Menningarmálaráðherrar á Norðurlöndum kalla eftir verndun úkraínsks menningararfs

21.06.22 | Fréttir
Kulturarv i Ukraina
Photographer
Dapress/Splash/Ritzau Scanpix

Dómkirkja heilagrar Soffíu í Kyiv (mynd) er á meðal þeirra heimsminja UNESCO sem hætta er á að eyðileggist í stríðinu í Úkraínu. Fréttir berast frá Úkraínu af eyðileggingu menningararfsins, til að mynda kirkna og klaustra svo sem timburkirkjunnar Kirkju allra dýrlinga í Sviatohirsk og sögusafnsins í Ivankiv sem brunnið er til grunna.

Norrænu menningarmálaráðherrarnir sem hittust í Ósló í byrjun maí lýsa þungum áhyggjum af afleiðingum innrásar Rússa í Úkraínu. Ráðherrarnir fordæma stríðið og í sameiginlegri yfirlýsingu hvetja þeir til þess að staðinn verði vörður um menningararfinn í samræmi við alþjóðasáttmála.

Stríð Rússlands í Úkraínu stendur enn, um þremur mánuðum eftir innrásina í febrúar. Ekki sér fyrir endann á afleiðingum þess og þeim þjáningum sem því fylgir. Á meðan stríðið geisar eykst jafnframt hættan á eyðileggingu úkraínsks menningararfs með ómetanlegum listaverkum, menningarmunum, minnisvörðum, klaustrum og heimsminjum UNESCO. Fréttir sem berast frá Úkraínu um brunnin söfn, kirkjur og bókasöfn, eyðileggingu og rán sýna að þetta á sér nú þegar stað.

Í sameiginlegri yfirlýsingu sem birt er í dag hvetja norrænu menningarmálaráðherrarnir til þess að menningararfur Úkraínu verði verndaður í samræmi við Haagsamning UNESCO frá 1954 og bókanirnar tvær sem honum tilheyra ásamt því að lýsa stuðningi við yfirlýsingu UNESCO um verndun menningararfsins.

„Ástandið í Úkraínu er skelfilegt og það er mikilvægt að taka skýra afstöðu með verndun menningararfsins sem er ómetanlegur. Það skiptir líka máli að við, átta menningarmálaráðherrar á Norðurlöndum, gerum það saman. Þetta er tímaspursmál og rétt eins og aðrir í alþjóðasamfélaginu verðum við á Norðurlöndum að gera hvað við getum,“ segir Anette Trettebergstuen, menningar- og jafnréttismálaráðherra Noregs och formaður Norrænu ráðherranefndarinnar um menningarmál 2022.

Stuðningur frá menningargeiranum á Norðurlöndum

Stuðningur frá menningargeiranum á Norðurlöndum við úkraínskar menningarstofnanir er mikill og felst í öllu frá umönnun listaverka, fjárframlögum, sýningum, störfum og alþjóðasamstarfi til yfirlýsinga og tilkynninga. Í yfirlýsingu sinni víkja menningarmálaráðherrarnir að þessum aðgerðum.

„Norrænu menningarmálaráðherrarnir viðurkenna þann hug sem aðilar og stofnanir innan menningargeirans á Norðurlöndum hafa sýnt í því skyni að vekja athygli á hinni brýnu þörf á stuðningi sem uppi er ásamt sameiginlegri áeggjan norrænna safna um að virða menningararfinn.“

Menningarmálaráðherrarnir hvetja jafnframt norrænu söfnin til að styðja við siðareglur ICOM til að forðast ólöglega verslun með menningarmuni.

Málfrelsi og verndun fréttamanna

Í samstarfsáætlun menningarmálaráðherranna er lögð áhersla á vaxandi mikilvægi og hlutverk listræns frelsis, málfrelsis og fjölmiðlafrelsis í alþjóðlegu samstarfi. Um það ber ástandið í Úkraínu vott og þess er einnig getið í yfirlýsingu ráðherranna.

„Norrænu menningarmálaráðherrarnir undirstrika þörfina á verndun fréttamanna á svæðinu til að tryggja frjálsa og óháða umfjöllun fjölmiðla á meðan stríðið stendur yfir í samræmi við yfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna 2222 (2015).

Contact information