Skráning í þjóðskrá í Danmörku

Folkeregistrering i Danmark
Hér má lesa um hvenær þér er heimilt og skylt að sækja um skráningu í þjóðskrá í Danmörku þegar þú flytur þangað.

Þú getur sótt um skráningu í danska þjóðskrá (Det Centrale Personregister (CPR)) þegar þú flytur til Danmerkur. Réttindi þín og skyldur í tengslum við skráningu í þjóðskrá fara eftir ríkisfangi þínu og því landi sem þú flytur frá.

Ef þú flytur innan Norðurlanda, þ. á m. Færeyja, Grænlands og Álandseyja, gildir svonefndur Norðurlandasamningur um almannaskráningu. Samningurinn kveður á um að einstaklingur geti einungis verið skráður í einu Norðurlandanna í senn.

Hvernig skráir maður sig í þjóðskrá í Danmörku?

Þér er skylt að tilkynna flutningana til sveitarfélagsins eigi síðar en fimm dögum eftir að þú flytur til Danmerkur og uppfyllir kröfur um bústaðarskráningu. Þú getur ekki fengið búsetuskráningu ef þú dvelur ekki löglega í Danmörku eða hefur ekki bústað eða fastan dvalarstað í landinu.

Þú getur skráð þig í þjóðskrá hjá borgaraþjónustunni í sveitarfélaginu þínu. Nánari upplýsingar um hvernig þú berð þig að má nálgast á vefsíðu sveitarfélagsins. Oft er einnig hægt að skrá sig í einni af sex alþjóðlegum skráningarmiðstöðvum í landinu. Í mörgum þeirra geturðu hlaðið upp þínum eigin gögnum og pantað tíma á netinu. Nánari upplýsingar á vefslóðinni borger.dk.

Eftir búsetuskráningu í CPR færðu danska kennitölu.

Norrænir ríkisborgarar

Ef þú ert norrænn ríkisborgari og flytur til Danmerkur þarftu að sækja um skráningu í dönsku þjóðskránni ef þú hyggst dvelja í landinu lengur en í sex mánuði.

Þér er heimilt en ekki skylt að sækja um skráningu í dönsku þjóðskránni ef þú hyggst dvelja í Danmörku lengur en í þrjá mánuði.

Ef þú flytur frá öðru norrænu landi fá skráningaryfirvöld í landinu sem þú flytur frá sjálfkrafa skilaboð þegar þú hlýtur skráningu í þjóðskrá í Danmörku. Þá verður brottflutningur þinn frá viðkomandi landi skráður. Í sumum norrænu landanna ber þér einnig að tilkynna viðkomandi yfirvöldum um að þú flytjir frá landinu.

Ríkisborgarar í ESB- og EES-löndum og Sviss

Ef þú ert ríkisborgari í ESB- eða EES-landi utan Norðurlanda eða Sviss geturðu sótt um skráningu í danska þjóðskrá ef þú hyggst dvelja í landinu lengur en í þrjá mánuði.

Þér er skylt að sækja um skráningu í danska þjóðskrá ef þú hyggst dvelja í landinu lengur en í sex mánuði.

Það sama á við um fjölskyldumeðlimi þína frá þriðja landi sem fellur undir reglur ESB um frjálsa för, aðsetur og þjónustu o.fl. en sem ekki eru ríkisborgarar í ESB- eða EES-landi eða Sviss.

Ef þú flytur frá öðru norrænu landi fá skráningaryfirvöld í landinu sem þú flytur frá sjálfkrafa skilaboð þegar þú hlýtur skráningu í þjóðskrá í Danmörku. Þá verður brottflutningur þinn frá viðkomandi landi skráður. Í sumum norrænu landanna ber þér einnig að tilkynna viðkomandi yfirvöldum um að þú flytjir frá landinu.

Ríkisborgarar annarra landa

Ef þú ert ríkisborgari í landi utan Norðurlanda, ESB, EES og Sviss og flytur til Danmerkur þarftu að tilkynna flutninginn ef þú hyggst dvelja í landinu lengur en í þrjá mánuði, nema þú sért að flytja frá öðru norrænu landi. Þá þarftu aðeins að tilkynna flutninginn ef þú hyggst dveljast lengur en í sex mánuði.

Dvalarleyfi í Danmörku er skilyrði fyrir því að geta sótt um skráningu í þjóðskrána. Hægt er að sækja um dvalar- og atvinnuleyfi á nyidanmark.dk.

Ef þú flytur frá öðru norrænu landi fá skráningaryfirvöld í landinu sem þú flytur frá sjálfkrafa skilaboð þegar þú hlýtur skráningu í þjóðskrá í Danmörku. Þá verður brottflutningur þinn frá viðkomandi landi skráður. Í sumum norrænu landanna ber þér einnig að tilkynna viðkomandi yfirvöldum um að þú flytjir frá landinu.

Ef þú flytur frá Danmörku eða Grænlandi til útlanda

Ef þú flytur frá Danmörku eða Grænlandi til annars lands þarftu að tilkynna sveitarfélaginu þínu um brottflutninginn áður en þú flytur, einnig ef þú flytur til annars norræns lands.

Flytjir þú til Noregs, Svíþjóðar, Finnlands, Íslands eða Færeyja þarftu að tilkynna flutninginn til skráningaryfirvalda í viðkomandi landi. Búsetusveitarfélag þitt í Danmörku eða Grænlandi getur ekki skráð flutning þinn úr landi í þjóðskrá fyrr en því hefur borist tilkynning um skráningu þína í þjóðskrá í landinu sem þú flytur til.

Þú þarft að tilkynna brottflutning á borger.dk.

Kennitala ef ekki er hægt að skrá þig í dönsku þjóðskrána

Ef þú uppfyllir skilyrði um skráningu í þjóðskrá í Danmörku en þarft að greiða skatt, t.d. ef þú vinnur í Danmörku, geta skattayfirvöld úthlutað þér skattakennitölu.

Hægt er að sækja um skattkort og skattakennitölu á skat.dk. Ef spurningar vakna er hægt að hafa samband við Skattestyrelsen.

Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna