Norðurlandaráð blæs til baráttu gegn stafrænu kynferðisofbeldi

13.04.21 | Fréttir
Internet
Ljósmyndari
Jumpstory
Velferðarnefnd Norðurlandaráðs vill takast á við niðrandi og hatursfulla orðræðu á netinu. Þessi tilhneiging sækir á og bitnar sérstaklega á konum sem verða fyrir kynferðislegri áreitni og er ýtt út úr opinberri umræðu með hótunum.

„Þegar orðræðan á netinu er svo hörð að hún heldur hópi fólks frá því að taka þátt í lýðræðislegri umræðu verður það ógn við tjáningarfrelsið og veikir lýðræðið,“ segir Liselott Blixt og bendir á að lýðræðisleg umræða hafi undanfarin ár flust á netið og sú þróun hafi svo styrkst enn frekar í heimsfaraldrinum. Margar rannsóknir sýna fram á að umræðan á netinu er hörð. Til dæmis benda Alþjóðaþingmannasambandið og Þingmannasamtök Evrópuráðsins á að konur á þjóðþingum verði fyrir gríðarlega miklum hótunum og kynferðislegri áreitni. 46,9 prósent aðspurðra höfðu fengið morðhótun eða hótun um að verða nauðgað. 58,2 prósent aðspurðra sögðust hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni á samfélagsmiðlum.

„Þetta kemur í veg fyrir þátttöku sumra kvenna í opinberri umræðu og dregur úr grundvallarréttindum í lýðræðissamfélagi,“ segir talsmaður nefndarinnar á sviði jafnréttis og varaformaður hennar, Nina Sanberg. Þess vegna leggur nefndin nú mikla áherslu á stafrænt kynferðisofbeldi. Markmiðið er að vekja athygli á vandanum og miðla þekkingu um góða starfshætti á þessu sviði þvert á landamæri. 

 

 

Við verðum að umbreyta andrúmsloftinu á netinu á Norðurlöndum

Þórdís Elva Þorvaldsdóttir var gestur fundar velferðarnefndarinnar í dag. Þórdís Elva leiðir og er stofnandi samtakanna Nordic Digital Rights and Equality Foundation. Þórdís Elva Benti á óréttlætið sem felst í því að sumir starfshópar, til dæmis stjórnmálafólk, verði nánast að gangast undir hatursfulla og á stundum ólöglega orðræðu á netinu ef fólk vill taka þátt í umræðunni. Þórdís Elva telur að gera verði upp við þessi „skilyrði“ og segir að við verðum að: 

„Umbreyta andrúmsloftinu á netinu á Norðurlöndum. Framtíð okkar er undir því komin. 

Og það er einmitt þess vegna sem Nordic Digital Rights and Equality Foundation var stofnað árið 2020 með það að markmiði að vinna að jafnrétti og lýðræði á Norðurlöndum.“ 

Þegar orðræðan á netinu er svo hörð að hún heldur hópi fólks frá því að taka þátt í lýðræðislegri umræðu verður það ógn við tjáningarfrelsið og veikir lýðræðið,

Liselott Blixt, fulltrúi í velferðarnefnd Norðurlandaráðs

Reiða netið 

Einnig er lögð áhersla á þetta málefni innan Norrænu ráðherranefndarinnar. Norræna ráðherranefndin lét á árinu 2020 vinna skýrsluna The Angry Internet þar sem bent er á hvernig hópar norrænna karla skipuleggja sig á netinu til þess að tala niðurlægjandi og hatursfullt um konur. Skýrslan bendir á að 850 norrænir notendur hafi framleitt kvenfjandsamlegt/hatursfullt efni á síðasta ári. Institut for samfundsforskning í Noregi sýnir að það eru að meirihluta til ungir karlmenn sem tjá sig með hatursfullum hætti og að þeir sem það gera hafi oft sjálfir orðið fyrir slíkri orðræðu. Rannsóknin er unnin fyrir Norðurlandaráð af Center for Digital Pædagogik og var liður í formennsku Dana árið 2020.