Tillaga um Sjóð æskunnar fyrir líffræðilega fjölbreytni og loftslagsmál

14.04.21 | Fréttir
ungdomar i en workshop
Photographer
Moa Karlberg
Þegar Greta Thunberg afþakkaði umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs fyrir nokkrum árum kviknaði hugmynd um að stofna sjóð æskunnar fyrir verkefni tengd líffræðilegri fjölbreytni og loftlagsmálum. Í gær tók Norræna sjálfbærninefndin afstöðu með tillögunni og mun nú byrja að leita fjármögnunar.

Markmiðið er að gefa ungum Norðurlandabúum tækifæri til að gera kerfisbreytingar í samfélaginu. 


„Þátttaka ungs fólks í loftlagsmálum og vinnu tengdri líffræðilegri fjölbreytni mun svara ákalli um forystu í samfélagsnýsköpun. Þessi nýi sjóður sýnir að ráðafólk tekur mark á sýn ungs fólks og samstarfi við ólíka aðila,“ segir Emma Tcheng í Norðurlandaráði æskunnar, sem sjálfbærninefndin hefur falið að þróa hugmyndina og kanna áhuga hjá norrænum ungmennahreyfingum.
 

Ýmis verkefni fjármögnuð

Norðurlandaráð styður nú þegar og starfar með ungmennahreyfingum víðs vegar á Norðurlöndum og Eystrasalti sem láta sig varða loftlagsmál og líffræðilega fjölbreytni, meðal annars með samstarfsnetunum ReGeneration2030 og Nordic Youth Biodiversity Network.


Sjálfbærninefndin leggur nú til að ungt fólk skuli geta fjármagnað ýmis verkefni víðsvegar á Norðurlöndum. Þetta eiga að vera verkefni sem þróa hugvitsamlegar lausnir og stuðla að uppfyllingu Parísarsamkomulagsins og samnings Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni.

 

„Pólitísk tímamót“

„Norðurlönd eru og verða metnaðarfyllsta svæði heims á sviði loftlagsmála og líffræðilegrar fjölbreytni. Í dag tókum við ákvörðun um sjóð sem hvetur ungt fólk á Norðurlöndum til að taka forystuna og þróa nýjar lausnir. Persónulega lít ég á þetta sem pólitísk tímamót í norrænu samstarfi,“ segir Ketil Kjenseth, norskur þingmaður og formaður Norrænu sjálfbærninefndarinnar.

 
Samkvæmt tillögunni verður hægt að sækja um styrki fyrir lítil, meðalstór og stór verkefni á sviði loftlags- og umhverfismála.
 

Í eigu ungs fólks

Verkefnið skal leitt af fólki sem er yngra en 30 ára. Til að eiga möguleika á styrkjum úr sjóðnum þurfa aðstandendur verkefnis að koma frá minnst tveimur Norðurlöndum. 


Ekki hefur verið ákveðið hvernig stjórn sjóðsins verður háttað eða hvernig hann verður fjármagnaður en nefndin mun setja sig í samband við norrænar umhverfisfjármögnunarstofnanir til að eiga við þær viðræður. 

„Markmiðið er að tryggja að eignarhald sjóðsins verði fjölbreytt og ungt. Næsta skref er að ræða við viðkomandi aðila um hvernig sjóðnum verður stjórnað,“ segir Emma Tcheng.
 

Tillagan verður tekin til umfjöllunar á þingi Norðurlandaráðs í lok október áður en hún getur orðið að tilmælum til ríkisstjórnanna.