Stefnumótandi skoðanaskipti efldu menningarsamstarf Norðurlanda og Kanada

05.04.22 | Fréttir
Outi Pieski, Gorži at Nordic Lights Festival, Nordic Bridges
Photographer
Brian Medina

Gorži, ljósainnsetning Outi Pieski á Nordic Lights Festival í Toronto á Nordic Bridges 2022. 

Stefnumótandi skoðanaskipti í lista- og menningarmálum á milli fulltrúa Norðurlanda og Kanada fóru fram á röð netfunda haustið 2021. Alls 180 þátttakendur ræddu um málefnin sem eru efst á baugi í tengslum við menningarlega þætti sjálfbærrar þróunar og grænna umskipta, fjölbreytni í miðlun á netinu og framtíð hreyfanleika og menningarútflutnings. Nú er komin út samantekt þar sem birtar eru 12 áhugaverðar meginniðurstöður.

Á tímabilinu september til desember 2021 áttu háttsettir embættismenn og sérfræðingar frá Kanada og Norðurlöndunum þrjá netfundi. Þessi stefnumótandi skoðanaskipti Kanada og Norðurlandanna leiddu berlega í ljós að löndin vinna að heilum hug að sjálfbærri menningarþróun og fjölbreytni í bæði innlendu og alþjóðlegu samhengi. Eins og sameiginleg athugunarefni og framtaksverkefni ríkjanna bera með sér er markmið bæði Kanada og Norðurlanda að nota listir og menningu til að efla lýðræði, félagslega aðlögun, samheldni og velsæld í samfélögunum.

Menningarlegir þættir sjálfbærrar þróunar

Verkfæri til kerfisbreytinga, alþjóðlegs samstarfs og baráttu gegn falsfréttum og upplýsingaóreiðu eru aðeins nokkur atriði af niðurstöðunum tólf sem birtar eru í fræðsluritinu „Changing the system – promoting cultural sustainable development and diversity“. Einnig er vakin athygli á því að lítið tillit er tekið til menningarmála í heimsmarkmiðunum um sjálfbæra þróun og jafnframt er fjallað um áskoranirnar sem fylgja því að fella menningu inn í skýrslukerfi innleiðingu áætlunarinnar um markmiðin fyrir árið 2030.


„Málið er einfaldlega að skortur á samþættingu milli ólíkra skýrslukerfa kann að valda því að mikilvæg gögn fara forgörðum“ sagði Kimmo Aulake, aðstoðarmaður menntamálaráðherra Finnlands.
 

Kolefnishlutlaus menningarverkefni

Þetta samtal fór fram fyrir tilstuðlan formennsku Finnlands í Norrænu ráðherranefndinni um menningarmál og menningarmálaráðuneytis Kanada árið fyrir norræna menningarverkefnið Nordic Bridges 2022 í Kanada. Markmiðið var að styðja við samstarf á milli listamanna í gegnum verkefnið með auknum tengslum Norðurlanda og Kanada á sviði menningarstefnu og verkefnastjórnunar, deila þekkingu og efla tengslanet, auk þess að hlúa að menningarlegum þáttum sjálfbærrar þróunar.

Laura McLeod, verkefnastjóri Nordic Bridges og menningarstjóri við Harbourfront Centre, sagði frá því hvernig unnið var að því að gera Nordic Bridges að kolefnishlutlausri hátíð:

„Markmið okkar er að hátíðin sé kolefnishlutlaus. Við stefnum að því að áhrifin á umhverfið séu engin. Það er djarft en við vorum með sérstakan lið í fjárhagsáætluninni um nauðsynlegar fjárfestingar til að gera þetta að veruleika. Hvort sem það er kolefnisjöfnun eða engin matarsóun í móttökunni. Við hugum að þessum málum í stóru jafnt sem smáu. Þetta er algjörlega ný stefna í framleiðni hjá Harbourfront Centre.“

Sérfræðiálit og niðurstöður

Ritið „Changing the system - promoting cultural sustainable development and diversity: Expert opinions from the Culture and Arts Policy Dialogues between Canada and the Nordics in 2021“ er aðgengileg á netinu (tengill fyrir neðan).