Vilja aukið norrænt samstarf í kringum almannavarnir

08.02.22 | Fréttir
Anne Beathe Tvinnereim
Photographer
Johannes Jansson/norden.org
Norrænu samstarfsráðherrarnir eru sammála um að framvegis þurfi að leggja mikla áherslu á aukið norrænt samstarf í kringum almannavarnir. Nú þegar er um mikið samstarf að ræða á þessu sviði með ýmiss konar norrænni umgjörð en það er ekki síst fyrir tilstilli heimsfaraldursins að í ljós hefur komið að hægt er að þróa og efla þetta samstarf enn frekar.

Eftir því sem samfélagið opnast á ný að faraldrinum loknum er kominn tími til að draga lærdóm af þeirri reynslu sem fengist hefur. Þann 8. febrúar hittust norrænu samstarfsráðherrarnir á rafrænum fundi. Noregur gegnir formennsku í Norrænu ráðherranefndinni árið 2022 og það var norski samstarfsráðherrann Anne Beathe Tvinnereim sem stýrði fundi. Með Framtíðarsýn okkar 2030 hafa verið sett háleit markmið um að Norðurlönd verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims. Undir formennsku Noregs verður áfram róið í þá átt. Aukið norrænt samstarf um almannavarnir er mikilvægur hluti af þessu og var því ofarlega á baugi á fundinum.

„Öll norrænu löndin hafa þurft að kljást við faraldurinn. Nú eru teikn á lofti um að við getum á ný styrkt hin norrænu bönd með því að ferðast, vinna, eiga viðskipti og hittast. Fundurinn í Kaupmannahöfn gefur gott tilefni til þess að líta fram á veg og skoða hvernig við getum náð markmiðum okkar,“ segir Tvinnereim.

Samstarfsráðherrarnir hafa fengið innlegg úr mörgum áttum. Í skýrslunni „Almannavarnir á Norðurlöndum“ eftir Jan-Erik Enestam eru settar fram nokkrar tillögur að því hvernig efla megi almannavarnir. Önnur mikilvæg skýrsla er „Nordic Cooperation amid pandemic Travel Restrictions“ frá finnsku utanríkismálastofnuninni FIIA þar sem fjallað er um afleiðingar faraldursins fyrir norrænt samstarf. Óskað hefur verið eftir skýrslu um aðfangaöryggi og viðbúnaðarmál, einnig frá FIIA, og er hennar vænst fyrir sumarið.Norðulandaráð hefur einnig lagt sitt af mörkum til þessarar vinnu.

„Samstafið við Norðurlandaráð skiptir mjög miklu máli, jafnt á þessu sviði sem öðrum, eigum við að ná að raungera hið sameiginlega markmið okkar um öflugt og markvisst norrænt samstarf,“ heldur Tvinnereim áfram.

Norski samstarfsráðherrann vísar til þess að nú þegar eigi sér stað víðtækt norrænt samstarf um almannavarnir eftir ýmsum rótgrónum leiðum. Hjá þeim fagyfirvöldum sem fara með þessi mál fer jafnframt stöðugt fram vinna að því að efla samstarfið frekar, ekki síst í ljósi reynslunnar af faraldrinum. Norrænu samstarfsráðherrunum ber saman um að þeir vilji nú stuðla að því að halda þessum málum vel á lofti og tryggja góða og heildstæða eftirfylgni með þeim fjölda verkefna og tillagna sem stutt er við.

„Faraldurinn er dæmi um stórt áfall sem dunið getur yfir norrænu löndin. Þegar áföll koma upp getur það verið úrlausnarefni hversu nátengd við erum á Norðurlöndum, en á hinn bóginn getur það líka stuðlað að því að við getum fundið betri lausnir á sameiginlegum vandamálum.Meginverkefni okkar nú er að efla norrænt samstarf. Ekkert norrænt land á að standa eitt í erfiðleikum, segir Anne Beathe Tvinnereim samstarfsráðherra Norðurlanda.

 

Contact information