Brúin yfir Eyrarsund á enn þá mikið inni
„Það hefur aldrei boðað gott að einangra sig. Brúin er tákn um einingu, samkennd og traust á mátt okkar og megin. Brúin er andstæðan við „að vera sjálfum sér nógur“, einangrun, þjóðrembu og aflokun.“ Þetta sagði Poul Nyrup Rasmussen, fyrrverandi forsætisráðherra Danmerkur, í tilefni af opnun Eyrarsundsbrúarinnar 1. júlí árið 2000.
Framan af gekk vel og löndin voru trú þeirri hugsjón sem tengdist samgönguæð yfir Eyrarsund en undanfarin ár hafa verið blikur á lofti. Kastaði tólfunum þegar farsóttin náði til Norðurlanda í mars 2020 og biðraðir á brúnni urðu táknmynd landamæralokana.
Einmitt þess vegna var mikilvægi Eyrarsundsbrúarinnar og frekari tækifæri henni tengd ofarlega á baugi á fundi Norrænu hagvaxtar- og þróunarnefndarinnar sem haldinn var í tengslum við vorþingið í júnílok.
Linus Eriksson, framkvæmdastjóri Eyrarsundsbrúarinnar, er eindreginn málsvari brúarinnar þegar kemur að þýðingu hennar fyrir svæðið. Hagvaxtar- og þróunarnefndin bauð honum til sín til að skýra samfélagsleg áhrif brúarinnar.
„Svo margt hefur gerst á umliðnum tuttugu árum. Lítið en áhugavert atriði er að nú sitja 423 danskir stjórnarmenn í félögum á Skáni. Það sýnir að við erum eins og eitt landssvæði. Þegar landamærunum var næstum alfarið lokað síðasta vetur voru einu undantekningarnar ferðir starfsmanna og vöruflutningar. Um það bil átta þúsund manns fóru reglulega yfir brúna. Það er ekki hægt að loka brúnni lengur,“ segir Linus Eriksson.
Það hefur aldrei boðað gott að einangra sig. Brúin er tákn um einingu, samkennd og traust á mátt okkar og megin.
Fjárfesting með mikil gáruáhrif
Það kostaði 37,8 milljarða sænskra króna (uppreiknað til verðlags árið 2000) að smíða brúna yfir Eyrarsund. Þetta voru miklir fjármunir fyrir tuttugu árum en brúin hefur skilað svo miklu meira en bara fólki og vörum yfir Eyrarsund.
Sennilega má þakka brúnni að Kaupmannahöfn eignaðist borgarhlutann Ørestad, jarðlestina og lestarsamgöngur til Kastrup, ekki aðeins innanlands heldur einnig frá Svíþjóð.
Á Eyrarsundssvæðinu Svíþjóðarmegin varð til bæjarhlutinn Hyllie í Malmö, járnbrautargöngin Citytunneln, sjötíu aðalskrifstofur fyrir atvinnulífið, ESS (European Spallation Source) í Lundi og Medicon Valley.
Tengsl Danmerkur og Svíþjóðar eru sterk hvernig sem á er litið, bæði á sviði atvinnulífsins að því er varðar útflutning og á sviði samfélagsþróunar og ferðalaga.
- Danmörk er fjórði stærsti útflutningsmarkaður Svíþjóðar.
- Svíþjóð er þriðji stærsti útflutningsmarkaður Danmerkur.
- Fjörutíu þúsund íbúar Borgundarhólms fara yfirleitt til Danmerkur með ferju til Ystad og gegnum Skán yfir Eyrarsundsbrúna.
- Danir eiga um 10.200 sumarbústaði í Svíþjóð. Auk þess eiga Þjóðverjar 10.300 sumarhús og Norðmenn 12.600 sumarhús í Svíþjóð.
Frá árinu 2015 hefur skapast æ meiri óvissa. Get ég treyst því að komast heim frá vinnu til að sækja börnin í leikskóla? Þessi óvissa veldur því að fólk þorir varla að þiggja starf handan brúar.
Sterk tengsl geta veikst
Eyrarsundsbrúin þróaðist í rétta átt í tíu ár. Þegar mest var fóru um 19.800 yfir brúna daglega. Svo tók við tími stöðnunar.
Eftir fimmtán ára hindrunarlausa umferð um brúna urðu þrjú atvik frá árinu 2015 til þess að tekið var upp landamæraeftirlit og landamærunum lokað að hluta. Svíar brugðust við flóttamannavandanum 2015/2016 með eftirliti á landamærum. Sprengjuárás í Kaupmannahöfn árið 2019 hafði í för með sér að Danir fóru að gera stikkprufur á landamærunum. Svo kom heimsfaraldurinn 2020 þar sem fyrst Danir og svo Svíar takmörkuðu ferðir yfir landamærin.
„Frá árinu 2015 hefur skapast æ meiri óvissa. Get ég treyst því að komast heim frá vinnu til að sækja börnin í leikskóla? Þessi óvissa veldur því að fólk þorir varla að þiggja starf handan brúar,“ segir Linus Eriksson.
Óvissan hefur aðeins orðið djúpstæðari vegna heimsfaraldursins. Pyry Niemi, formaður hagvaxtar- og þróunarnefndar Norðurlandaráðs, hefur tekið virkan þátt í afnámi stjórnsýsluhindrana. Hann telur að margt megi læra af árekstrum landanna á tímum kórónuveirunnar.
„Þessi tími sem faraldurinn hefur geisað hefur verið skelfilegur og sólarlítill fyrir mannkynið og fyrir norrænt samstarf. Við verðum að vona að okkur hafi tekist að læra eitthvað á þessu og getum aftur fylkt okkur um hugsjónir Poul Nyrup Rasmussens forsætisráðherra og hvorki einangra okkur né einblína á eigin þjóðarhag,“ segir Pyri Niemi.
Tíminn sem faraldurinn hefur geisað hefur verið skelfilegur og sólarlítill fyrir mannkynið og fyrir norrænt samstarf. Við verðum að vona að okkur hafi tekist að læra eitthvað á þessu og getum aftur fylkt okkur um hugsjónir Poul Nyrup Rasmussens forsætisráðherra og hvorki einangra okkur né hugsa eingöngu um eigin þjóðarhag.
Horft fram á veg
Eftir því sem Linus Eriksson segir á Eyrarsundssvæðið enn þá mikið inni sem má nýta. Hann bendir á að stjórnvöld verði að leysa skattamál sem gert hafi bæði einstaklingum og fyrirtækjum erfitt fyrir.
„Ef til vill þurfum við á táknrænni athöfn að halda af hálfu forsætisráðherra Dana og Svía. Kannski gætu þeir hist á Piparhólma (í miðju Eyrarsundi) vegna ráðstefnu eða einhvers slíks. Það er mikilvægt að sýna að við erum nágrannar á nýjan leik,“ segir Linus Eriksson.
Hann er ekki uppiskroppa með röksemdir þar með. Tækifærin er meðal annars að finna í skorti á vinnuafli á Kaupmannahafnarsvæðinu á sama tíma og Skánn glímir við tiltölulega mikið atvinnuleysi. Ýmislegt fleira má telja til sem brúin gæti haft góð áhrif á eins og launamun, gengi og verðlagningu auk fasteignaverðs. Linus Eriksson vill minna forsætisráðherrana á þeirra eigin framtíðarsýn um að Norðurlönd verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims.
„Við verðum að taka upp það merki á ný,“ segir hann.