Aukafundur norrænna ráðherra vegna áhrifa þurrka á skóga og landbúnað

14.09.18 | Fréttir
brandflyg
Ljósmyndari
Tor Erik Schröder/Scanpix
Hinir miklu sumarhitar eru um garð gengnir en nú hefur skortur á fóðri og tekjumissir áhrif á landbúnað um öll Norðurlönd. Í Danmörku, Svíþjóð, Noregi og Finnlandi er uppskeran milli 20 og 50 prósentum minni en í meðalári sem leiðir til taps sem hleypur á milljörðum. Á miðvikudaginn halda norrænir landbúnaðarráðherrar aukafund til þess að ræða þetta ástand og einnig stefnumótun til framtíðar.

Sænski landbúnaðarráðherrann, Sven-Erik Bucht, hefur boðið landbúnaðarráðherrum hinna Norðurlandanna til aukafundar í ráðherranefndinni miðvikudaginn 19. september.

Staða mála í landbúnaði og skógareldarnir sem herjuðu á öll Norðurlöndin utan Íslands eru á dagskrá fundarins.

Tilgangurinn með fundinum er að ræða möguleikana á að styrkja viðbúnað við veðri á Norðurlöndum, bæði til styttri og lengri tíma litið.

  Danskt slökkviliðsflug til Svíþjóðar og íslenskt hey til Noregs

  Í sumar slökktu flugvélar og þyrlur frá Noregi og Danmörku skógarelda í Svíþjóð í samræmi við viðbragðsáætlun Evrópusambandsins.

  Nú hyggjast norrænu ráðherrarnir miðla reynslu af baráttunni við eldinn í sumar og kanna möguleika á frekara norrænu samstarfi.  

  Í upphafi hausts hefur Ísland meðal annars séð Noregi fyrir heyi og votheyi. Meðan gras sem ræktað er í fóður þornaði upp í fjórum af fimm norrænu ríkjunum rigndi óvenjulega mikið á Íslandi í sumar

  Þörf getur reynst á harðgerðari plöntum

  Til skemmri tíma litið leiðir óvenjulegt veðurlag sumarsins 2018 til lakari uppskeru og minni möguleika á beit, hærri fóðurkostnaðar og fækkunar á dýrum sem ræktuð eru vegna mjólkur og kjöts og öll Norðurlöndin vinna nú að styrkataráætlunum fyrir landbúnaðinn. 

  Til lengri tíma litið getur óvenjulegt veðurfar vegna loftslagsbreytinga haft áhrif á áhættumat, vilja til fjárfestinga og vexti í landbúnaðargeiranum.

  Aðlaga getur þurft landbúnaðinn að óstöðugra veðurfari og nota harðgerðari plöntur sem þola mikla þurrka og mikla rigningu.

  Þá geta löndin nýtt sér sameiginlega norræna genabankan, NordGen, en hlutverk hans er að varðveita og tryggja margbreytilegar erfðaauðlindir í mat og landbúnaði á Norðurlöndum.

   

  Staðreyndir/Svona eru áhrif þurrkanna á Norðurlöndum

  • Í dönskum landbúnaði er búist við 30 til 40 prósenta minni uppskeru en vant er sem getur leitt til fjárhagslegs taps fyrir landbúnaðinn upp á 6,4 milljarða danskra króna.
  • Í norskum landbunaði er búist við tapi sem nemur 5 til 6 milljörðum norskra króna, fyrst og fremst vegna fóðurskorts.
  • Sænska landbúnaðarstofnunin gerir ráð fyrir að uppskeran verði 25 prósent minni en í venjulegu ári.
  • Í Finnlandi er búist við 20 til 50 prósenta minni uppskeru en vanalega og að þurrkarnir í sumar muni kosta landbúnaðinn 400 milljónir evra.
  • Á Íslandi var vorið og sumarið rigningarsamt og var úrkoma 70 til 80 prósent meiri en í meðalári á Suðurlandi. Þetta dregur úr gæðum á heyi en Ísland hefur meðal annars flutt 30.000 rúllubagga út til Noregs.