Réttur til heilbrigðisþjónustu í Danmörku

Ret til sundhedsydelser i Danmark
Hér geturðu lesið um hvenær þú nýtur sjúkratrygginga í Danmörku og hvaða heilbrigðisþjónustu þú átt rétt á ef þú dvelur tímabundið í landinu. Einnig er hér að finna upplýsingar um hvert skuli snúa sér við veikindi og um rétt þinn á skipulagðri læknismeðferð í Danmörku ef þú býrð í öðru norrænu landi.

Sjúkratryggingar í Danmörku

Í danska heilbrigðiskerfinu heyrir heilbrigðisþjónusta ýmist undir héruðin (regioner) eða sveitarfélögin. Undir héruðin heyra meðal annars sjúkrahús, heimilislæknar og sérlæknar en barnatannlækningar og styrkir vegna sjúkraþjálfunar heyra meðal annars undir sveitarfélögin. Íbúar í Danmörku geta verið með skráðan heimilislækni.

Ef þú býrð eða starfar í Danmörku áttu rétt á heilbrigðisþjónustu í opinbera heilbrigðiskerfinu. Þú kannt einnig að eiga rétt á ákveðinni heilbrigðisþjónustu ef þú dvelst tímabundið í Danmörku.

Ef þú flytur til Danmerkur

Þegar þú flytur til Danmerkur frá öðru Norrænu landi áttu alla jafna að skrá þig í þjóðskrá í því sveitarfélagi sem þú hyggst búa í. Þá færðu danskt sjúkratryggingaskírteini. Skírteinið er sent á danska heimilisfangið þitt. Skírteinið sannar að þú hafir aðgang að allri heilbrigðisþjónustu í Danmörku. Þú þarft að framvísa skírteininu í hvert sinn sem þú hefur samskipti við heilbrigðiskerfið.

Þegar þú flytur til Danmerkur eða hefur störf í landinu þarftu að veita Udbetaling Danmark upplýsingar um sjúkratryggingastöðu þína. Udbetaling Danmark þarf upplýsingarnar til þess að meta hvort Danmörk eða annað land eigi að standa straum af kostnaði við sjúkratryggingar þínar.

Upplýsingar um sjúkratryggingastöðu geta t.d. verið:

  • að þú þiggir lífeyrisgreiðslur frá öðru norrænu landi eða EES-landi, Sviss eða Bretlandi.
  • að þú þiggir annars konar félagslega aðstoð frá öðru norrænu landi eða EES-landi, Sviss eða Bretlandi, t.d. vegna fæðingarorlofs eða veikinda.
  • að þú hafir áður búið í Danmörku og sért að flytja þangað aftur.
Ef þú ætlar að vinna í Danmörku en búa í öðru norrænu landi

Ef þú býrð í öðru norrænu landi en starfar fyrir danskan vinnuveitanda í Danmörku nýturðu alla jafna danskra sjúkratrygginga. Það þýðir að þú eigir rétt til danskrar heilbrigðisþjónustu á sömu forsendum og einstaklingar sem búa í Danmörku. Sérstakt sjúkratryggingaskírteini er staðfesting þín á því. Þú átt rétt á að fá skírteinið útgefið hjá Udbetaling Danmark. Þú þarft að framvísa því í hvert sinn sem þú átt samskipti við heilbrigðiskerfið.

Annaðhvort getur verið litið á þig sem „landamærastarfsmann“ (grænsearbejder( eða „launamann“ (arbejdstager). Udbetaling Danmark ákveður það út frá því hvort þú ferðist aftur til heimilis þíns í öðru norrænu landi a.m.k. einu sinni í viku eður ei. Burtséð frá því hefurðu fullan aðgang að danskri heilbrigðisþjónustu en ef þú att fjölskyldu sem einnig á að sjúkratryggja skiptir það máli fyrir aðra fjölskyldumeðlimi hvort þú teljist landamærastarfsmaður eða launamaður.

Sérstakt sjúkratryggingakort gildir að hámarki í tvö ár. Hægt er að sækja um skírteinið á borger.dk og nota má sjálfsafgreiðsluna án þess að hafa MitID-auðkenni.

Fyrirtæki geta sótt um sérstakt sjúkratryggingakort fyrir starfsfólk sitt á vefnum virk.dk.

Nánari upplýsingar um sérstakt sjúkratryggingakort er að finna á vefnum borger.dk. Ef þú ert með spurningar geturðu haft samband við Udbetaling Danmark, International Sygesikring. Nánari upplýsingar um danska sjúkratryggingu eru á vefsíðunni borger.dk og á vefsvæði Styrelsen for Patientsikkerhed.

Danskar sjúkratryggingar og útlönd

Ef þú nýtur sjúkratrygginga í Danmörku geturðu fengið blátt ESB-sjúkratryggingaskírteini frá Danmörku. Það geturðu notað á ferðalögum innan ESB og EES, í Sviss og Bretlandi.

ESB-sjúkratryggingaskírteini frá Danmörku

Þegar maður er sjúkratryggður í Danmörku á maður að sækja um bláa ESB-sjúkratryggingaskírteinið í Danmörku. Skírteinið er staðfesting þín á rétti til að fá nauðsynlega læknisþjónustu meðan á tímabundinni dvöl stendur í öðru ESB- eða EES-landi, Sviss eða Bretlandi, t.a.m. ef þú veikist í fríi.

Maður þarf sjálfur að sækja um ESB-sjúkratryggingaskírteini. Það er gert rafrænt í gegnum borger.dk eða með því að hafa samband við Udbetaling Danmark ef maður hefur ekki MitID-auðkenni eða Digital Post.

Athuga ber að þiggi maður félagslegar greiðslur frá öðru norrænu landi, ESB- eða EES-landi eða Sviss, t.d. lífeyri eða greiðslur vegna barneigna eða veikinda, skal maður sækja um ESB-sjúkratryggingaskírteini eða breskt sjúkratryggingaskírteini. Ef spurningar vakna má hafa samband við Udbetaling Danmark.

Veikindi þegar dvalist er tímabundið utan Danmerkur

Á heimasíðu framkvæmdastjórnar ESB er að finna upplýsingar um hvernig ESB-sjúkratryggingaskírteinið er notað við dvöl í öðrum ESB- eða EES-löndum, Sviss og Bretlandi. Á heimasíðu Styrelsen for Patientsikkerhed er að finna upplýsingar um sérstakan Norðurlandasamning um rétt á heimferð við veikindi.

Hafirðu greitt reikning fyrir meðhöndlun í öðru aðildarríki, sem þú telur að ESB-sjúkratryggingaskírteinið eigi að dekka, geturðu sótt um endurgreiðslu hjá dönsku sjúkraöryggisstofnuninni, Styrelsen for Patientsikkerhed. Sé kostnaðurinn vegna kaupa á heilbrigðisþjónustu í öðru ESB- eða EES-landi geturðu einnig sótt um endurgreiðslu hjá héraðinu sem þú býrð í í Danmörku. Umsóknin verður metin út frá því hvað þú getur fengið miðað við danskar reglur um styrki vegna læknisþjónustu. Óháð því hvort þú sækir um í gegnum sjúkraöryggisstofnunina eða héraðið geturðu valið að báðir kostir séu skoðaðir og því fengið endurgreiðslu samkvæmt þeim reglum sem besta niðurstöðu gefa. Bætur vegna lyfjakaupa í öðru ESB- eða EES landi er hægt að sækja um rafrænt hjá dönsku lyfjastofnuninni, Lægemiddelstyrelsen. Þú getur fengið aðstoð hjá sjúkraöryggisstofnuninni. 
 

Tímabundin dvöl og skipulögð meðferð í Danmörku

Hver eru réttindi þín ef þú veikist á meðan þú dvelst tímabundið í Danmörku?

Ef þú nýtur sjúkratrygginga í öðru norrænu landi og veikist meðan á tímabundinni dvöl í Danmörku stendur áttu rétt á læknisfræðilega nauðsynlegri meðferð meðan dvölin stendur yfir. Það getur jafnt átt við um bráð veikindi sem og fyrirliggjandi veikindi, svo sem króníska sjúkdóma, eða ef þú ert barnshafandi og þarft á eftirliti eða meðhöndlun að halda á meðan þú dvelst í Danmörku.

