Marianna Kurtto

Marianna Kurtto
Photographer
Aapo Huhta
Marianna Kurtto: Tristania. Skáldsaga, WSOY, 2017. Tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2019.

Rökstuðningur:

Eldgos úr öðrum heimi á hinni afskekktu eyju Tristan da Cunha var á forsíðum heimsfréttanna í október 1961. Á eynni, sem staðsett er í Suður-Atlantshafi í meira en tvö þúsund kílómetra fjarlægð frá ströndum Afríku, bjuggu um tvö hundruð íbúar þegar gosið varð. Þeir neyddust til að flýja á nærliggjandi eyju, krökka af fýlum, og voru þaðan fluttir til Höfðaborgar og Lundúna.

Síðan náttúruhamfarirnar áttu sér stað hefur fjöldi skýrsla og annarra fræðitexta birst um Tristan da Cunha, sem hefur ímynd paradísareyjar þar sem samheldni ríkti. Marianna Kurtto (f. 1980) hefur nýtt slík rit til að kynna sér sögu eyjunnar og lífshætti íbúanna. Á þeim grunni staðreynda hefur hún spunnið skáldsögu sem hverfist um eldgosið. Lýsing höfundar á Tristan da Cunha er heillandi og gerð er grein fyrir örlögum íbúanna á hjartnæman hátt. Á köflum hverfur söguþráðurinn aftur til miðbiks 6. áratugar tuttugustu aldar og fylgir eyjaskeggjum eftir fram að miðbiki 7. áratugarins.

Tristaniu – sem ber sama nafn og skip eyjaskeggjanna – mætti kalla nútímalega útgáfu af hefðbundnum eyjasögum. Eyjasögur hafa átt sess í heimsbókmenntunum allt frá Ódysseifskviðu Hómers en í norrænum þjóðsögum er einnig mikið um lýsingar á eyjum og íbúum þeirra. Undir sömu hefð heyra einnig skipbrotssögur á borð við Róbinson Krúsó og sömuleiðis sögur af „eyjum hinna hamingjusömu“, minni sem Strindberg og fleiri hafa leikið sér að með því að ljá „fyrirmyndarríkjum“ eða útópíum einkenni sem eru andstæða hins útópíska.

Marianna Kurtto nálgast ýmsa hefðbundna þætti á persónulegan hátt í sögunni. Í Tristaniu lifir fólk í sátt við náttúruna og hefur lifibrauð sitt einkum af auðlindum eyjarinnar og hafsins í kring. Eyjaskeggjar eiga í nánum tengslum sín á milli og taka sameiginlegar ákvarðanir um sín mál. En ýmsar nöðrur geta laumað sér inn í paradís, einkum þegar náttúran sýnir sínar harðneskjulegri hliðar: endurteknir stormar reyna á þolrif eyjaskeggjanna, landið skelfur og eldfjallið spýtir hrauni úr tálknum sínum. „Kannski fæðing eyjarinnar hafi líka verið slys: kannski eyjan sé slysabarn sem varð of stórt, og nú þurfi að eyða því,“ segir sögumaður í tilraun sinni til að finna náttúrulegar skýringar á vanda eyjarinnar.

Í Tristaniu er sagt frá ólíkum fjölskyldum og aðstæðum þeirra, þar á meðal börnunum, sem fléttast inn í frásögnina með eðlilegum hætti. Skipt er á milli nokkurra sögumanna sem varpa ljósi á sömu atburði frá ólíkum sjónarhornum. Sögusviðið færist sömuleiðis frá eyjunni og til Englands og Suður-Afríku, sem auðgar söguna enn frekar. Í brennidepli frásagnarinnar er fiskimaðurinn Lars og kona hans Lise, en samband þeirra er komið í öngstræti. Rödd sonar þeirra, Jons, varpar frekari blæbrigðum á lýsinguna á fjölskyldulífinu og samskiptum hjónanna. Af öðrum sögumönnum er Martha hvað eftirminnilegust. Hún er eini kennarinn á eynni og á sér erfiða fortíð sem varpar skugga á sambönd hennar við annað fólk.

Þegar eldfjallið gýs er Lars í viðskiptaferð á Englandi, þar sem hann hefur orðið ástfanginn af blómasölukonu að nafni Yvonne og flutt inn til hennar. Þegar hann les fregnir af atburðunum í Tristan da Cunha bærir samviskan á sér og hann ákveður að snúa aftur til fjölskyldu sinnar. Lars gegnir þannig hlutverki eins konar Ódysseifs sem hefur fallið fyrir freistingum sírenanna. Lise lætur sér þó ekki nægja hlutverk Penelópu, heldur tekur saman við skrifstofustjóra frá Höfðaborg í fjarveru eiginmanns síns. Lars finnur sér líka nýjan félaga; fyrrum nágranna sinn, Mörthu, sem hann ferðast með aftur til Tristan da Cunha.

Margir þeirra eyjaskeggja sem fluttir voru til Englands vilja einnig snúa aftur. „Hafið var langt í burtu, sögðu þau, og við sukkum niður í jörðina. Sumir höfðu með sér nýjan maka eða barn sem hafði fæðst meðan á útlegðinni stóð, og nú var hið afskekkta heimili þeirra ekki lengur duttlungum örlaganna háð, það var ekki hönd neins guðs sem hafði kastað þeim þangað; þau höfðu sjálf valið sinn stað.“ Þannig hlýtur eyjasagan hamingjusamlegan endi þó að hún geti ekki orðið aftur sú paradís sem áður var.

Styrkleikar frásagnarinnar í Tristaniu liggja í því hvernig höfundur notar fyrirboða og endurlit á skapandi hátt til að knýja söguna áfram. Skáldsagan fylgir persónunum eftir og kemur stöðugt á óvart með óvæntum snúningum. Söguþráðurinn launar lesendum með því að veita úrlausn við vandamálum og flækjum sem komið hafa á sambönd persónanna. Frá upphafi til enda er skáldsagan borin uppi af þéttum texta, krökkum af frumlegu myndmáli, sem veitir verkinu ljóðrænt gildi.

Á undanförnum árum hafa viðfangsefni finnskra bókmennta orðið æ fjölmenningarlegri. Finnskir rithöfundar sækja sér nú efnivið og þemu í víðara samhengi en fyrr. „Með hjálp ímyndunaraflsins er hægt að ferðast út að endimörkum heimsins og inn í aðrar manneskjur, ef maður vill,“ skrifaði Kari Hotakainen, handhafi bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2004. Með skáldsögu sinni skipar Marianna Kurtto sér í flokk slíkra heimshornaflakkara bókmenntanna.

Áður en Tristania kom út hafði Marianna Kurtto sent frá sér fimm ljóðabækur og hlotið fjölda bókmenntaverðlauna í Finnlandi. Hún starfar einnig sem þýðandi fagurbókmennta úr ensku yfir á finnsku.