Tækifæri fyrir unga og upprennandi norræna og kanadíska blaðamenn

24.03.21 | Fréttir
Unga miljöjournalister sökes
Ljósmyndari
Iris Dager/norden.org
Hvaða hlutverki getur blaðamennska gegnt við að takast á við hnattræna loftslagsvá og stuðla að sjálfbærni. Ungum og upprennandi norrænum og kanadískum blaðamönnum er nú boðið að sækja um að taka þátt í nýju samstarfsverkefni um umhverfisblaðamennsku. Þetta er tækifæri til þess að læra, skiptast á þekkingu og sökkva sér í nokkrar af stærstu áskorununum sem jörðin okkar stendur frammi fyrir. Samstarfsáætlunin sem hleypt er af stokkunum í dag er liður í menningarverkefninu Nordic Bridges sem fer fram víðsvegar um Kanada árið 2022 og er stutt af norrænu menningarmálaráðherrunum.

Samstarfsnetið The Nordic-Canadian Fellowship in Environmental Journalism er ætlað að sjá ungu fólki frá Norðurlöndum og Kanada fyrir náms- og samstarfsrými. Á árinu 2021 geta 16 upprennandi blaðamenn tekið þátt í nýskapandi verkefni þar sem efni verður safnað og síðan miðlað til áheyrenda/lesenda gegnum Nordic Bridges og víðar.

Þessi vettvangur veitir ungu fólki tækifæri til að vinna saman yfir Atlantshafið og færa okkur mikilvægar fréttir á sviði umhverfis- og menningarmála, fréttir sem skipta heimsbyggðina máli. 

Annika Saarikko, vísinda- og menningarmálaráðherra Finnlands, og formaður Norrænu ráðherranefndarinnar um menningarmál árið 2021

Við verðum að hlusta á unga fólkið

Aldrei hefur verið mikilvægara en nú að skrásetja áhrif loftslagsbreytinga á samfélög, menningu og jörðina okkar. Með því að styðja þetta samstarfsverkefni vilja norrænu menningarmálaráðherrarnir leggja áherslu á mikilvægi radda ungs fólks frá Norðurlöndunum og Kanada og það sem þetta unga fólk hefur fram að færa.

„Þessi vettvangur veitir ungu fólki tækifæri til að vinna saman yfir Atlantshafið og færa okkur mikilvægar fréttir á sviði umhverfis- og menningarmála, fréttir sem skipta heimsbyggðina máli. Þetta eru málefni sem snerta alla heimsbyggðina og ekkert eitt ríki getur leyst það. Á Norðurlöndum lítum við svo á að alþjóðlegt samstarf skipti sköpum þegar kemur að því að leita nýrra hugmynda og lausna. Mikil þörf er á fjölmiðlaefni sem byggir á staðreyndum og útskýrir flókin málefni á tímum falskra upplýsinga,“ segir Annika Saarikko, vísinda- og menningarmálaráðherra Finnlands, sem einnig er formaður Norrænu ráðherranefndarinnar um menningarmál árið 2021.

Samstarfsáætlunin er hluti af Nordic Bridges, menningarverkefni sem Harbourfront Centre í Tóronto í Kanada stýrir og hefur umsjón með og er styrkt af Norrænu ráðherranefndinni. Mennngarverkefnið byggir á fjórum stoðum listrænni; nysköpun, aðgengi og samþættingu, sjónarhorni frumbyggja og sveigjanleika og sjálfbærni.

Ungt fólk í farabroddi í loftslagsaðgerðum á heimsvísu

Bæði á Norðurlöndum og í Kanada er landslag margbreytilegt og víðáttumikið og Norðurskautssvæðið er sérstaklega viðkvæmt fyrir áhrifum loftslagsbreytinga. Þá hafa báðir þessir heimshlutar skuldbundið sig til þess að takast á við loftslagsbreytingar.

„Ungt fólk hefur verið í fararbroddi í loftslagsaðgerðum á heimsvísu. Eftir því sem loftslagsváin eykst mun kraftmikil blaðamennska undir forystu ungs fólks gegna lykilhlutverki við að varpa ljósi á mikilvæg málefni og benda á ábyrgð valdhafa,“ segir Lex Harvey, kanadískur blaðamaður og verkefnastjóri verkefnisins. 

Samstarfsverkefnið mun veita upprennandi blaðamönnum á aldrinum 18-25 ára frá Kanada og Norðurlöndum tækifæri til þess að taka þátt í vinnubúðum í blaðamennsku, fara í efnisöflunarferðir og taka þátt í sýningu sem er liður í Nordic Bridges. 

Sæktu um fyrir 23. apríl.

Samstarfsverkefnið er opið blaðamönnum og upprennandi blaðamönnum af öllum gerðum miðla og eru rithöfundar vídeólistafólk, ljósmyndarar, framleiðendur og stjórnendur hlaðvarpa hvattir til að sækja um. Opnað verður fyrir umsóknir í dag og hægt er að sækja um fram til 23. apríl. Verkefnið hefst í júní 2021 og stendur út árið 2022.

 

Hefur þú áhuga? Taktu þátt í vefþingi Harbourfront Centre til þess að fá nánari upplýsingar.

Um Nordic Bridges

Markmiðið með Nordic Bridges er að stuðla að samstarfi kanadísks og norræns listafólks og stofna til samræðna um hlutverk menningar í uppbyggingu og kynningu sjálfbærra samfélaga.

Harbourfront Center mun, sem ein af leiðandi samtímalegu, þverfaglegu lista- og menningarstofnunum Kanada, leiða dagskrá Nordic Bridges og vinna með menningarsamtökum víðsvegar um Kanada.

Nordic Bridges er þriðja stóra norræna menningarverkefnið utan Norðurlanda sem Norræna ráðherranefndin stendur að og kemur í kjölfar hinna vel heppnuðu verkefna Nordic Cool í Washington (2013) og Nordic Matters í London (2017).