Leiðbeiningar: Tímabundin dvöl í Danmörku

Dreng på løbehjul på Nørrebro i København

Ljósmyndari
Sam Poullain/Unsplash
Ef þú hyggst dvelja í Danmörku í stuttan tíma geturðu lesið um það hér hvað ber að hafa í huga.

Þessi síða er fyrir þau sem ætla að dvelja í Danmörku án þess að vinna þar eða skrá sig í þjóðskrá. Þetta á alla jafna við um það þegar fólk dvelur í Danmörku skemur en í sex mánuði. Ef þú hyggst dveljast lengur í landinu eða hyggst vinna þar geturðu nálgast viðeigandi upplýsingar í leiðbeiningum okkar um að flytja til Danmerkur og starfa þar.

Ferðast til Danmerkur

Norrænir ríkisborgarar sem ferðast til Danmerkur frá öðru norrænu landi þurfa ekki vegabréf en kunna þó að vera beðnir um að framvísa skilríkjum og sýna fram á þjóðerni sitt. Ríkisborgarar ESB- og Schengenlanda þurfa að framvísa vegabréfi eða nafnskírteini þegar ferðast er til Danmerkur. Ríkisborgarar annarra landa þurfa að framvísa vegabréfi og í ákveðnum tilvikum einnig vegabréfsáritun eða dvalarleyfi þegar ferðast er til Danmerkur.

Skráning í þjóðskrá ef dvalið er tímabundið í Danmörku

Ef þú ert ríkisborgari norræns lands, ESB-lands eða EES-lands þarftu að skrá þig hjá dönsku þjóðskránni ef þú hyggst dvelja í landinu lengur en í sex mánuði. Þér er heimilt en ekki skylt að sækja um skráningu í dönsku þjóðskránni ef þú hyggst dvelja í Danmörku lengur en í þrjá mánuði.

Ef þú ert ríkisborgari annars lands þarftu að skrá þig hjá dönsku þjóðskránni ef þú hyggst dvelja í landinu lengur en í þrjá mánuði.

Skattar ef dvalið er tímabundið í Danmörku

Ef þú ert ekki með fasta búsetu í Danmörku og dvelur ekki lengur í landinu en í sex mánuði berðu alla jafna ekki fulla skattskyldu í Danmörku. Hafðu samband við Skattestyrelsen ef þú hefur einhverjar spurningar.

Almannatryggingar ef dvalið er tímabundið í Danmörku

Meginreglan er sú að einstaklingur er tryggður af almannatryggingum í því landi sem hann starfar í. Ef einstaklingur er ekki í vinnu er hann alla jafna tryggður af almannatryggingum í því landi sem hann býr í. Í mörgum tilvikum eiga þó sérstakar reglur við. Þú skalt því hafa samband við almannatryggingar ef þú ert í vafa.

Aðild að almannatryggingum í tilteknu landi felur í sér að þú lýtur reglum þess lands í málum á borð við:

  • atvinnuleysistryggingar
  • lífeyrisgreiðslur
  • sjúkradagpeninga
  • barnabætur
  • heilbrigðisþjónustu
  • fæðingarorlofsgreiðslur
  • bætur vegna vinnuslyss

Nánar má lesa um þetta í greininni „Almannatryggingakerfi hvaða lands tilheyrir þú?“

Réttur til heilbrigðisþjónustu ef dvalið er tímabundið í Danmörku

Ef þú nýtur sjúkratrygginga í öðru norrænu landi og veikist meðan á tímabundinni dvöl í Danmörku stendur áttu rétt á læknisfræðilega nauðsynlegri meðferð meðan dvölin stendur yfir. Það getur jafnt átt við um bráð veikindi sem og fyrirliggjandi veikindi, svo sem króníska sjúkdóma, eða ef þú ert barnshafandi og þarft á eftirliti eða meðhöndlun að halda á meðan þú dvelst í Danmörku.

Yfirleitt er heilbrigðisþjónusta í opinbera heilbrigðiskerfinu í Danmörku endurgjaldslaus en þú þarft að geta sýnt fram á að þú njótir opinberra sjúkratrygginga í heimalandi þínu. Ef þú nýtur sjúkratrygginga í öðru norrænu landi þarftu að sýna skilríki ásamt því að gefa upp heimilisfang þitt. Einnig geturðu framvísað ESB-sjúkratryggingaskírteini.

Erlendir bílar í Danmörku

Ef þú ert skráð(ur) í þjóðskrá í Danmörku og dvelst í landinu í innan við 185 daga á 12 mánaða tímabili geturðu ekið bíl með erlendum númeraplötum án þess að greiða skráningargjald í Danmörku.

Ferðast með gæludýr til Danmerkur

Þegar ferðast er til Danmerkur með gæludýr þarf að huga að ýmsum reglum. Þær geta verið mismunandi eftir því frá hvaða landi er ferðast og hversu gamalt gæludýrið er. Reglurnar gilda hvort sem þú ert á leiðinni til Danmerkur í frí eða hyggst flytja þangað, ert að snúa aftur til Danmerkur eftir að hafa verið í fríi erlendis eða hefur keypt gæludýr erlendis og hyggst hafa það með heim til Danmerkur.

Sérstaklega þarf að gefa því gaum að ákveðnar hundategundir eru bannaðar í Danmörku og að allir hundaeigendur þurfa að vera með hundaábyrgðartryggingu. Þetta á einnig við þótt um stutta dvöl sé að ræða.

Tryggingar á meðan þú dvelst í Danmörku

Þú þarft að hafa samband við tryggingarfélagið þitt til að ganga úr skugga um þú sért með tryggingu á meðan þú dvelst í Danmörku.

Félagslegar greiðslur á meðan þú dvelst í Danmörku

Ef þú þiggur félagslegar greiðslur skaltu athuga hvort dvöl þín í Danmörku hafi áhrif á þær. Hafðu samband við stofnunina sem þú færð greiðslurnar frá.

Frístunda- og sumarhús í Danmörku

Ef þú hyggst kaupa sumarbústað, frístundahús eða annað aukahúsnæði í Danmörku skaltu athuga að sækja þarf um sérstakt leyfi frá Civilstyrelsen ef maður hefur býr ekki í Danmörku eða hefur gert það í að minnsta kosti fimm ár.

Bankaþjónusta í Danmörku þegar dvalist er þar tímabundið

Allir sem dveljast með löglegum hætti í Danmörku eða öðru landi innan ESB/EES eiga rétt á að stofna einfaldan innláns- og greiðslureikning í dönskum banka. Þetta á einnig við um notendur sem ekki hafa dvalarleyfi en ekki er hægt að vísa úr landi.

Grunnskólar í Danmörku þegar dvalist er þar tímabundið

Í Danmörku er engin skólaskylda en öll börn á skólaaldri sem dvelja í Danmörku eiga rétt á að fá kennslu.

Hafðu samband við sveitarfélagið sem þú dvelur í til að fá nánari upplýsingar.

Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna