Norðurlönd búa yfir lausnum fyrir framtíð án jarðefnaeldsneytis

03.03.21 | Fréttir
Vindmøller i Øresund
Photographer
Sigurður Ólafsson/norden.org
Norrænar lausnir eru á réttri leið í átt að orkuframleiðslu án jarðefnaeldsneytis Þetta sagði Kadri Simson, framkvæmdastjóri Evrópusambandsins á sviði orkumála, á vefmálstofu Norðurlandaráðs. Á vefmálstofunni ríkti mikill einhugur um að úrlausnaratriði framtíðarinnar á sviði orkumála krefjast meiri samvinnu en einnig var varað við því að hætt er við því að norræni raforkumarkaðurinn þróist í átt að landsbundnum mörkuðum.

Markmið vefmálstofunnar var að gefa fulltrúum Norðurlandaráðs og Evrópusambandsins tækifæri til að miðla reynslu í tengslum við framtíðarorkulausir og greina næstu skref í umskiptunum yfir í orkuframleiðslu án jarðefnaeldsneytis.

Bæði Norðurlönd og Evrópusambandið hafa sett sér háleit markmið í loftlagsmálum og í því samhengi gegna umskipti yfir í endurnýjanlega og sjálfbæra orkuframleiðslu mikilvægu hlutverki.

Norðurlöndum hrósað

Á vefmálstofunni lagði Kadri Somsin, framkvæmdastjóri Evrópusambandsins á sviði orkumála, mikla áherslu á að Norðurlönd væru fyrirmynd fyrir orkusamstarf innan ESB. Hún byrjaði á að svara spurningu úr yfirskrift málstofunnar: eru norrænar lausnir rétta leiðin í átt að framtíð án jarðefnaeldsneytis, og svarið var stutt og laggott.

„Já, norrænar lausnir eru rétta leiðin.“

Simson hrósaði sérstaklega norræna raforkumarkaðnum, sem hún sagði vel heppnaðan. Hún sagði afhendingaröryggi og þá staðreynd að Norðurlönd hafa leyst vandann í tengslum við samþættingu endurnýjanlegrar orku í kerfum sínum vera tvo þætti sem búa að baki árangrinum.

„Ég get aðeins hvatt ykkur til að halda því áfram sem þið eruð að gera og leiða með góðu fordæmi,“ sagði Kadri Simson er hún beindi orðum sínum til Norðurlanda.
 

    Norðurlönd veita innblástur

    Också Pyry Niemi, formaður hagvaxtar- og þróunarnefndar Norðurlandaráðs, ræddi einnig um norrænt orkusamstarf sem fyrirmynd annarra landa.

    „Við á þessu svæði búum svo vel að hafa samtengd rafdreifikerfi og sameiginlegan raforkumarkað. Þetta eru þeir innviðir sem við notum með árangursríkum hætti í grænum orkuskiptum. Kerfið, sem er stutt með pólitískum vilja og framtíðarsýn, hefur reynst vera traust og sveigjanlegt fyrir stærri skala. Þessi jákvæða reynsla ætti að geta veitt öðrum hlutum Evrópu innblástur,“ sagði Niemi.

      Áskoranir eru til staðar

      Simon-Erik Ollus, stjórnandi hjá orkufyrirtækinu Fortum, minntist á allt það jákvæða sem sameiginlegur raforkumarkaður hefur gefið Norðurlandabúum, en minnti einnig á að markaðurinn var búinn til fyrir 25 árum í umhverfi sem er gjörólíkt því í dag.

      Að hans mati stöndum við nú frammi fyrir nýjum áskorunum. Hætt er við því að þróunin verði í átt að landsbundnum raforkumörkuðum á Norðurlöndum og að við verðum þar með af þeim ávinningi sem sameiginlegi raforkumarkaðurinn hefur fært okkur til þessa.

      Ollus telur okkur því nú vera á krossgötum og að þörf sé á öflugri pólitískri stýringu í orku- og loftlagsmálum Norðurlanda.

      „En það krefst þess að pólitískur vilji sé til staðar í höfuðborgum Norðurlandanna,“ sagði Ollus.

      Miklir möguleikar í höfum

      Morten Petersen, sem er formaður nefndar Evrópuþingsins um iðnað, rannsóknir og orku, minntist meðal annars á orkuframleiðslu á höfum úti. Hún sagði mikil tækifæri liggja í Norðursjó og Eystrasalti fyrir Norðurlönd og að „fræðilega séð“ gætu þau framleitt vetni og umbreytt raforku í aðra orkugjafa (Power-to-X) í stórum stíl fyrir samgönguiðnaðinn. Skilyrðið er þó að samræma þarf ólíka hagsmuni, meðal annars sjávarútvegs, varnarmála og flutninga.

      „Þetta hljómar kannski einfalt en er í raun og veru mjög erfitt. Ef við á Norðurlöndum getum gengið skrefinu lengra með sameiginlegu skipulagi og samningum um líffræðilega fjölbreytni og loftlagsmál í tengslum við hafið getum við raunverulega vísað veginn fyrir aðrar þjóðir, jafnvel á heimsvísu,“ sagði Petersen.

      Fyrirmynd fyrir Evrópu

      Í lokaorðum sínum ræddi Henna Virkkunen, fulltrúi í nefnd Evrópuþingsins um iðnað, rannsóknir og orku, um norræna orkusamstarfið sem fyrirmynd fyrir það hvernig Evrópa getur orðið sjálfri sér nóg um rafmagn í framtíðinni.

      „Norræna samstarfið ætti að veita innblástur í vinnunni sem fer fram við að koma á orkubandalagi í Evrópusambandinu og að minnka ytri orkuþörf sambandsins, sérstaklega frá Rússlandi,“ sagði Virkkunen.

       

      Norðurlandaráð stóð fyrir vefmálstofunni „Towards a fossil-free future – are the Nordic solutions the right way to go?“ 2. mars. Vefmálstofan var í tveimur hlutum. Í fyrri hlutanum „Session on the transition to fossil-free energy supply“ var rætt um orkumál og rætt var um raforkumarkaðinn í þeim síðari, „Session on development of cross-border electricity markets“. Fulltrúar Norðurlandaráðs, Evrópuþingsins, framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og utanaðkomandi sérfræðingar tóku meðal annars þátt í vefmálstofunni.

      Upptaka

      Hér er hægt að horfa á upptöku af vefmálstofunni: