Velferðarhagkerfi á tímum kórónuveiru

17.12.21 | Fréttir
Family by the water
Ljósmyndari
Tam Vibberstoft / norden.org
Nálgun sem byggist á velferðarhagkerfi getur eflt norræna velferðarlíkanið sem á undir högg að sækja vegna kórónuveirukrísunnar, sem hefur markað greinileg spor í andlega heilsu fjölskyldna og einstaklinga á Norðurlöndum.

Þótt Norðurlönd hafi komist betur en mörg önnur lönd frá kórónuveirunni kom það fram á Nordic Welfare Forum 2021 að margt má enn betur fara. Sérstök áhersla var lögð á jafnréttismál og rætt var um að víða á Norðurlöndum hefði komið í ljós að faraldurinn bitnaði ekki með sama hætti á öllum kynjum. Neikvæðar afleiðingar COVID-19 koma harðar niður á ungu fólki, fólki með fötlun og fólki í viðkvæmri félagslegri stöðu heldur en öðrum þjóðfélagshópum. Á meðal ungs fólks er að finna þau sem upplifað hafa mestu skerðinguna á andlegri heilsu, félagslegum tengslum og huglægri velferð. Hjá sumum þjóðernisminnihlutasamfélögum hefur dánartíðni vegna COVID-19 verið meira en tvöfalt hærri en hjá öðrum þjóðfélagshópum og þau sem tilheyra þjóðernisminnihlutahópum hafa verið í meiri hættu á að missa starf sitt í faraldrinum.

Leiðin áfram

Formennska Finnlands í Norrænu ráðherranefndinni leggur áherslu á hvernig norrænu löndin geti í auknum mæli nýtt sér velferðarhagfræðilega nálgun til að takast á við kórónuveiruvandann og efla velferðarlíkanið almennt. Líta má á velferðarhagkerfi sem þverfaglega nálgun þar sem vellíðan fólks tengist þjóðarhag með beinum hætti. Með örlítilli einföldun má draga eftirfarandi ályktun: Ef íbúar Norðurlanda eru hraustir, búa við jafnrétti, stunda nám eða starf, eru afkastamiklir og nýskapandi og síðast en ekki síst hafa aðgang að traustu félags- og heilbrigðiskerfi þá eru allar forsendur fyrir sjálfbæru hagkerfi á sínum stað.

„Við viljum skapa betri skilning á því að líta verði á fjárfestingu í velferð almennings sem áhrifaþátt í sjálfbærum hagvexti.

Aino-Kaisa Pekonen, félags- og heilbrigðismálaráðherra Finnlands

Beinar aðgerðir – þekkingarsköpun og -miðlun

Finnar hafa sjálfir verið í fararbroddi ásamt bæði Dönum og Íslendingum og hafa í nokkur ár unnið út frá nálgun sem byggist á sjálfbæru hagkerfi en á öllum Norðurlöndum má sjá skyldar aðgerðir.

„Við viljum skapa betri skilning á því að líta verði á fjárfestingu í velferð almennings sem áhrifaþátt í sjálfbærum hagvexti,“ sagði Aino-Kaisa Pekonen, félags- og heilbrigðismálaráðherra Finnlands, við annað tækifæri. Því hefur Norræna ráðherranefndin að undirlagi Danmerkur ýtt úr vör verkefnum sem ætlað er að varpa ljósi á reynsluna af velferðarhagfræðilegum aðgerðum og félagslegum fjárfestingum á Norðurlöndum, jafnt á vegum ríkis sem sveitarfélaga. Samtímis á til lengri tíma að þróa vettvang til að miðla þeirri þekkingu sem til verður svo norrænu löndin geti fengið innblástur hvert af öðru og deilt þeim aðgerðum sem bera árangur.

Vandamál sem teygir anga sína út fyrir Norðurlönd

Á Nordic Welfare Forum 2021 var einnig fjallað um afleiðingar kórónuveirunnar utan landamæra Norðurlanda. Tölurnar sýna að alls staðar hefur andlegri heilsu hrakað á tímum faraldursins. Romina Boarini, forstöðumaður miðstöðvar velferðar, inngildingar, sjálfbærni og jafnra tækifæra hjá OECD (WISE) í Frakklandi benti á að andlegri heilsu almennings hefði farið verulega aftur í faraldrinum. Gögn frá 15 OECD-löndum benda til þess að yfir 25% fólks hafi verið í áhættuhóp vegna þunglyndis eða kvíða árið 2020. Einnig færðist í vöxt að fólk upplifði einmanaleika, aðskilnað og einangrun frá samfélaginu: 1 af hverjum 5 einstaklingum í 22 OECD-löndum upplifði oft eða alltaf einmanaleika í byrjun árs 2021 sem er hækkun frá 1 af hverjum 7 á fyrstu mánuðum faraldurins einu ári fyrr.