Aukinn heilbrigðisviðbúnaður á Norðurlöndum

25.03.22 | Fréttir
Underskrift
Ljósmyndari
Alf Ove Hansen Augus Media
Heilbrigðisráðherrar Norðurlandanna hafa undirritað sameiginlega yfirlýsingu um eflingu viðbúnaðar vegna heilbrigðiskrísa Norðurlöndum.

„Við, heilbrigðisráðherrar Norðurlanda, köllum eftir frekari eflingu norræns samstarfs með það fyrir augum að styrkja heilbrigðisviðbúnað og viðnámsþol á Norðurlöndum og Evrópu í heild sinni.“ Svo hljóða inngangsorð yfirlýsingarinnar sem heilbrigðisráðherrarnir skrifuðu undir rétt í þessu. Yfirlýsingin byggir ofan á sameiginlega yfirlýsingu forsætisráðherranna um eflingu norrænna almannavarna.

Aukið samstarf á mörgum sviðum

Heilbrigðisráðherrarnir vilja setja aukinn kraft í samstarf um viðbúnað í heilbrigðismálum á nokkrum sviðum: 

 

•    Skipti á heilbrigðisgögnum 

•    Viðvarandi stöðumat 

•    Aukin samskipti

•    Samræmdar viðbúnaðaræfingar og miðlun reynslu  

•    Sameiginlegar rannsóknir til að kortleggja nýsköpun og getu til þróunar og framleiðslu á bóluefnum

 

Væntingar ráðherranna til yfirlýsingarinnar eru miklar og þeir benda á að aukið samstarf innan Norðurlanda og Evrópu komi öllum til góða. 

Krísur eins og COVID-19 og nú stríðið í Úkraínu sýna hve miklu máli skiptir að hafa öflugt heilbrigðis- og velferðarkerfi. Norrænt samstarf um heilbrigðsviðbúnað er gott en okkur ber öllum saman um að það þurfi að efla það enn frekar,“ sagði Ingvild Kjerkol, heilbrigðisráðherra í Noregi.

Krísur eins og COVID-19 og nú stríðið í Úkraínu sýna hve miklu máli skiptir að hafa öflugt heilbrigðis- og velferðarkerfi. Norrænt samstarf um heilbrigðsviðbúnað er gott en okkur ber öllum saman um að það þurfi að efla það enn frekar.

Ingvild Kjerkol, heilbrigðisráðherra í Noregi

Norrænt og evrópskt samstarf

Áður en yfirlýsingin var undirrituð hittust norrænu heilbrigðisráðherrarnir í Stafangri og áttu rafrænan fund með Stellu Kyriakides, framkvæmdastjóra heilbrigðis- og fæðuöryggismála hjá ESB. Þau ræddu möguleikana á nánara norrænu samstarfi og hvað Norðurlönd geti lagt til heilbrigðisviðbúnaðar í ESB. Til að mynda getur heilbrigðisgagnaverkefnið Nordic Commons lagt sitt af mörkum til European Health Data Space. Slíkt myndi gagnast jafnt Norðurlöndum sem Evrópu í heild. Jafnframt nefndu ráðherrarnir möguleikann á að Norðurlönd geti lagt sitt af mörkum með því að taka að sér verkefni og vinna tillögur að lausnum sem gagnast Evrópu.    

 

Reynslan af COVID-19 kallar á aukið samstarf

Norrænu ráðherrarnir ræddu einnig þau úrlausnarefni sem hafa fylgt COVID-19 ásamt núverandi úrlausnarefnum í tengslum við ástandið í Úkraínu. Þeir voru sammála um að Norðurlönd geti margt lært hvert af öðru í ljósi þess sem þau hafa gengið í gegnum og þeirra aðgerða sem gripið hefur verið til. Evrópusamstarf hefur reynst nauðsynlegt til að takast á við krísuna sem Norðurlönd og Evrópa hafa staðið frammi fyrir. Því er það lykilatriði í yfirlýsingunni að aukið norrænt samstarf um heilbrigðisviðbúnað sé liður í evrópsku samstarfi.