Ráðherrar Norðurlanda og Eystrasaltsríkja ryðja brautina fyrir 5G-tækni á svæðinu

27.11.19 | Fréttir
MR-Digital i Riga
Photographer
André H. Jamholt / norden.org
Stafræn væðing verður æ örari í efnahagskerfi okkar og samfélagi. „Internet hlutanna“ (e. „Internet of Things“) opnar sýn á nýtt tengslaskeið þar sem milljarðar tækja í daglegu lífi okkar skiptast á gögnum og stafrænum upplýsingum. Norðurlönd og Eystrasaltsríkin stefna að því að gegna forystuhlutverki í innleiðingu 5G-tækni og nýskapandi lausna.

5G-tæknin getur breytt samfélaginu á fjölmörgum sviðum. Sjálfvirkari og tengdari heimur, grundvallaður á 5G-tækni, gæti orðið þýðingarmikil driffjöður sjálfbærrar þróunar og grænna lausna við loftslagsáhrifum, og stuðlað að aukinni hagsæld og bættum lífskjörum fyrir fjölda fólks. Þannig gæti innleiðing 5G-tækninnar gegnt lykilhlutverki í að ná þeim markmiðum sem fram koma í framtíðarsýn norrænu forsætisráðherranna fyrir norrænt samstarf fram til ársins 2030. Á árinu 2020 verður fyrsta 5G-netið innleitt og aðgengilegt á svæðinu.

Ólíkt umskiptunum úr 2G í 3G og þaðan í 4G mun áhrifa 5G gæta á nánast öllum sviðum samfélagsins, allt frá iðnaði, höfnum, flugvöllum og orkufyrirtækjum til fjölmiðla, landbúnaðar, fiskeldis, sjúkrahúsa og heilu borganna. Langflestar atvinnugreinar eiga mikið undir skilvirkri nýtingu á fjarskiptatíðnirófinu.

Hraðar og stöðugar tengingar hafa aldrei verið mikilvægari. Fyrirtæki og neytendur krefjast nú algerrar tengingar, hvort sem er á vinnustað eða heima fyrir, hvar sem er og hvenær sem er. En 5G snýst um annað og meira en bara hraða. Það veitir líka fyrirheit um þá getu, áreiðanleika og lágmarksbiðtíma sem krafist er af þjónustu á borð við sjálfkeyrandi bíla, fjarskurðlækningar, vélmenni og dróna sem stuðning við snjöll mannvirki, snjallan landbúnað, snjallar borgir og snjöll flutningafræði, svo eitthvað sé nefnt.

Við eigum góða möguleika á að verða eitt af helstu tilraunasvæðum heimsins fyrir 5G-tækni

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra Íslands

„5G ætti að verða vettvangur nýsköpunar sem hvetur til vöruþróunar og nýrra lausna. Hin mikla stafvæðing í samfélögum okkar, auk blómlegs og ört vaxandi sprotaumhverfis, veitir okkur góða möguleika á að verða eitt af helstu tilraunasvæðum heimsins fyrir 5G-tækni,“ segir fjármálaráðherra Íslands, Bjarni Benediktsson.

Norræna ráðherranefndin um stafræna væðingu (MR-DIGITAL) lét nýlega framkvæma SWOT-greiningu á samstarfi Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna um innleiðingu 5G-tækni.

Skýrslan innihélt mikilvægar ráðleggingar varðandi næstu skref, svo sem að vinna saman að því að greina og ryðja burt svæðisbundnum og lagalegum hindrunum sem standa í vegi fyrir innleiðingu 5G þvert á landamæri, og um þörfina á því að þróa nútímalegar og sjálfbærar lausnir fyrir svæðið til að hagnast á samstarfi milli tilraunasvæða yfir landamæri.

Ráðherrar norrænu ríkjanna og Eystrasaltsríkjanna um málefni stafrænnar þróunar á svæðinu ræddu skýrsluna á fundi sínum í Ríga þann 27. nóvember.

„Norðurlönd og Eystrasaltsríkin eru þegar á meðal þeirra svæða heims þar sem stafræn þróun er hvað lengst á veg komin. Nú skiptir sköpum að við stöndum saman, hið opinbera og einkageirinn, og nýtum okkur þessa stöðu til að virkja möguleika 5G og stafrænnar tækni til fulls og þróa nýjar sjálfbærar og grænar lausnir,“ sagði Bjarni Benediktsson að lokum.

Nú skiptir sköpum að við stöndum saman, hið opinbera og einkageirinn, og nýtum okkur þessa stöðu til að virkja möguleika 5G og stafrænnar tækni til fulls og þróa nýjar sjálfbærar og grænar lausnir.

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra Íslands