Vefþing: Að umbreyta matvælakerfum með sjálfbæru norrænu mataræði

26.08.21 | Fréttir
Webinar on food system transformation
Photographer
norden.org
Nú gefst færi á að hitta níu boðbera breytinga frá norrænu löndunum og víðar að úr heiminum og fræðast um leiðir til að tengja saman næringu og umhverfissjálfbærni á viðburði í aðdraganda Food System Summits, leiðtogafundar Sameinuðu þjóðanna um matvælakeðjur. Á vefþinginu „From science and guidelines to food system transformation“ þann 2. september verður tekist á við mikilvæga áskorun í samtíma okkar: hvernig breyta megi matarvenjum.

Núverandi neyslumynstur á Norðurlöndum er ekki í samræmi við opinberar ráðleggingar um mataræði í löndunum og stuðlar heldur ekki að því að sjálfbærnimarkmiðum verði náð. Til þess að hjálpa fleirum að tileinka sér heilbrigðan og sjálfbæran lífsstíl verðum við að gera breytingar á matarvenjum okkar. Það verður ekki létt verk. Miðlun þekkingar milli landa og landsvæða er því mikilvægur þáttur í því að umbreyta matvælakerfunum.

Vefþingið fer fram í aðdraganda leiðtogafundar Sameinuðu þjóðanna um matvælakeðjur (Food Systems Summit), alþjóðlegs viðburðar þar sem viðfangsefnið er matvælatengdar lausnir við heimsmarkmiðum SÞ um sjálfbæra þróun.

Norræn sýn á heilnæmar og sjálfbærar næringarráðleggingar

Á vefþinginu „From science and guidelines to food system transformation“ verður sjónum beint að nýrri útgáfu norrænu næringarráðlegginganna (NNR), sem kemur út 2022, og fordæmisgefandi hlutverki þeirra fyrir svæðasamstarf um mataræðisráðleggingar og ráðlagða inntöku næringarefna. Norrænar næringarráðleggingar mynda vísindalegan grundvöll næringarviðmiða og ráðlegginga um mataræði í Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð. 

Væntanleg útgáfa næringarráðlegginganna er sú fimmta hingað til og byggir á nýjustu vísindaniðurstöðum úr næringar-, heilbrigðis- og umhverfisfræðum. Í fyrsta sinn frá upphafi verða sjálfbærniviðmið nú felld inn í ráðleggingarnar.  

„Í norrænu næringarráðleggingunum 2022 verða sjálfbærnisjónarmið samþættuð á grundvelli bestu og nýjustu vísindaþekkingar sem völ er á. Þær munu gegna hlutverki leiðarvísis sem getur stuðlað að nauðsynlegri umbreytingu til heilnæmari og umhverfislega sjálfbærari matvælakerfa á Norðurlöndum,“ segir doktor Annica Sohlström, framkvæmdastjóri sænsku matvælastofnunarinnar.

Hvernig getum við tileinkað okkur heilnæmari og loftslagsvænni matarvenjur?

Ríkisstjórnir norrænu landanna eru einnig farnar að samþætta sjálfbærniviðmið inn í ráðleggingar sínar um mataræði. Í janúar 2021 lét ríkisstjórn Danmerkur uppfæra mataræðisráðleggingar sínar með því markmiði að leiðbeina Dönum ekki aðeins um að borða heilnæmari fæðu, heldur einnig um að tileinka sér loftslagsvænna mataræði.

Með vefþinginu „From science and guidelines to food system transformation“ á að setja markið enn hærra og horfa lengra en að þróun ráðlegginganna. Lögð verður áhersla á að bjóða upp á heilnæmar og sjálfbærar máltíðir í opinberum skólum sem eina af mörgum aðferðum til þess að innleiða þær nauðsynlegu breytingar sem lýst er í næringarráðleggingunum. Annað dæmi um innleiðingu ráðlegginganna er Skráargatið, norrænt merki sem auðveldar neytendum að velja hollari kosti innan vöruflokka í verslunum.
 

Leiðtogafundur SÞ um matvælakeðjur framundan

Vefþingið fer fram í aðdraganda leiðtogafundar Sameinuðu þjóðanna um matvælakeðjur í september 2021. Norrænu ráðherrarnir sem fara með málefni fiskveiða, fiskeldis, matvæla og skógræktar lýsa fullum stuðningi við leiðtogafund SÞ um matvælakeðjur og halda áfram virku samstarfi sínu við alþjóðasamfélagið um leiðtogafund sem skila á áþreifanlegum aðgerðum. 

„Við á Norðurlöndum höldum áfram að efla sjálfbærni í matvælakerfum okkar, bæði svæðisbundið, landsbundið og alþjóðlega. Við erum fús til þess að deila reynslu okkar, nýsköpun og bestu starfsvenjum til að umbreyta matvælakerfum okkar í sjálfbærari kerfi. Norrænu næringarráðleggingarnar 2022 eru dæmi um slíkt,“ segir Jari Leppä, ráðherra landbúnaðar og skógræktar í Finnlandi.

Hér má lesa yfirlýsingu ráðherranna

Vertu með okkur 2. september!

Vilt þú læra meira um ráðleggingarnar og ýmis tól sem nota má til að efla bæði næringarstuðul og umhverfissjálfbærni? Taktu þátt í gagnvirkum umræðum með Norrænu ráðherranefndinni í aðdraganda leiðtogafundar SÞ um matvælakeðjur. Þau verða á vefþinginu:

  • Jari Leppä, ráðherra landbúnaðar og skógræktar, Finnlandi
  • Rune Blomhoff, verkefnisstjóri hjá nefndinni um norrænu næringarráðleggingarnar
  • Dr. Helen Harwatt, Senior Research Fellow í orku-, umhverfis- og auðlindadeild, Chatham House
  • Dr. Amanda Wood, fræðimaður, Resilience Center í Stokkhólmi
  • Dr. Annica Sohlström, framkvæmdastjóri sænsku matvælastofnunarinnar, Svíþjóð
  • Anne Pøhl Enevoldsen, deildarstjóri hjá dönsku matvælastofnuninni, Danmörku
  • Marjaana Manninen, sérstakur ráðgjafi hjá fræðsluráði Finnlands
  • Dr Kremlin Wickramasinghe, gegnir tímabundið stöðu verkefnastjóra næringar, hreyfingar og offitu, Evrópuskrifstofu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar um varnir og eftirlit með smitlausum sjúkdómum
  • Dr. Afton Halloran, umræðustjóri, sjálfstæður ráðgjafi á sviði sjálfbærrar umbreytingar matvælakerfa

Allir eru velkomnir!

Vinsamlegast athugið að umræðurnar fara fram á ensku og fjöldi þátttakenda er takmarkaður. Það þarf að skrá sig á viðburðinn.

BEINT

Fylgist með beinu streymi hér frá kl. 13:00 (CEST) þann 2. september.