Ungt fólk hefur áhrif á norrænt samstarf

07.10.19 | Fréttir
Barbara Gaardlykke Apol

Barbara Gaardlykke Apol, Ungdommens Nordiske Råd

Photographer
Ungdommens Nordiske Råd
Raddir ungra norrænna stjórnmálamanna heyrast og þær skipta verulegu máli í norrænu samstarfi. Þetta er skoðun Barböru Gaardlykke Apol, forseta Norðurlandaráðs æskunnar sem hlakkar til Norðurlandaráðsþingsins sem er framundan og er ánægð með að loftslagsmál skuli hafa orðið fyrir valinu sem þema þingsins.

Norðurlandaráð æskunnar (UNR) hefur áhrif á þróun norræns samstarfs og á þátt í því að í Norðurlandaráði verða til samstarfstillögur á breiðari grundvelli fulltrúalýðræðis en ella. Þannig lítur Barbara Gaardlykke Apol frá Færeyjum og forseti Norðurlandaráðs æskunnar á hlutverk æskulýðssamtakanna.

„Í grunninn lít ég svo á að tilgangurinn með Norðurlandaráði æskunnar sé að leggja fram nýjar hugmyndir þannig að Norðurlandaráð sé skipað fulltrúum eins breiðs hóps og kostur er og leggi með því móti fram eins margar tilögur um samstarf og kostur er. Hluti af þessu er einnig að vera gagnrýninn og leggja fram bæði kröfur og tillögur,“ segir hún og bætir við til að útskýra þetta nánar:

„Ef farið er yfir þær ályktanir sem hafa verið samþykktar á þingum Norðurlandaráðs æskunnar og hafa svo seinna orðið þingmannatillögur í Norðurlandaráði þá sést að þetta eru í raun nokkuð margar tillögur. Þetta þýðir að tilvist okkar skiptir máli og veldur breytingum.

Ef farið er yfir þær ályktanir sem hafa verið samþykktar á þingum Norðurlandaráðs æskunnar og hafa svo seinna orðið þingmannatillögur í Norðurlandaráði þá sést að þetta eru í raun nokkuð margar tillögur. Þetta þýðir að tilvist okkar skiptir máli og veldur breytingum.

Barbara Gaardlykke Apol, forseti Norðurlandaráðs æskunnar

Áhrif ungs fólks eru mikilvæg fyrir lýðræðið

Það er lykilatriði að hlustað sé á ungt fólk ef halda á í grundvallarreglur fulltrúalýðræðisins. Spurningunni um hvort og hvernig hin sænska Greta Thunberg hafi greitt fyrir pólitískum áhrifum ungs fólks svarar Barbara Gaardlykke Apol þannig:

„Mér finnst orðið nokkuð útbreitt að reynt sé að virkja ungt fólk í ákvarðanatökuferli á pólitískum vettvangi. Það er svo annað mál hversu mikil áhrif það hefur og hvernig það tekst. Ég á ekki við að Greta Thunberg sé endilega ástæða þessa. En Greta Thunberg hefur komið af stað hnattrænni hreyfingu sem fer fram á byltingarkenndar breytingar og aðgerðir á sviði loftslagsmála. Eftir langvarandi mótmæli og ákall um að grípa til aðgerða hefur henni tekist að ná athygli heimsbyggðarinnar. Hún á skilið mikið hrós fyrir það.

Auk þess finnst mér líka sjálfsagt að stjórnmálafólk hlusti á unga fólkið. Alveg eins og það á að hlusta á jafnaldra sína, eldra fólk og alls konar aðra hópa. Við erum með grundvallarlýðræðisvanda ef ekki er hlustað á svo stóran hluta íbúanna. 

Barbara Gaardlykke Apol forseti Norðurlandaráðs æskunnar er ekki hrædd við að skapa umræður. Á þemaþingi Norðurlandaráðs 2019 lagði hún fóstureyðingar fram til umræðu á þingfundinum.

Hlutverk norrænna ungmenna á heimsvísu

Auk framlagsins til Norðurlandarsamstarfs tekur Norðurlandaráð æskunnar þátt í samstarfi á alþjóðlegum vettvangi þar sem það er fulltrúi norræns samstarfs og skiptist á þekkingu við umheiminn.

„Mér finnst við geta verið stolt af starfi Norðurlandaráðs æskunnar. Við fáum reyndar boð af ýmsum vettvangi víðsvegar í heiminum þar sem óskað er eftir því að læra um samtök okkar og jafnvel líkja eftir uppbyggingu okkar,“ segir Barbara Gaardlykke Apol.

Hlakkar til Norðurlandaráðsþingsins

Í samræmi við hina norrænu sýn um að vera sjálfbærasta og samþættasta svæði í heimi eru loftslagsmál þema komandi Norðurlandaráðsþings. Barbara Gaardlykke Apol gleðst yfir þeirri ákvörðun.

„Ég er mjög ánægð með þema ársins sem einmitt eru loftslagsmál. Ég hlakka verulega mikið til að heyra tillögur norræna stjórnmálafólksins að lausnum og enn meira til þess að heyra hvernig við á Norðurlöndum getum saman náð markmiðinu um að vera sjálfbærasta svæði heims. Ég vona að aðgerðir verði undirbúnar og að eining muni ríkja um að standa saman á Norðurlöndum,“ segir forseti Norðurlandaráðs æskunnar.

„Í tilefni af þema þingsins langar mig að hvetja til meira samstarfs á sviði loftslagsmála. Norðurlöndin er stórkostlegur staður og þar býr fólk við góðar aðstæður þannig að við höfum enga afsökun fyrir því að setja okkur ekki metnaðarfull markmið svo sem að vera leiðandi svæði í að draga úr losun koltvísýrings, fjárfestingum í grænni orku og verndun líffræðilegrar fjölbreytni. Við verðum að grípa til aðgerða strax,“ segir hún að lokum.

Norðurlöndin er stórkostlegur staður og þar býr fólk við góðar aðstæður þannig að við höfum enga afsökun fyrir því að setja okkur ekki metnaðarfull markmið svo sem að vera leiðandi svæði í að draga úr losun koltvísýrings, fjárfestingum í grænni orku og verndun líffræðilegrar fjölbreytni. Við verðum að grípa til aðgerða strax.

Barbara Gaardlykke Apol, forseti Norðurlandaráðs æskunnar

Barbara Gaardlykke Apol hefur verið forseti Norðurlandaráðs æskunnar síðan í október 2018. Arftaki hennar verður kjörinn á þingi Norðurlandarráðs æskunnar 26. og 27. október 2019. Hún er frá Færeyjum og er fulltrúi ungra sósíalista.