Yfirleitt er heilbrigðisþjónusta í opinbera heilbrigðiskerfinu í Danmörku endurgjaldslaus en þú þarft að geta sýnt fram á að þú njótir opinberra sjúkratrygginga í heimalandi þínu. Ef þú nýtur sjúkratrygginga í öðru norrænu landi þarftu að sýna fram á búsetu í norrænu landi. Einnig geturðu framvísað ESB-sjúkratryggingaskírteini.

 

Skipulögð meðferð í Danmörku ef maður nýtur sjúkratrygginga í öðru norrænu landi

Ef þú býrð í öðru norrænu landi og nýtur sjúkratrygginga þar og óskar eftir skipulagðri læknismeðferð á opinberu sjúkrahúsi eða annarri opinberri læknismeðferð í Danmörku þarftu í sumum tilvikum að vera með tilvísun sem gefin er út af sjúkratryggingum þínum til þess að fá kostnaðinn greiddan. Þú kannt einnig að eiga rétt á að greiða fyrir meðferðina og sækja um endurgreiðslu eftir á frá sjúkratryggingum í heimalandi þínu. Hafðu samband við sjúkratryggingar þínar til þess að fá nánari upplýsingar um þau skilyrði sem við eiga ef þú sækist eftir skipulagðri meðferð í Danmörku.

Athuga ber að í Danmörku kunna að vera kröfur um tilvísun frá lækni eða tannlækni vegna tiltekinna meðferða í opinbera heilbrigðiskerfinu. Það á meðal annars við um meðhöndlun á opinberum sjúkrahúsum og hjá ákveðnum sérlæknum.

Hvað kostar heilbrigðisþjónustan og hvaða niðurgreiðslur eru í boði?

Þegar þú nýtur opinberra sjúkratrygginga í öðru norrænu landi, eða ef þú flytur til Danmerkur og færð þar sjúkratryggingar, er heilbrigðisþjónusta oftast endurgjaldslaus en þú kannt að þurfa að uppfylla ákveðin skilyrði.

Þú þarft að geta fært sönnur á rétt þinn til þess að fá heilbrigðisþjónustu samkvæmt opinberum dönskum sjúkratryggingum. Það hvaða gögnum þarf að framvísa fer eftir því hvort þú býrð eða starfar í Danmörku eða dvelst þar tímabundið.

  • Ef þú býrð í Danmörku: sjúkratryggingaskírteinið þitt
  • Ef þú býrð erlendis og starfar í Danmörku: sérstakt sjúkratryggingaskírteini 
  • Ef þú býrð í öðru norrænu landi: skilríki og staðfestingu á búsetu
  • Ef þú ert danskur lífeyrisþegi sem býr erlendis eða nýtur trygginga í gegnum fjölskyldumeðlim: ESB-sjúkratryggingaskírteini sem gefið er út í Danmörku og upplýsingar um sjúkratryggingastöðu þína
  • Ef þú ert ríkisborgari í ESB-/EES-landi, Sviss eða Bretlandi: ESB-sjúkratryggingaskírteini eða breskt sjúkratryggingaskírteini
Heimilislæknar og opinber sjúkrahús

Einstaklingar greiða ekki fyrir læknisþjónustu hjá heimilislæknum. Þó þarf maður að greiða sjálfur fyrir ákveðnar tegundir þjónustu, svo sem bólusetningar og læknisvottorð. Bólusetningar innan danska bólusetningarkerfisins fyrir börn eru alltaf endurgjaldslausar.

Ekki þarf að greiða fyrir meðferð á opinberum sjúkrahúsum ef maður hefur tilvísun. Ekki þarf tilvísun fyrir bráðameðferð á sjúkrahúsi.

Tannlæknar

Tannlækningar eru ókeypis fyrir börn og ungmenni yngri en 22 ára. Þetta á við um alla sem fæddust árið 2004 eða seinna. Opinberar sjúkratryggingar greiða niður ýmsa tannlæknaþjónustu fyrir fullorðna. Greiðsluþátttaka hins opinbera hefur yfirleitt verið dregin frá því verði sem tannlæknar gefa upp.

Sérfræðilæknar og aðrir heilbrigðisþjónustuaðilar

Ekki þarf að greiða fyrir meðferð hjá sérfræðingum ef maður hefur tilvísun. Þó þarf ekki tilvísun til að fá endurgjaldslausa meðferð hjá háls-, nef- og eyrnasérfræðingum eða augnlæknum. 

Þótt maður hafi tilvísun til t.d. hnykkjara, fótasérfræðings, sálfræðings eða sjúkraþjálfara þarf maður að greiða hluta kostnaðarins sjálfur. 

Niðurgreiðsla á lyfjum og læknisþjónustu

Kaupir þú lyfseðilsskyld lyf færðu þau sjálfkrafa niðurgreidd. Greiðsluþátttakan er þrepaskipt og fer eftir lyfjakaupum á tólf mánaða tímabili. Yfirlit yfir greiðsluþrep er að finna á vef Lægemiddelstyrelsen. Heimilislæknirinn getur metið hvort þú þurfir frekari niðurgreiðslu á lyfjum og sækir þá um hana hjá Lægemiddelstyrelsen. Upplýsingar um einstaklingsbundnar niðurgreiðslur er að finna á vef Lægemiddelstyrelsen.

Ef þú ert ekki með danskt sjúkratryggingaskírteini eða sérstakt sjúkratryggingaskírteini en vilt kaupa lyfseðilsskyld lyf með niðurgreiðslu frá Danmörku þarftu annaðhvort að framvísa ESB-sjúkratryggingaskírteini eða norrænum skilríkjum ásamt staðfestingu á búsetu þinni á Norðurlöndum. Upplýsa þarf lyfsöluna um sjúkratryggingastöðu ef þú nýtur sjúkratrygginga vegna kostnaðar í Danmörku.

Finna heilbrigðisþjónustuaðila og -stofur í Danmörku

Heimilislæknir

Ef þú býrð eða dvelst í Danmörku og veikist áttu að hafa samband við heimilislækni.

Einstaklingar sem skráðir eru í þjóðskrá í Danmörku eiga að velja heimilislækni í sveitarfélagi sínu.

Heimilislæknirinn sér til þess að þú fáir þá læknismeðferð sem þú þarft eða vísar þér áfram til sérfræðilæknis eða sjúkrahúss.

Læknavakt

Utan afgreiðslutíma læknisins þíns er hægt að hringja í læknavakt. Læknavaktin metur hvort þú þurfir að mæta á móttöku læknavaktarinnar. Í sérstökum tilvikum kemur læknirinn heim til þín.

Samskiptaupplýsingar læknavakta eftir héruðum er að finna á borger.dk.

Bráðamóttaka (slysavarðstofa)

Bráðamóttakan sinnir alvarlegum meiðslum sem eru fyrir utan verksvið heimilislæknisins, til dæmis beinbrotum eða brunameiðslum.

Á bráðamóttökunni er alvarlegustu meiðslunum sinnt fyrst og því má búast við biðtíma. Flest, en ekki öll, sjúkrahús hafa bráðamóttöku en maður þarf að hringja á undan sér.

Ef þú þarft á sjúkrahússmeðferð að halda sem ekki er bráð, þarftu að hafa tilvísun frá lækni.

Samskiptaupplýsingar fyrir bráðamóttökur og slysavarðstofur er að finna á borger.dk. 

Finna heilbrigðisþjónustuaðila og -stofur í Danmörku

Á vefsvæðinu sundhed.dk er hægt að finna almennar upplýsingar um danska heilbrigðiskerfið ásamt samskiptaupplýsingum heimilislækna, sérfræðinga, sjúkraþjálfara, tannlækna, opinberra sjúkrahúsa, einkastofa, apóteka o.fl.

Athugið að heilbrigðisþjónustuaðilinn þarf að vera með samning við opinbera heilbrigðiskerfið til að meðhöndlunin fáist niðurgreidd. Það á einnig við um bláa ESB-sjúkratryggingaskírteinið.

Hvar færðu svör við spurningum?

Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna