endurhæfingu í búsetulandinu

Stjórnsýsluhindranaráðið var skipað af ríkisstjórnum Norðurlanda árið 2014. Hlutverk þess er að beina sjónum að hindrunum sem takmarka frjálsa för einstaklinga og fyrirtækja á Norðurlöndum og fylgja þeim eftir þangað til þau ráðuneyti sem málið varðar hafa lokið meðferð á þeim.

Markmiðið er að skapa störf og hagvöxt og efla samkeppnishæfni Norðurlanda á alþjóðavettvangi.

Ábatasöm viðskipti

Um sjötíu þúsund norrænir ríkisborgarar starfa í öðru landi en búsetulandinu. Vinnuframlag þeirra sem sækja störf yfir landamæri á Norðurlöndum er nú þegar mikils virði fyrir efnahaginn og skilar 5,6 milljörðum evra á ári.

Árið 2014 setti Stjórnsýsluhindraráðið 29 stjórnsýsluhindranir í forgang og tókst að ryðja þremur þeirra úr vegi.

Árið 2015 tókst að leysa tíu af þeim 36 stjórnsýsluhindrunum sem voru í forgangi. Tvær voru afskrifaðar vegna þess að ríkisstjórnirnar sáu enga leið til að leysa þær.

Ferli sem virkar

„Þetta er góður árangur. Ferlið virkar,“ segir Risto EJ Penttilä, fulltrúi atvinnulífsins í Finnlandi, sem um áramótin tók við formennsku í Stjórnsýsluhindranaráðinu af Dananum Ole Stavad.

Hver meðlimur Stjórnsýsluhindranaráðsins tekur fyrir þrjár til fimm stjórnsýsluhindranir á hverju ári og sér um að fylgja þeim eftir þangað til þau ráðuneyti sem málið varðar veita skýr svör um það hvort hægt sé að finna lausn á hindruninni.

Oftast eru það svæðisbundnu upplýsingaskrifstofurnar á landamærasvæðunum eða upplýsingaþjónustan Halló Norðurlönd sem uppgötva hindranirnar og skrá þær í gagnagrunninn um stjórnsýsluhindranir og láta skrifstofu Stjórnsýsluhindranaráðsins vita.

Áhersla á hagvöxt

Í ársskýrslu Stjórnsýsluhindranaráðsins fyrir árið 2015 er nánar sagt frá þeim stjórnsýsluhindrunum sem rutt hefur verið úr vegi og frá stöðu annarra stjórnsýsluhindrana sem eru í forgangi.

Árið 2016 ætlar Stjórnsýsluhindranaráðið að eiga nánara samráð en áður við aðila vinnumarkaðarins.

„Ég vil að stjórnsýsluhindrunum sem hamla hagvexti verði rutt úr vegi fyrst,“ segir Risto EJ Penttilä,

Skýrslan í heild sinni:

Senda má spurningar og athugasemdir til

Claes Håkanssons, ráðgjafa á skrifstofu Stjórnsýsluhindranaráðsins: +45 29 69 29 20  clha@norden.org