Formennskuáætlun Noregs í Norðurlandaráði 2018

Stortinget i Oslo
Photographer
Lennart Perlenhem/norden.org
Í heimi sem einkennist af breytingum og óróleika er norrænt samstarf mikilvægara en nokkru sinni fyrr. Anspænis ófyrirsjáanlegum öryggispólitískum veruleika og mikilli þörf fyrir endurskipulagningu standa norrænu löndin betur að vígi sameinuð en sundruð. Traust það og samstaða sem ríkir milli Norðurlandaþjóðanna gefur okkur forskot sem við megum til með að nýta okkur og efla. Við, sem búum á einu samþættasta svæði heims, eigum að halda áfram að standa vörð um norrænt samfélag og norræna líkanið.

Árið 2018 verður áfram unnið að því að ryðja burt stjórnsýsluhindrunum milli landanna okkar og við höldum áfram að auka norrænt notagildi fyrir þær 26 milljónir sem í löndunum búa. Formennska Noregs setur sérstaklega á oddinn árið 2018 að efla norrænt samstarf á sviði heilbrigðis, mennta, hafs og varnarmála. Með öflugu norrænu samstarfi um heilbrigðistækni, samþættingu, lífríki hafsins og varnir, svo að dæmi séu tekin, munum við tryggja sjálfbært, stöðugt og öruggt norrænt samfélag, einnig til langframa.

Heilbrigðistækni og öryggi sjúklinga

Ónæmi gegn sýklalyfjum er einhver alvarlegasta heilsufarsógn okkar tíma. Harðsnúnar bakteríur og örverur kosta nú á dögum milljónir manna lífið og kosta milljarða. Neysla þessara lyfja er ekki lengur sjálfbær og hana verður að takmarka. Baráttan gegn sýklalyfjaónæmi verður þess vegna ofarlega á dagskrá í Norðurlandaráði árið 2018 eins og áður. Fá verður öll viðkomandi svið samfélagsins til þátttöku í samhæfðu átaki og markvissri pólitískri aðgerð til að vinna gegn sýklalyfjaónæmi. Formennskan hefur þess vegna í hyggju að fylgja eftir ábendingunum í hvítbók Norðurlandaráðs um sýklalyfjaónæmi.

Velferðartækni, rafrænt heilbrigði og nýjar hugmyndaríkar lausnir stuðla að nauðsynlegri endurnýjun og bættri nýtingu úrræða innan velferðargeirans. Á árinu 2018 vill formennska Noregs að samstarf um rafrænt heilbrigði og velferðartækni sé í brennidepli. Norrænu löndin búa yfir góðum heilbrigðis- og gæðaskrám sem ætti að gera aðgengilegar fyrir sameiginlegar rannsóknir um meðferðir. Við notkun skránna verður að gæta að tölvu- og gagnaöryggi og persónuvernd.

Á meðan Norðmenn hafa með höndum formennskuna mun Norðurlandaráð því eigi frumkvæði að viðræðum við norrænu ráðherrana um rannsóknarsamstarfið á heilbrigðissviði, sameiginlega þróun á nákvæmnislækningum (þ.e. persónumiðaðri læknisfræði), álitaefni tengd einsleitari heilbrigðisskráningu sem einfaldar samnýtingu auk gagnanotkunar þvert á landamæri. Formennskan mun fylgja eftir þeirri vinnu sem þegar er hafin um sameiginlega norræna skrá um heilbrigðisstarfsmenn sem hafa misst réttindi sín. Stefnt er að því að halda ráðstefnu um þessi viðfangsefni á fyrir helmingi ársins 2018.

Menntun, aðlögun og frjáls för

Menntun er aðgangsmiði að samfélaginu. Skólinn og leikskólinn eru mikilvægur vettvangur virkrar samfélagsþátttöku, aðlögunar og lýðræðislegs ríkisborgararéttar. Um leið verðum við vitni að því að mörg börn og ungmenni verði útundan og ljúki ekki framhaldsnámi. Þess vegna vill formennskan norska beita sér fyrir því á árinu 2018 að efla hið samnorræna framlag til ráðstafana sem stuðla að menntun og virkri þátttöku barna og ungmenna, meðal annars með því að fylgja eftir áætluninni «0-24».

