Afnema ber tímamismun á Norðurlöndum

25.06.20 | Fréttir
Clock
Photographer
Icons8/Unsplash
Norðurlandaráð ætti að þrýsta á að tekinn verði upp sami tími alls staðar á Norðurlöndum á meginlandinu. Þetta segir norræna hagvaxtar- og þróunarnefndin.

Umræðan um sumar- og vetrartíma er ekki ný af nálinni en miðar hægt. Evrópuþingið hefur þegar samþykkt að afnema klukkubreytingar á milli sumar- og vetrartíma og átti breytingin að taka gildi árið 2021. Í millitíðinni hefur vinnan stöðvast og Króatía, sem fer með formennsku, hefur ekki viljað setja málið í forgang. Ekki verður ljóst fyrr en í fyrsta lagi 1. júlí hvað Þjóðverjar velja að gera þegar þeir taka við formennskunni. Norrænu löndin fylgjast með gangi mála innan ESB.

Á Íslandi hafa aldrei verið klukkubreytingar og afnám þeirra annars staðar á Norðurlöndum myndi stuðla að aukinni samþættingu svæðisins.

Pyry Niemi, formaður norrænu hagvaxtar- og þróunarnefndarinnar

Pyry Niemi, formaður Norrænu hagvaxtar- og þróunarnefndarinnar, vill að norrænu löndin nýti tímann vel svo tímamismunur innan Norðurlanda aukist ekki heldur hverfi.

„Það skiptir máli fyrir norrænu löndin að hafa ekki tímamismun. Það væri því eðlilegt að Finnland, Svíþjóð, Noregur og Danmörk væru á sama tímabelti. Á Íslandi hafa aldrei verið klukkubreytingar og afnám þeirra annars staðar á Norðurlöndum myndi stuðla að aukinni samþættingu svæðisins. Við viljum einfaldlega auðvelda íbúum lífið,“ segir Niemi.

Málið er ekki alveg einfalt á Norðurlöndum. Í dag er Finnland á sama tímabelti og Estrasaltsríkin. Vegna sögulegra tengsla á milli landanna er mikilvægt fyrir Finnland að halda því svo áfram. Ekki er ljóst hvernig þetta verður leyst. Fyrir norrænu hagvaxtar- og þróunarnefndina skiptir mestu máli að Norðurlönd standi saman að því að afnema klukkubreytingarnar.

Flokkahópur miðjumanna lagði tillöguna fram á sumarfundi nefndarinnar 22. júní og naut hún stuðnings nefndarinnar allrar. Nú mun nefndin senda ríkisstjórnum Norðurlanda bréf þar sem þær verða beðnar um að standa saman í afstöðu sinni til þess hvaða tímabelti Norðurlönd skuli tilheyra.