Matvælastefna í kórónuveirufaraldrinum: miðlið ykkar bestu hugmyndum

21.04.20 | Fréttir
Restauranglabbet
Ljósmyndari
Restauranglabbet

Í verkefni Restauranglabbet „Call for Action“ eru matvæli sem að öðrum kosti hefði verið fleygt nýtt til að búa til nestisbox handa heilbrigðisstarfsfólki og áhættuhópum.

Tómar hillur í stórmörkuðum, skortur á árstíðabundnu vinnuafli í landbúnaði en einnig meiri heimaræktun og nýsköpun þar sem matreiðslufólk notar matarafganga úr tómum veitingaeldhúsum sínum til að búa til hádegismat handa heilbrigðisstarfsfólki. Þetta er bara brot af hinum nýja veruleika sem við lesum um í norrænu ríkjunum. The Nordic Food Policy Lab er nú að hefja umræður til þess að miðla þekkingu, reynslu og hugmyndum sem stuðla að þróun sjálfbærrar matvælastefnu í kjölfar kórónuveirufaraldursins.

Hin fordæmalausa kreppa á sviði lýðheilsu og efnahags sem covid-19 hefur leitt af sér krefst viðbragða á öllum sviðum samfélagsins. Alþjóðasamfélagið í kringum matvælastefnu eru nú að ströggla við bregðast við þessum óvissutímum.

Samhliða miklum áskorunum veitir kreppan einnig tækifæri til þess að endurskoða matvælastefnu og breyta forgangsröðun í matvælakerfinu og beina sjónum að veikleikum. The Nordic Food Policy Lab, flaggskipsverkefni sem heyrir undir verkefni norrænu forsætisráðherranna Nordic Solutions to Global Challenges, er nú að setja af stað hugleiðingar alls staðar að út heiminum í LinkedIn-hópi sínum og einnig að taka frumkvæði að hugvekjum um stöðuna á Norðurlöndum.

Miðlaðu hugmyndum þínum um hvernig við byggjum betur upp

Nordic Food Policy Lab kom á árinu 2019 á fót LinkedIn-hóp sem nefnist „Community for Future Food Policies“. Markmiðið með hópnum er að tengja saman og miðla hugmyndum um hvernig stefnumörkun stuðlar að eftirsóknarverðri framtíð á sviði matvæla. Á næstu vikum verður þetta samfélag vettvangur til þess að hefja nýjar kórónuveirutengdar umræður. Meðal þeirra málefna sem fjallað verður um er:

  • Framsýnar aðferðir og mikilvægi þeirra fyrir vinnu að matvælastefnu á krepputímum
  • Líkleg áhrif covid-19 á fæðukerfi og mótvægisaðgerðir til skemmri og lengri tíma 
  • Ör umskipti í matreiðslugeiranum: ný viðskiptalíkön á krepputímum
  • Að byggja betra matvælakerfi með samvinnu á netinu: nýjar leiðir til þess að vinna með samstarfsferla

Einn þátttakandinn, Saher Hasnain frá Forsight4Food við Oxford-háskóla segir: „Sú staða sem Covid-19-kreppan hefur skapað hvetur til þess að beina sjónum að skilvirkri stefnumótun og stjórnkerfum. Áskorunin er nú að sjá fyrir, ímynda sér og beita stjórntækjum til að stuðla að sveigjanlegu, sjálfbæru, heilbrigðu og réttlátu matvælakerfi og við hlökkum til að kanna hvernig best er hægt að gera þetta í samvinnu við Community for Future Food Policies.

Vísbendingar um breytingar á norræna matvælakerfinu

Til þess að fá yfirlit yfir aðgerðir hverrar Norðurlandaþjóðar fyrir sig í matvælamálum, aðgerðir sem eru viðbrögð við kreppunni, verða kynntar hugleiðingar fyrir sumarið. Metnaðurinn stendur til þess að beina sjónum að viðkvæmum hlutum norræna matvælakerfisins og rannsaka hvaða þýðingu þeir hafa gagnvart því að byggja upp sveigjanleika í matvælakerfinu. 

Verkefni Restauranglabbet í Stokkhólmi „Call for Action“ er dæmi sem tekið hefur verið eftir um allan heim. Restauranglabbet hefur nýtt matvæli sem að öðrum kosti hefðu líklega farið til spillis til þess að búa til nestisbox handa heilbrigðisstarfsfólki og viðkvæmum hópum sem eru einangraðir heima hjá sér. Einn stofnendanna, vöruhönnuðurinn og hringrásarhagkerfishugsuðurinn, Anders Breitholtz, segir:

„Við erum afar ánægð að sjá að verkefnið okkar „Call for Action“, sem stofnað var til um miðjan mars, hefur verið svona mörgum hvatning. Við nýtum nú alþjóðlega samstarfsnetið okkar til þess að ræða við samstarfsfólk innan geirans í Mílanó, Barselóna og París um hvað þarf til að koma á fót svipuðum verkefnum. Við hlökkum til að skiptast á hugmyndum um hvernig skipuleggja megi hlutina á annan hátt á þessum erfiðu tímum.“

Takið þátt í umræðunum!

Í LinkedIn hópnum Community for Future Food policies er hægt að skiptast á hugmyndum og finna sameiginlega framtíðarsýn um hvernig stefnumótun getur stuðlað að eftirsóknarverðri framtíð á sviði matvæla. Kannski ertu að móta metnaðarfulla innkaupastefnu, vinna að staðbundnum aðferðum eða aðferðum sem nýtast í heimalandi þínu á sviði matarsóunar, ráðleggingum um mataræði, matreiðslu eða þú ert jafnvel fulltrúi neytendasamtaka eða sprotafyrirtækis á sviði matvæla. Svo framarlega sem þú hefur áhuga á að læra um og miðla hugmyndum um nýja stefnumörkun og frumkvæði sem hrista upp í umræðunum um sjálfbærni á sviði matvæla, þá hvetjum við þig til þess að taka þátt í umræðunum og koma þínum sjónarmiðum á framfæri.