Tungumál og menning eru lykillinn að norrænni samveru og frjálsri för. Sameiginlegur málskilningur styrkir norræna ímynd og hið norræna samfélag. Börn og ungmenni eiga að kunna skil á norrænni menningu, sögu, samfélagi og tungumálum. Árið 2018 mun formennskan hvetja kennara og skólastjórnendur til að setja Norðurlönd og norræn tungumál á stundaskrá.

Formennska Noregs hefur einnig í hyggju á árinu 2018 að leggja sitt af mörkum til að samræma frekar kröfur til fagþekkingar og leyfisveitinga í því skyni að iðnaðarmenn með viðurkennda norræna menntun geti starfað hvar sem er á Norðurlöndum. Auk þess verður að hanna umgjörð um kortlagningu, viðurkenningu og kröfur um viðbætur erlendrar menntunar og fagþekkingar sem gerir kleift að starfa á Norðurlöndum. Formennskan stefnir að því að afla upplýsinga frá löndunum um þetta efni til að leiða út bestu mögulegu framkvæmd.

Umhverfi og öryggi til sjós

Hafið er mikilvægt öllum norrænu löndunum. Sjávartengdar rannsóknir eiga sér langa sögu á Norðurlöndum. Ríkisstjórn Noregs sendi Stórþinginu umsögn sem nefnist «Hav i utenriks- og utviklingspolitikken» (Hafið í utanríkismála- og þróunarstefnunni) og benti á þörfina fyrir aukna þekkingu um hafið og miðlun á kunnáttu og hæfni. Þekking sem byggist á rannsóknum og samstarf milli atvinnugreina ræður úrslitum um sjálfbæra nýtingu sjávarauðlindanna.

Þörfin á auðlindum sjávar til fæðuöflunar og orkuvinnslu mun aukast. Á sama tíma stafar hafinu ógn af umhverfisvandamálum eins og mengun og úrgangslosun, loftslagsbreytingum og ofveiði. Formennskan mun bjóða til ráðstefnu um nýtingu sjávarauðæfa á grundvelli sjálfbærni og þekkingar sem byggist á rannsóknum. Auk þess verður norrænu plastáætluninni fylgt eftir. Formennskan hyggst vinna að því að Norðurlönd séu sameiginlegur þrýstihópur á alþjóðavettvangi um hafréttarmál og um stjórn á nýtingu sjávarauðlinda með sjálfbærni að markmiði. Þessu til viðbótar vill norska formennskan stuðla að því að tillögunum í skýrslunni Norrænt samstarf og sjálfbærnimarkmiðin 2030 verði fylgt eftir.

Siglingar hafa úrslitaþýðingu hvað það snertir að tryggja alþjóðaverslun og verðmætasköpun. Norðurlönd eru í fararbroddi viðvíkjandi þróun á tækni sem dregur úr umhverfismengun af völdum siglinga. Formennskan norska vill efla samkeppnisforskot Norðurlandanna á þessu sviði.

Hafsvæðin í norðri eru einstaklega viðkvæm og berskjölduð, ekki síst við skipsskaða. Vegna vaxandi ferðamennsku á þessum svæðum er nauðsynlegt að efla norrænt samstarf um leit og björgunaraðgerðir. Formennska Noregs vill stuðla að því að þetta viðfangsefni verði ofarlega á dagskrá á Norðurlöndum.

Varnarmál og öryggi

Norrænt samstarf um utanríkismál og öryggis- og varnarmál felur meðal annars í sér samfélagsöryggi, sáttamiðlun, framlag til aðgerða SÞ, ógnir gegn alþjóðlegu öryggi og varnir gegn öfgahyggju. Norrænu löndin eru framarlega á sviði stafrænnar þróunar og er hæfni á því sviði í okkar samfélagi mikil. Á sama tíma sætum við hótunum og árásum í hinu stafræna rými sem ógna stafrænum varnarvirkjum okkar. Tölvu- og netglæpir virða engin landamæri og baráttan gegn netógnum krefst aukinnar samvinnu yfir landamærin. Norska formennskan setur þess vegna norrænt samstarf um samfélagsöryggi og öruggari stafræna tilveru á dagskrá árið 2018.

Þrengri fjárhagsrammi og verðhækkun á hátæknilegum varnarbúnaði gerir að verkum að norrænu löndin hafa sameiginlega hagsmuni af því að þróa áfram varnarsamstarf sitt. Því vill Norðurlandaráð styðja frekar við norrænt varnarsamstarf á árinu 2018, meðal annars með því að halda norrænan fund í samstarfi við norsku formennskuna í NORDEFCO 2018.