Réttur til heilbrigðisþjónustu í Danmörku

Ret til sundhedsydelser i Danmark
Hér geturðu lesið um þá heilbrigðisþjónustu sem þú átt rétt til í Danmörku, um rétt þinn til fyrirhugaðrar læknismeðferðar í Danmörku ef þú býrð í öðru norrænu landi og hvert þú átt að leita ef þú veikist í Danmörku.

Ef þú veikist skyndilega á meðan þú dvelst í Danmörku áttu rétt á ókeypis læknisþjónustu á sjúkrahúsi. Á það einnig við um gesti frá öðrum löndum. Ef þú býrð í Danmörku og átt þar lögheimili færðu sjúkratryggingakort hjá sveitarfélaginu. Þú framvísir kortinu í hvert sinn sem þú ferð til læknis, á bráðamóttöku eða á sjúkrahús. Þú hefur frjálsan aðgang að heilbrigðiskrefinu og eru flestar læknismeðferðir og rannsóknir ókeypis.

Sjúkratryggingakort

Sjúkratryggingakortið staðfestir að þú eigir rétt á opinberri heilbrigðisþjónustu í Danmörku. Í henni felst ókeypis læknisþjónusta og niðurgreiðslur á tannlækningum, lyfjum og sjúkraþjálfun svo eitthvað sé nefnt.

Þú framvísir sjúkratryggingakorti í hvert sinn sem þú ferð til læknis, á bráðamóttöku eða á sjúkrahús.

  Þú getur lesið nánar um danskar sjúkratryggingar á vefnum borger.dk. Á vef opinbera heilbrigðiskerfisins, sundhed.dk, eru einnig ítarlegar upplýsingar um danska heilbrigðiskerfið.

   Ef þú flytur til Danmerkur eða býrð þar

   Þegar þú flytur til Danmerkur frá öðru norrænu landi eða EES-landi færðu danskt sjúkratryggingakort þegar þú hefur skráð lögheimili þitt í Danmörku.

   Ef þú býrð í öðru norrænu landi en starfar í Danmörku

   Ef þú býrð í öðru EES-landi eða Sviss en starfar í Danmörku hjá dönskum atvinnurekanda telst þú starfsfólk sem ferðast yfir landamæri til vinnu. Þá áttu rétt á „sérstöku sjúkratryggingakorti“. Skírteinið veitir þér rétt til danskrar heilbrigðisþjónustu á sömu kjörum og einstaklingar sem búa í Danmörku.

   Sérstakt sjúkratryggingakort gildir að hámarki í tvö ár. Sótt er um sérstakt sjúkratryggingakort á vefnum borger.dk. Hægt er að nota sjálfsafgreiðslu án þess að hafa NemID-auðkenni.

   Fyrirtæki geta sótt um sérstakt sjúkratryggingakort fyrir starfsfólk sitt á vefnum virk.dk.

   Nánari upplýsingar um sérstakt sjúkratryggingakort er að finna á vefnum borger.dk. Ef þú ert með spurningar geturðu haft samband við Udbetaling Danmark.

   Evrópska sjúkratryggingakortið

   Einstaklingar sem eru almannatryggðir í Danmörku sækja um evrópska sjúkratryggingakortið í Danmörku á vefnum borger.dk. Korthafi getur notað evrópska sjúkratryggingakortið (ES kortið) ef hann veikist á meðan hann dvelst tímabundið í öðru EES-landi. Þú getur lesið nánar á vefnum borger.dk.

   Ef þú býrð í Danmörku og starfar ekki erlendis

   Einstaklingar sem búa í Danmörku og starfa ekki erlendis eru að öllu jöfnu almannatryggðir í Danmörku og geta sótt um evrópska sjúkratryggingakortið á vefnum borger.dk.

   Ef þú býrð í Danmörku og starfar í öðru norrænu landi

   Einstaklingar sem búa í Danmörku og starfa í öðru EES-landi eða Sviss sækja að öllu jöfnu um sjúkratryggingakortið í starfslandinu. Ef einstaklingar eru í vafa um hvort þeir eru almannatryggðir í Danmörku geta þeir haft samband við Udbetaling Danmark.

   Ef þú býrð í öðru norrænu landi en starfar í Danmörku

   Einstaklingar sem búa í öðru EES-landi eða Sviss en starfa í Danmörku hjá dönskum atvinnurekanda eru að öllu jöfnu almannatryggðir í Danmörku. Það þýðir að þeir eiga rétt á evrópsku sjúkratryggingakorti í Danmörku. Ef einstaklingar eru í vafa um hvort þeir eru almannatryggðir í Danmörku geta þeir haft samband við Udbetaling Danmark.

   Hver eru réttindi þín ef þú veikist á meðan þú dvelst tímabundið í Danmörku?

