Ungt fólk heldur leiðtogafund um náttúrukreppuna

22.01.20 | Fréttir
unga håller möte på Christiansborg
Ljósmyndari
Anna Rosenberg
Dagana 28. og 29. mars safnast ungt fólk frá öllum Norðurlöndum með áhuga á náttúruvernd og loftslagsmálum saman á leiðtogafundi í Kaupmannahöfn Þau ætla að koma sér saman um kröfur vegna viðræðnanna um líffræðilega fjölbreytni sem nú standa fyrir dyrum.

Í vaxandi mæli er nú litið á náttúrukreppu sem knýjandi framtíðarverkefni samhliða loftslagsbreytingunum.  

Vekjaraklukkan var skýrsla rannsóknarnefndar Sameinuðu þjóðanna sem kom út í maí 2019 og sýndi fram á að allt að milljón tegunda eru í útrýmingarhættu.

Ástæðurnar eru ofnýting manna á landi og sjó, losun gróðurhúsalofttegunda og önnur mengun.

Norræn sendinefnd ungs fólks til Kína

2020 er árið sem lönd heimsins koma saman til að sameinast um ný sameiginleg markmið til þess að vernda náttúruna og stöðva eyðingu tegunda og vistkerfa.

Öll löndin 196 sem áður hafa undirritað heimsmarkmiðin um líffræðilega fjölbreytni koma saman í Kumning í Kína í október til þess að samþykkja ný markmið.

Sendinefnd ungs fólks úr norrænu samstarfi mun sitja við samningaborðið þar.

Unnið að kröfum

Þau muni leggja fram kröfur sínar til nýja samningsins sem nú er verið að móta á röð ungmennaráðstefna og málstofa. 

Ungt fólk hefur með stuðningi norræns samstarfs og norrænu ríkisstjórnanna skipulagt fundi í Kaupmannahöfn 9. janúar, í Helsinki og Þórshöfn 24. janúar, í Stokkhólmi 31. janúar og í Reykjavík 21. febrúar.

Og síðustu helgina í mars lætur ungt fólk frá öllum Norðurlöndunum ljós sitt skína í miðstöð Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn.

Í tvo daga ætla þau að ræða hvaða málefni skipta mestu máli í alþjóðlegu viðræðunum sem standa fyrir dyrum og vinna að skilaboðum ungs fólks á Norðurlöndum.

Auðug ríki bera mikla ábyrgð

Tine Sille Svendsen frá Den Grønne Studenterbevægelse er ein þeirra sem skipuleggja leiðtogafund unga fólksins. 

Hún vonar að leiðtogafundurinn muni þrýsta á ríkisstjórnir norrænu ríkjanna.

„Ég vona að við komum okkur saman um sterkar og skýrar kröfur til norræns áhrifafólks og alþjóðaviðræðnanna. Þau bera sérstaka ábyrgð í heiminum vegna þess að þau eru fulltrúar auðugra ríkja sem hafa mikil áhrif á loftslag og lífræðilega fjölbreytni,“ segir Tina Sille Svendsen.

Unga fólkið er skrefi á undan

Christa Elmgren frá Norðurlandaráði æskunnar skipulagði málstofu um líffræðilega fjölbreytni í Finnlandi þar sem 60 ungmenni tóku þátt.

„Þeim fer fjölgandi sem eru meðvitaðir um kreppuna sem líffræðileg fjölbreytni stendur frammi fyrir, hún er meira að segja á dagskrá á alþjóða efnahagsráðstefnunni í Davos. Unga fólkið er skrefi á undan. Það er einstakt tækifæri fyrir okkur að halda leiðtogafundi og miðla boðskap okkar frá honum til alþjóðlegu viðræðnanna,“ segir Christa Elmgren. 

Fylgist með 100 ungum Dönum sem koma saman í Kristjánsborgarhöll til að stöðva náttúrukreppuna: