Kórónufaraldurinn á dagskrá á aprílþingi Norðurlandaráðs

11.04.21 | Fréttir
Christine Peterson/SIPA/Ritzau Scanpix
Photographer
Christine Peterson/SIPA/Ritzau Scanpix
Norðurlandaráð kemur saman á fjarfunum 14.-14. apríl. Á þessum þremur dögum funda meðal annars allir fimm flokkahóparnir, fagnefndirnar fjórar og forsætisnefndin.

Kórónuveirufaraldurinn er sem fyrr efst á baugi á Norðurlöndum og það endurspeglast í dagskrá aprílþingsins og þá sérstaklega dagskrá forsætisnefndar.

Forsætisnefndin, sem fundar á þriðjudag, mun meðal annars taka til umfjöllunar tillögu um samnorræna úttekt á því hvernig koma megi í veg fyrir landamæralokanir á Norðurlöndum þegar hættuástand ríkir og tillögu um sameiginlega norræna samantekt á viðbrögðum við kórónukreppunni frá norrænum sjónarhóli.

Ekki aðeins rætt um heimsfaraldur

Aprílþingið snýst þó ekki bara um heimsfaraldurinn. Meðal annars mun Norræna velferðarnefndin fjalla um hatursorðræðu á netinu og hagvaxtar- og þróunarnefndin mun ræða um framtíð vinnumarkaðsins á Norðurlöndum (Future of Work).

Þekkingar og menningarnefndin mun meðal annars fjalla um lokun höfundarréttarvarins efnis eftir svæðum og á dagskrá Norræna sjálfbærninefndarinnar eru ýmis málefni tengd loftslagi og umhverfinu, meðal annars tillaga um aðgerðir til að stemma stigu við ofauðgun í Eystrasaltinu.

Aprílþingið hefst á mánudaginn með fundi flokkahópanna, forsætisnefnd og fagnefndirnar funda á þriðjudag og þinginu lýkur með fundi stjórnsýsluhindranahópsins á miðvikudag.

 

Norðurlandaráð er opinber samstarfsvettvangur þjóðþinga Norðurlanda. Ráðið skipa 87 fulltrúar frá Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi, Svíþjóð og Álandseyjum, Færeyjum og Grænlandi. Árið 2021 gegnir Danmörk formennsku í ráðinu og forseti þess er Bertel Haarder.