   Ef þú dvelst tímabundið í Danmörku og starfar ekki þar í landi áttu rétt á ókeypis læknisþjónustu á sjúkrahúsi í Danmörku ef alvarleg veikindi koma upp. Evrópska sjúkratryggingakortið gildir einnig ef þú þarft nauðsynlega á læknisþjónustu að halda vegna ólæknandi sjúkdóms á meðan á dvöl þinni stendur.

   Einstaklingar sem eru sjúkratryggðir í norrænu landi þurfa að geta vottað það. Einstaklingar sem eru sjúkratryggðir í EES-landi utan Norðurlanda þurfa að vera með evrópska sjúkratryggingakortið.

   Hvað kostar heilbrigðisþjónustan og hvaða niðurgreiðslur eru í boði?

   Heimilislæknar og opinber sjúkrahús

   Einstaklingar greiða ekki fyrir læknisþjónustu hjá heimilislæknum og á opinberum sjúkrahúsum í Danmörku.

   Tannlæknar

   Tannlækningar eru ókeypis fyrir börn og ungmenni yngri en 18 ára. Opinberar sjúkratryggingar greiða niður ýmsa tannlæknaþjónustu fyrir fullorðna. Greiðsluþátttaka hins opinbera hefur yfirleitt verið dregin frá því verði sem tannlæknar gefa upp.

   Sérfræðilæknar

   Einstaklingar greiða ekki fyrir læknisþjónustu hjá sérfræðilæknum en þeir greiða að hluta til fyrir þjónustu hjá til að mynda kírópraktor, fótasnyrti, sálfræðingi og sjúkraþjálfara.

   Niðurgreiðsla á lyfjum og læknisþjónustu

   Kaupir þú lyfseðilsskyld lyf færðu þau sjálfkrafa niðurgreidd. Greiðsluþátttakan er þrepaskipt og fer eftir lyfjakaupum á tólf mánaða tímabili. Yfirlit yfir greiðsluþrep er að finna á vef Lægemiddelstyrelsen. Heimilislæknirinn getur metið hvort þú þurfir frekari niðurgreiðslu á lyfjum og sækir þá um hana hjá Lægemiddelstyrelsen. Upplýsingar um einstaklingsbundnar niðurgreiðslur er að finna á vef Lægemiddelstyrelsen.

   Fyrirhuguð læknismeðferð í útlöndum

   Sem íbúi í EES-landi geturðu í ýmsum tilvikum fengið niðurgreidda læknisþjónustu í öðru EES-landi en heimalandinu.

   Á einstaklingur rétt á fyrirhugaðri læknismeðferð í öðru norrænu landi ef hann er almannatryggður í Danmörku?

   Einstaklingur sem er sjúkratryggður í Danmörku og handhafi sjúkratryggingakorts getur fengið niðurgreidda læknismeðferð í öðru EES-landi.

   Einstaklingur sem er búsettur í Danmörku og með sjúkratryggingu sem annað EES-land ber kostnað af þarf að sækja um niðurgreiðslu hjá sjúkratryggingum í viðkomandi EES-landi, til að mynda ef hann starfar erlendis eða fær eingöngu lífeyri erlendis frá.

   Þú getur lesið nánar um reglurnar hjá Styrelsen for Patientsikkerhed.

   Á einstaklingur rétt á fyrirhugaðri læknismeðferð í Danmörku ef hann er almannatryggður í öðru norrænu landi?

   Ef þú óskar eftir læknismeðferð á opinberu sjúkrahúsi eða annarri opinberri læknismeðferð í Danmörku þar sem krafist er tilvísunar frá lækni eða tannlækni, þarftu að vera með tilvísun sem gefin er út af lækni eða tannlækni í heimalandinu eða öðru EES-landi.

   Reglur um aðgang að kaupum á læknismeðferð hjá hinu opinbera eða einkaaðila í Danmörku hafa ekki áhrif á rétt þinn til nauðsynlegrar læknismeðferðar hjá hinu opinbera í Danmörku ef þú veikist eða slasast á meðan þú dvelst í landinu. Þú getur lesið nánar um reglurnar hjá Styrelsen for Patientsikkerhed.

   Hvaða heilbrigðisþjónustu í Danmörku áttu rétt á ef þú dvelst tímabundið annars staðar en Danmörku?

   Ef þú stundar nám erlendis skemur en í eitt ár

   Réttur þinn til danskrar heilbrigðisþjónustu á meðan þú stundar nám í öðru EES-landi eða Sviss fer eftir því hvort námið er styttra en eitt ár eða lengra.

   Einstaklingur sem er almannatryggður í Danmörku og hyggst stunda nám í öðru EES-landi eða Sviss skemur en í eitt ár getur notað evrópska sjúkratryggingakortið en það veitir rétt til læknisþjónustu á sömu kjörum og íbúar námslandsins.

