Norðurlandaráð ræddi Brexit og framtíð ESB við Benelux-löndin

02.10.20 | Fréttir
Silja Dögg Gunnarsdóttir och oddny Harðardóttir i möte med Benelux 2020.
Ljósmyndari
Matts Lindqvist

Silja Dögg Gunnarsdóttir og Oddný Harðardóttir.

Afleiðingar Brexit, framtíð ESB og staðan í Hvítarússlandi var í brennidepli þegar Norðurlandaráð tók þátt í ráðstefnu Benelux-þingsins á föstudaginn. Þrír fulltrúar Norðurlandaráðs tóku þátt gegnum fjarfundabúnað og lögðu fram norræn sjónarmið í umræðunum.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, forseti Norðurlandaráðs, flutti framsögu í umræðum um Evrópu og lagði áherslu á mikilvægi þess að allir tækju þátt í ráðstefnunni um framtíð Evrópu en sú ráðstefna verður haldin á næstu árum og er ætlað að skila langtímamarkmiðum um starfsemi sambandsins. Hún sagði ráðstefnuna skipta Norðurlöndin miklu máli.

„Óháð því hverjar niðurstöður ráðstefnunnar verða munu þær hafa áhrif á Norðurlöndin jafnvel þótt þau séu ekki öll aðilar að ESB. Þess vegna höfum við sérstakan áhuga á að þing svæðisins og einstakra ríkja taki þátt í ferlinu. Við viljum að rödd okkar heyrist í umræðunum sem framundan eru,“ sagði Silja Dögg Gunnarsdóttir.

Hún fagnaði sérstaklega því framtaki að almennir borgarar í Evrópu geti tekið þátt og haft áhrif á ráðstefnunni. Að hennar mati er sérstaklega jákvætt að virkja ungt fólk í ferlinu.

„Þegar allt kemur til alls erum við jafnmikið að tala um framtíð þeirra Evrópu eins og okkar. Málefni og óskir unga fólksins verður að taka alvarlega,“ segir Silja Dögg.

Góð tengsl áfram eftir Brexit

Oddný Harðardóttir, varaforseti, flutti framsögu í umræðunum um Brexit. Hún er þess fullviss að samband Norðurlandanna og Stóra-Bretlands verði áfram traust, og jafnvel enn traustara, eftir Brexit.

Hún benti á að Norðurlöndin væru tengd bæði ESB og Bretlandi traustum böndum - og öfugt, og að sýna verði Bretlandi virðingu, jafnvel þótt útgangan verði án samnings.

„Norrænt samstarf er gott dæmi um farsælt svæðisbundið samstarf milli ESB og landa utan ESB. Vonandi getur það orðið fyrirmynd þegar farið verður að greina framtíðarmöguleika og sameiginlegar lausnir, fremur en að leggja áherslu á áskoranir og höft,“ sagði Oddný Harðardóttir og bætti því við að einnig þyrfti að undirbúa sig undir framtíðarsamband þar sem breytingar varðandi frjálsa för fólks og varnings hefðu áhrif á Norðurlönd.

Mikill stuðningur við stjórnarandstöðuna í Hvítarússlandi

Í umræðunum um Hvítarússlandi sagðist Erkki Tuomioja, sem er talsmaður Hvítarússlands í Norðurlandaráði, þess fullviss að Norðurlandaráð stæði með öflugum hætti við bakið á stjórnarandstöðunni og fólkinu í landinu. Hann lagði áherslu á að „við þingmenn verðum að senda skýr skilaboð um að við líðum ekki stöðuna eins og hún er nú.“

„Við verðum að halda áfram að sýna stjórnarandstöðunni stuðning og liðsinna hvítrússnesku þjóðinni,“ sagði Erkki Tuomioja og nefndi einnig að Norðurlandaráð hélt nýlega fund með Svetlönu Tichanovskaja, leiðtoga stjórnarandstöðunnar.

Eystrasaltsríkjaráðið tók einnig þátt í fundinum. Norðurlandaráð, Eystrasaltsríkjaráðið og Benelux eiga sér langa sögu um samstarf. Gildi þessara þriggja þinga eru þau sömu og þau vinna öll að því að styrkja lýðræði, mannréttindi og réttaríki í Evrópu.