Heimsfaraldurinn gaf stjórnsýsluhindranaráðinu ný verkefni fyrir árið 2020

26.10.20 | Fréttir
Gränshinderrådets kickoff-möte 2020

Gränshinderrådet 2020

Photographer
Matts Lindqvist

Starf Stjórnsýsluhindranaráðsins í ár hefur einkennst af kórónuveirunni. Næst á myndinni frá hægri eru Sif Friðleifsdóttir, Kimmo Sasi og Bertel Haarder (lengst til vinstri), formaður árið 2020.

Kórónuveirufaraldurinn hefur haft mikil áhrif á vinnu Stjórnsýsluhindranaráðsins við að ryðja úr vegi hindrunum fyrir frjálsa för fólks á Norðurlöndum á árinu 2020. Þrátt fyrir þær áskoranir sem heimsfaraldurinn hefur í för með sér hefur ráðið náð markmiði sínu um fjölda hefðbundinna stjórnsýsluhindrana sem því hefur tekist að leysa úr og hefur það þar að auki tekið þátt í því að leysa um helming þeirra landamæratengdu vandamála sem komið hafa upp í tengslum við faraldurinn. Þetta kemur fram í skýrslu ráðsins fyrir tímabilið 1. júlí 2019 til 30. júní 2020.

COVID-19-faraldurinn hafði mikil árif á frjálsa för fólks þegar Norðurlönd hófu að beita ýmsum takmörkunum, meðal annars með landamæralokunum og landamæraeftirliti. Þetta hafði sérstaklega mikil áhrif á fólk sem býr á landamærasvæðum og fólk sem ferðast til og frá vinnu í öðru norrænu landi.

Að frumkvæði skrifstofu Stjórnsýsluhindranaráðsins byrjuðu upplýsingaskrifstofur á landamærasvæðum þess vegna að skrá skerðingar á frjálsri för fólks og önnur vandamál á landamærasvæðum í tengslum við kórónuveirufaraldurinn strax 13 mars.  Info Norden tók einnig þátt í að kortleggja vandamál í tengslum við faraldurinn.

Þann 30. júní höfðu 34 skerðingar í tengslum við kórónuveirufaraldurinn verið tilkynntar til Stjórnsýsluhindranaráðsins. Síðan þá hafa 41 skerðingar verið tilkynntar til viðbótar og hafa 22 þeirra verið leystar en 19 eru enn óleystar.

Auk þeirra hafa átta hefðbundnar stjórnsýsluhindranir sem ekki voru vegna kórónuveirufaraldursins verið leystar árið 2020. Markmiðið er að 8-12 hindranir séu leystar á hverju almanaksári.

Mikill meirihluti hefur mætt erfiðleikum

Þegar faraldurinn hafði varað í um tvo mánuði lét Stjórnsýsluhindranaráðið einnig gera könnun meðal þeirra sem búa og vinna á landamærasvæðunum. Könnunin sýndi meðal annars að 82,5% rúmlega 1600 svarenda höfðu lent í erfiðleikum vegna mismunandi takmarkana landanna vegna kórónuveirunnar og skorts á samræmingu milli landanna.

Fulltrúar Stjórnsýsluhindranaráðsins sendu einnig bréf til forsætisráðherra landanna, á meðal annarra, og hvöttu til þess að lærdómur yrði dreginn af kórónuveirukrísunni til þess að bæta samræmd viðbrögð við krísum í framtíðinni. Í svarbréfi skrifuðu forsætisráðherrarnir að draga yrði lærdóm af reynslunni til þess að löndin standi betur að vígi í næstu krísu.

Formaður Stjórnsýsluhindranaráðsins árið 2020, Bertel Haarder, segir að krísan hafi orðið til þess að Norðurlönd séu nú fjær markmiði sínu um að verða mest samþætta svæði heims fyrir árið 2030. Hann vill sjá meiri samvinnu þegar næst kreppir að.

„Það væri óskiljanlegt ef við lærum ekki af vandamálunum núna. Okkur ber skylda til að skoða hvernig norrænu samstarfi hefur verið háttað á tímum kórónuveirunnar og semja tillögur um öflugri „samstarfsviðbúnað“ og hvernig við getum komið í veg fyrir landamærahindranir á hættu- og hamfaratímum í framtíðinni, segir Bertel Haarder.

Skoðun eigindlegra áherslusviða

Norrænu samstarfsráðherrarnir hafa einnig gefið Stjórnsýsluhindranaráðinu aukið starfsumboð fyrir árið 2020. Í því felst meðal annars að ráðið getur skoðað víðtækari eigindleg áherslusvið, svo sem viðurkenningu starfsréttinda, norrænar byggingarreglugerðir, samstarf um stafræna þjónustu, svæðisbundna lokun sjónvarpsútsendinga, talnagögn frá landafræðasvæðum og samstarf um samgöngumál.

 

Stjórnsýsluhindranaráðið er pólitískt skipuð nefnd sem norræn stjórnvöld hafa falið að greiða fyrir fyrir frjálsri för einstaklinga og fyrirtækja innan Norðurlanda. Í Stjórnsýsluhindranaráðiðnu sitja fulltrúar frá öllum Norðurlöndunum að meðtöldum Álandseyjum, Færeyjum og Grænlandi.