Ungir blaðamenn skrásetja loftslagsvandann á sýningu sem brúar Atlantshafið

21.12.22 | Fréttir
Photo from the Dispatches exhibition. Part of Nordic Bridges.
Photographer
Diellza Murtezaj and Meral Jamal

„Svipmynd af Attu“, ljósmynd af sýningunni Dispatches í Harbourfront Centre í Toronto. Hluti af Nordic Bridges. 

Sýningin Dispatches varpar ljósi á reynslu ungra norrænna og kanadískra loftslagsblaðamanna og setur áhrifamikinn lokapunkt við Nordic Bridges-verkefnið. Þátttakendur í norræn-kanadísku styrkjaáætluninni um umhverfisblaðamennsku skrásettu kynni sín af hinum ýmsu samfélögum og listilegar frásagnirnar bera svo sannarlega vott um gæði námskeiðsins.

Norræn-kanadíska styrknum fyrir umhverfisblaðamennsku var hleypt af stokkunum árið 2021, þegar ungum blaðamönnum var boðið að taka þátt í 18 mánaða alþjóðlegu námskeiði þar sem áhersla var lögð á innblástur og fræðslu um afleiðingar loftslagsváarinnar fyrir nærsamfélög og á alþjóðavísu. Áhersla var lögð á gagnreyndar frásagnir þar sem virðing fyrir samfélögunum og fólkinu var í fyrirrúmi.


„Ungt fólk hefur verið í fararbroddi loftslagsaðgerða á heimsvísu. Eftir því sem loftslagsváin verður alvarlegri gegnir öflug blaðamennska með ungt fólk í fyrirrúmi sífellt veigameira hlutverki þegar kemur að því að beina sjónum að mikilvægum málefnum og draga valdhafa til ábyrgðar,“ sagði Lex Harvey, blaðamaður og skipuleggjandi styrkjaáætlunarinnar, þegar verkefninu var hleypt af stokkunum. 

Afrakstur verkefnisins er nú til sýnis í Harbourfront Centre í Toronto sem hluti af lokamánuði norræna menningarátaksins Nordic Bridges í Kanda.
 

Ungt fólk hefur verið í fararbroddi loftslagsaðgerða á heimsvísu. Eftir því sem loftslagsváin verður alvarlegri gegnir öflug blaðamennska með ungt fólk í fyrirrúmi sífellt veigameira hlutverki þegar kemur að því að beina sjónum að mikilvægum málefnum og draga valdhafa til ábyrgðar. 

Lex Harvey, blaðamaður og skipuleggjandi styrkjaáætlunarinnar

Fréttaskeyti frá fremstu víglínu loftslagsvárinnar

Á sýningunni eru sagðar sögur um von, þrautseigju og breytingar frá sjónarhóli ungs fólks sem sjálft hefur alist upp við loftslagsvána. Varpað er fram gagnrýnum spurningum á þessari ögurstund í mannkynssögunni og sýnt er fram á hve öflugt þvermenningarlegt samstarf getur verið þó höf og álfur skilji að.


Sýningin kemur í kjölfarið á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP27, í Sharm el Sheikh og alþjóðlegu ráðstefnunni um líffræðilega fjölbreytni, COP15, sem er að ljúka í Montreal. Þannig er varpað ljósi á samtal sem á sér stað allt í kringum okkur og um allan heim.

Blaðamennirnir ungu hafa farið víða og byrjuðu á Grænlandi, þar sem Teaghan Haysom og Thomas Kellerman Hansen ræddu við veiðimenn sem þurfa að takast á við þverstæðukenndar afleiðingar loftslagsbreytinga. Þó að þeir njóti ávinnings af fjölbreyttari fiskistofnum sem fylgja hlýnun sjávar ógnar hlýnandi loftslag líka sjálfum grundvelli menningar þeirra og því eru þeir á báðum áttum um breytingarnar. 

Aðrir blaðamenn hafa lagt áherslu á líffræðilega fjölbreytni, til dæmis Fern Marmont og Ólöf Rún Erlendsdóttir, sem hafa fylgst með baráttunni fyrir skógrækt og skógvernd í Íslandi og Kanada, og Joël Ngomi og Sara Tingström, sem hafa kannað borgarlandbúnað, umhverfisvitundina sem honum fylgir og hvernig hann stuðlar bæði að almennum náttúrutengslum meðal borgarbúa og auknu félagslegu réttlæti fyrir þau verr settu. 
 

