Breytingar á norrænum lífsstíl og mat: átta lykilþættir

02.03.21 | Fréttir
Insight Papers_Nordic Food Systems Transformation
Ljósmyndari
Peter Hove Olesen/Ritzau Scanpix
Umbreyting á matvælakerfum styttir okkur leið í átt að sjálfbærari lífsstíl. Þetta voru skilaboð 115 þátttakenda í verkefninu „Towards sustainable Nordic food systems“. Norðurlöndin geta byggt á sameiginlegri reynslu sinni af samvinnu til þess að gera langvarandi breytingar. Þrátt fyrir að áskoranir muni koma upp á leiðinni til ársins 2030 sýna fjórar nýjar upplýsingagreinar fram á að hægt er að stýra matvælaframleiðslu og neyslu í sjálfbærari farveg.

Á árunum 2019 til 2020 var haldinn fjöldi umræðufunda á öllum Norðurlöndunum þar sem ýmis sjónarmið komu fram. Þátttakendurnir voru hvattir til að hugsa um bæði jákvæðar og neikvæðar afleiðingar breytinga á matvælakerfum á alla þætti sjálfbærni, þar á meðal heilbrigt mataræði, sjálfbærni umhverfisins og góð lífskjör. Nú hafa greiningar á þessum umræðum verið birtar.

Verkfærin eru til staðar

Upplýsingagreinarnar fjalla um átta lykilþætti fyrir norrænt samstarf og fyrirliggjandi úrræði sem geta flýtt fyrir umbreytingu yfir í sjálfbær matvælakerfi. Einnig er fjallað um þær hindranir sem standa í vegi fyrir umbreytingum og hvernig hægt er að sigrast á þeim. Í lokaskýrslunni er fjallað um óvissuþætti og þau tól sem geta komið að notum til að brúa þekkingargjár.

„Leiðin í átt að sjálfbærum matvælakerfum verður þyrnum stráð en þessar upplýsingagreinar leiða í ljós að við getum nýtt okkur ýmis fyrirliggjandi verkefni, net, verkfæri og þekkingu við vinnunna í átt að markmiðunum,“ segir Amanda Wood, verkefnisstjóri Towards sustainable Nordic Food Systems.

 

Átta tækifæri fyrir norrænt samstarf um sjálfbær matvælakerfi

Norðurlöndin geta saman unnið að því að:

  1. Skilgreina sjálfbært mataræði í norrænu samhengi
  2. Flýta fyrir félagslegum breytingum í átt að sjálfbæru mataræði
  3. Þróa aðferðir til að meta fórnarkostnað sjálfbærni og kosti mismunandi framleiðslukerfa
  4. Efla vinnuafl í landbúnaði og matvælageira
  5. Tryggja blómlega landsbyggð og tengingar milli þéttbýlis og dreifbýlis
  6. Hanna arðbæra og sanngjarna umbreytingu matvælakerfa
  7. Bregðast við útvistuðum áhrifum norrænna matvælakerfa
  8. Endurhugsa samkeppnishæfan útflutningsmarkað fyrir norrænan mat

Sköpum sjálfbært samfélag í sameiningu

Greinarnar eru afrakstur röð umræðufunda á Íslandi, í Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð. Þátttakendurnir 115 voru fulltrúar ríkisstjórna, félagasamtaka, samtaka ungs fólks, vísindamanna, neytendahópa, samtaka framleiðenda og fjármögnunaraðila. Nærri 90% þátttakendanna voru sammála um að breytingar þurfi að verða á matvælakerfum Norðurlanda til þess að löndin nái markmiðum sínum um sjálfbærni.

Helmingur þátttakendanna taldi óljóst hvaða leið þyrfti að taka í átt að sjálfbærum matvælakerfum. Engu að síður töldu 88% þátttakendanna að Norðurlönd ættu að vinna saman að því að sigrast á sameiginlegum áskorunum í tengslum við matvælakerfi. Þessar áskoranir eru meðal annars að forðast ójöfnuð tengdan mataræði og hvetja yngri kynslóðir til að starfa á vettvangi matvælaframleiðslu.

„Samræður á borð við þessar skipta sköpum. Það er nauðsynlegt að fjölbreytt sjónarmið fái að heyrast og að hvatt sé til svæðisbundinnar samvinnu ef við ætlum að leysa áskoranir matvælakerfanna í sameiningu,“ segir Annica Sohlström, forstöðumaður sænsku matvælastofnunarinnar Livsmedelsverket. 

Sjálfbært mataræði, sjálfbær lífsstíll

Eitt lykilatriðanna í umbreytingu matvælakerfa er að breyta mataræði. Mataræði er mikill áhrifaþáttur því það tengir saman marga sjálfbærniþætti á borð við heilsu manna og sjálfbærni umhverfisins.

Til að jafnvægi náist milli heilbrigðis mannanna og plánetunnar þarf mataræði á Norðurlöndum í ríkari mæli að innihalda ávexti, grænmeti, heilkort, fræ, hnetur og belgjurtir. 

Margir ættu einnig að minnka neyslu sína á viðbættum sykri, salti, óhollri fitu og rauðu og unnu kjöti og minnka almenna orkuinntöku sína. Þrátt fyrir að merki sjáist um að ungt fólk á Norðurlöndum sýni sjálfbæru mataræði aukinn áhuga getur aðeins einn hluti samfélagsins ekki valdið breytingum sem skipta máli.

Sjálfbær neysla og framleiðsla eru lykillinn að því að ná sjálfbærnimarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Í verkefninu Towards sustainable Nordic food systems voru teiknaðar upp mismunandi framtíðaraðstæður með mismunandi mataræði, þar á meðal minni neyslu á rauðu kjöti og meiri neyslu belgjurta og hneta.

Saga um samstarf

Norðurlönd hafa lengi átt starfað saman að málefnum tengdum fæðu og lífsstíl. Norrænu næringarviðmiðin eru heildstæðar og hnitmiðaðar ráðleggingar fyrir almenning á Norðurlöndum sem fyrst voru gefnar út á níunda áratugnum.

Ríkisstjórnir á Norðurlöndum hafa frá árinu 2004 stutt við sköpun nýrrar norrænnar matarmenningar með yfirlýsingunni um Ný norræn matvæli. Á meðal annarrar samvinnu má nefna Skráargatsmerkinguna og samning um minnkun matarsóunar á svæðinu um helming fyrir árið 2030. Norræna ráðherranefndin mun leggja áherslu á sjálfbæran lífsstíl á svæðinu á árunum 2021 til 2024 og gegna breyttar matarvenjur mikilvægu hlutverki í því samhengi.

Verkefninu Towards sustainable Nordic Food systems var stjórnað af Amanda Wood hjá Stockholm Resilience Centre ásamt aðalfjárfestinum Line Gordon. Afton Halloran, óháður ráðgjafi um sjálfbær matvælakerfi, hafði umsjón með umræðunum. Norræna ráðherranefndin styrkti verkefnið.