   Ef þú ert enn með lögheimili í Danmörku heldurðu danska sjúkratryggingakortinu og notar það í danskri heilbrigðisþjónustu eins og hingað til.

   Ef þú flytur lögheimili þitt úr landi á meðan á náminu stendur geturðu yfirleitt fengið sérstakt sjúkratryggingakort sem veitir þér rétt til danskrar heilbrigðisþjónustu á sömu kjörum og íbúar í Danmörku.

   Nánari upplýsingar á vefnum borger.dk.

   Ef þú stundar nám í öðru norrænu landi lengur en í eitt ár

   Réttur þinn til danskrar heilbrigðisþjónustu á meðan þú stundar nám í öðru EES-landi eða Sviss fer eftir því hvort námið er styttra en eitt ár eða lengra.

   Hyggist þú stunda nám í öðru EES-landi eða Sviss lengur en í eitt ár er almenna reglan sú að þú eigir ekki rétt til sjúkratryggingar í Danmörku. Í einhverjum tilvikum geturðu haldið réttinum til danskrar heilbrigðisþjónustu ef þú getur skráð þig í sjúkratryggingu dvalarlandsins sem ættingi einstaklings sem er búsettur í Danmörku.

   Þetta geturðu sótt um á evrópska umsóknareyðublaðinu E 109.

   Nánari upplýsingar á vefnum borger.dk.

   Ef þú býrð eða starfar í öðru norrænu landi

   Ef þú býrð eða starfar í útlöndunum gilda yfirleitt reglur starfslandsins. Í sumum tilvikum gilda danskar almannatryggingar og þá áttu rétt til danskrar heilbrigðisþjónustu. Nánari upplýsingar er að finna á vefnum borger.dk.

   Endurgreiðslur útlagðs kostnaðar vegna læknismeðferðar í öðru norrænu landi

   Ef þú leitar til læknis eða á sjúkrahús á meðan þú dvelst í EES-landi eða Sviss og fengið reikning geturðu í ákveðnum tilvikum átt rétt á endurgreiðslum. Þú getur lesið nánar um reglurnar hjá Styrelsen for Patientsikkerhed.

   Læknisþjónusta í Danmörku

   Heimilislæknir

   Þegar þú flytur til Danmerkur velurðu þér heimilislækni í sveitarfélaginu sem þú býrð í. Þú leitar til heimilislæknisins þegar þú veikist.

   Heimilislæknirinn sér til þess að þú fáir þá læknismeðferð sem þú þarft og getur vísað þér áfram til sérfræðilæknis.

   Læknirinn veitir einnig aðra þjónustu, til dæmis bólusetningar og getnaðarvarnir.

   Sérfræðilæknir

   Heimilislæknirinn metur hvort þú þurfir læknismeðferð hjá sérfræðilækni.

   Sérfræðilæknar sérhæfa sig í ákveðnum greinum læknisfræðinnar, til dæmis háls-, nef- og eyrnalækningum, húðlækningum eða geðlækningum.

   Þú þarft alltaf að byrja á því að fara í skoðun hjá heimilislækninum áður en þér er vísað áfram til sérfræðilæknis.

   Læknavakt

   Ef þú veikist og þarft læknishjálp utan opnunartíma heimilislæknisins geturðu hringt á læknavaktina.

   Læknirinn metur hvort þú þurfir að mæta á móttöku læknavaktarinnar. Í sérstökum tilvikum kemur læknirinn heim til þín.

   Þú finnur næstu læknavakt á vefnum sundhed.dk.

   Bráðamóttaka

   Bráðamóttakan sinnir alvarlegum meiðslum sem eru fyrir utan verksvið heimilislæknisins, til dæmis beinbrotum eða brunameiðslum.

   Á bráðamóttökunni er alvarlegustu meiðslunum sinnt fyrst og því má búast við biðtíma.

   Bráðamóttaka er á flestum en ekki öllum sjúkrahúsum.

   Víðast hvar í Danmörku þarftu að hringja á undan þér áður en þú mætir á bráðamóttöku.

   Neyðarlínan 112

   Ef þig vantar sjúkrabíl vegna slyss eða annarra bráðatilvika hringirðu í 112.

   Þú þarft að gefa upp nafn þitt, greina frá því sem kom fyrir og hvaðan þú hringir.

   Tannlæknir

   Á vefnum sundhed.dk er hægt að bera saman verð á þjónustu ýmissa tannlækna í Danmörku.

   Hvert áttu að leita með spurningar?

   Spurning til Info Norden

   Ef þú ert með spurningu skaltu fylla út eyðublaðið hérna:

   ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

   Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
   Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna