Rannsóknarverkefni um kynferðislega áreitni á vinnumarkaði

09.11.20 | Fréttir
Kvinna håller skylt med texten metoo
Photographer
Photo by Mihai Surdu on Unsplash
Norrænu jafnréttisráðherrarnir veita 4,8 milljónum danskra króna í umfangsmikið norrænt rannsóknarverkefni um kynferðislega áreitni.

Á fundi sínum þann 5. nóvember 2020 ákváðu norrænu jafnréttisráðherrarnir hvernig framkvæmd verkefnisins, sem er til þriggja ára, skyldi háttað. Meðal annars verða auglýstir styrkir að upphæð samtals 3,6 milljónir króna í tveimur umsóknarlotum á árinu 2021 til að fjármagna norrænt rannsóknastarf. 

Áhersla á fyrirbyggjandi vinnu

Verkefnið á að stuðla að aukinni þekkingu á kynferðislegri áreitni á norrænum vinnumarkaði með áherslu á fyrirbyggjandi aðgerðir.  

Jafnréttisráðherrarnir vilja að rannsóknarniðurstöðurnar myndi góðan þekkingargrunn fyrir stefnumótun, bæði á landsvísu og í norrænu samhengi.
  
Rannsóknarverkefnið á auk þess að hafa vægi fyrir alla aðila vinnumarkaðarins. 

Umfangsmikill samfélagsvandi

Norrænu jafnréttisráðherrarnir ræddu pólitíska eftirfylgni #metoo. Ein þeirra sem sögðu hreyfinguna byltingarkennda var sænski ráðherrann Åsa Lindhagen:   

„#Metoo-hreyfingin var gríðarlega þýðingarmikil og hefur opnað augu almennings í auknum mæli fyrir þeim umfangsmikla vanda sem felst í kynferðislegri áreitni innan samfélagsins. Konur, stúlkur og kynsegin fólk á að geta fundið til öryggis í skólum, háskólum og á vinnustöðum,“ sagði hún. 

Þekkingarbil til staðar

Ákvörðun jafnréttisráðherranna byggir á forkönnun sem nýlega var unnin af NIKK, norrænum upplýsingum um kynjafræði.

Forkönnunin hefur yfirskriftina „Sexuellt trakasserad på jobbet – en nordisk forskningsöversikt“ („Kynferðislega áreitt í vinnunni – norrænt rannsóknayfirlit“) og kom út í maí 2020. 
 

Þar er gerð grein fyrir nýjustu upplýsingum um kynferðislega áreitni á vinnumarkaði á Norðurlöndum og bent á helstu þekkingarbil þar að lútandi.