Hringrás fram á við

Textílefni eru uppspretta 10% kolefnislosunar á heimsvísu. Blaðamennirnir Andrea Kunz Skrede og Erica Ngao kanna hvernig Norðurlönd stefna að því að gegna forystuhlutverki í sjálfbærri tísku og hvernig það markmið er í hrópandi mótsögn við bæði framleiðslu og neyslu á Norðurlöndum þrátt fyrir vilja margra hönnuða og fyrirtækja til að þróa hringrásarviðskiptalíkön.


Frumbyggjarnir í Norður-Kanada sem Laurie Trottier ræddi við lifa frábrugðnu og sjálfbæru lífi og segja frá  þeim fjölmörgu lausnum sem þeir geta boðið heiminum þegar kemur að sjálfbærri tilveru í sátt við gróður og dýr. Eins segja Lauren Beauchamp og Norah Lång frá frumbyggjum sem leitast við að lifa í sátt við náttúruna, til góðs eða ills, í viðtali við hirðingja af Samaættum sem vilja vernda hreindýrahjarðir sínar fyrir ágangi stórfyrirtækja.
 

Sögur af landi

Í öllum sögunum sem ungu blaðamennirnir segja er leitast við að mynda tengsl við fólk samfélög sem loftslagsbreytingar hafa áhrif á, og segja sögur þeirra augliti til auglitis og með þeirra eigin rödd. 

Þetta kemur hvergi betur í ljós en í einlægu og persónulegu frásögninni af loftslagsbreytingum á Grænlandi sem er síðasta frásögnin í safnritinu sem fylgir sýningunni Dispatches. Diellza Murtezaj og Meral Jamal heimsækja samfélag á Vestur-Grænlandi sem er gjörólíkt öllu sem þau hafa kynnst áður. Svona lýsa þau upplifun sinni af þessu samfélagi á tímamótum þegar þau fara í siglingu með gestgjafa sínum, Akatu Jakobsen: 

„Þarna þurftum við að hætta að tala og einbeita okkur bara að upplifuninni af því að vera þarna. Það er eitthvað sem okkur ungu blaðamönnunum er ekki alltaf ráðlagt að sækjast eftir – að fanga upplifunina. Blaðamennska byggir á staðreyndum, á hinu efnislega, á því sem er sagt og gert. En loftslagsbreytingar eru jafnmikil tilfinning og þær eru staðreynd. Sú staðreynd að fólk eins og Akatu Jakobsen horfi upp á landið sitt breytast án þess að geta endilega haft eitthvað að segja um hvernig skuli vernda það vakti okkur til umhugsunar um þennan veruleika sem fólk býr við.“
 

Loftslagsstyrkþegar

Norræn-kanadíski styrkurinn fyrir umhverfisblaðamennsku veitti efnilegum 18-25 ára blaðamönnum frá Norðurlöndum og Kanada þetta einstaka tækifæri. Blaðamennirnir ungu unnu með átta leiðbeinendum og lærðu bæði undirstöðuatriði og blaðamennsku fyrir lengra komna. Og árangurinn er glæsilegur, eins og kemur berlega í ljós á sýningunni Dispatches.


„Styrkjaáætlunin hefur sýnt fram á mikilvægi blaðamennsku — og þá sérstaklega umhverfisblaðamennsku - þvert á landamæri,“ segir skipuleggjandinn Lex Harvey.

Sýningin Dispatches stendur yfir frá 8. desember til 8. janúar á næsta ári, En tengslin sem þátttakendurnir ungu hafa myndað sín á milli munu vara um árabil og vonandi skila sér í mikilvægum frásögnum af afleiðingum loftslagsváarinnar sem fram undan er.

Ekki er fyrirhugað að sýningin fari víðar en bókin „Dispatches“ verður gefin út á netinu árið 2023.

Um norræn-kanadíska styrkinn fyrir umhverfisblaðamennsku

Norræn-kanadíski styrkurinn fyrir umhverfisblaðamennsku veitir ungum blaðamönnum frá Norðurlöndum og Kanada færi á að læra og vinna saman. Norræna ráðherranefndin er bakhjarl styrkjaáætlunarinnar og henni er stýrt af Harbourfront Centre í Toronto sem hluta af menningarverkefninu Nordic Bridges 2022.
 

Exhibition Fellowship Nordic Bridges
Photographer
Brian Medina