Aukinn metnaður í norrænu samstarfi um hafið
Haf umlykur Norðurlöndin og það eru sameiginlegir hagsmunir norrænu ríkjanna að tryggja verðmætt umhverfi sitt.
Í sérstakri hættu
Auk þess að vera mikilvæg fæðuauðlind og uppspretta endurnýjanlegrar orku er hafið liður í því að stemma stigu við loftslagsbreytingum með því að taka við umframhita og koltvísýringi. Um leið vitum við að loftslagsbreytingar og súrnun hafsins hafa gríðarleg áhrif á höfin og norræn höf og norðurslóðir eru í sérstakri hættu.
Nýjasta skýrsla loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna (IPCC) um höfin og og þann hluta jarðar þar sem er frost (jöklar, snjóþekja, frosin jörð, sífreri, hafís og ísilögð stöðuvötn) talar skýru máli: Loftslagsbreytingar í hafi eru þegar hafnar, þær eiga sér stað fyrir framan augun á okkur, og ef heimurinn bregst ekki við þegar í stað getur skaðinn haft afar alvarlegar afleiðingar.
Miðlun þekkingar
Enn er hægt að stemma stigu við hnattrænni hlýnun og áhrifum loftslagsbreytinga en umskiptin krefjast mikils átaks alþjóðasamfélagsins á stuttum tíma.
„Öll höf heimsins eru samtengd. Þetta þýðir að skilvirkar aðgerðir til þess að stemma stigu við þeim breytingum sem eiga sér stað í hafinu krefjast aukins svæðisbundins samstarfs. Ef við eigum að ná utan um þær breytingar sem eiga sér stað verðum við að fylgjast náið með ástandi umhverfisins á hafsvæðunum. Miðlun þekkingar og aukin samræming á Norðurlöndum myndi bæði auka skilvirkni og sparnað og gera okkur betur í stakk búin til þess að fara í nauðsynlegar aðgerðir,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis og auðlindaráðherra Íslands.
Ráðherrayfirlýsing
Ola Elvestuen, loftslags- og umhverfisráðherra Noregs, hefur átt frumkvæði að því að auka norrænt samstarfi á sviði hafs og loftslags. Á ráðherrafundinum á miðvikudaginn undirrituðu norrænu loftslags- og umhverfisráðherrarnir nýja ráðherrayfirlýsingu sem styrkir samstarfið enn frekar. Hafið er einnig mikið forgangsmál í formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni með áherslu á mengun af völdum plasts og örplasts.
Í yfirlýsingunni koma fram þungar áhyggjur loftslags- og umhverfisráðherranna af niðurstöðum hinnar nýju skýrslu Sameinuðu þjóðanna og undirstrikað er mikilvægi þess að auka metnaðinn í hnattrænu samstarfi um loftslagsmál og sjálfbærri stjórnun hafsins.
Hafið sem kolefnageymsla
Þá leggja ráðherrarnir áherslu á mikilvægi þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá sjávarútvegi og efla vinnslu endurnýjanlegrar orku sem byggir á hafinu. Auk þess leggja þeir áherslu á þörfina á að standa vörð um vistkerfi hafsins sem gegnir hlutverki kolefnageymslu og benda á að mikilvægar forsendur þess að styðja viðnámsþrótt vistkerfa hafsins gegn loftslagsbreytingum og súrnun hafs sé að koma á fót samhangandi verndarsvæðum í hafinu og stjórn sem byggir á vistfræðilegri nálgun.
Loftslagssamstarf og hringrásarhagkerfi hluti lausnarinnar
En forsenda þess að þetta takist er að lönd heimsins stemmi stigu við losun gróðurhúsalofttegunda. Þess vegna er mikil áhersla á loftslagsmál í þremur af mikilvægustu norrænu stefnumótununum: „The Declaration on Nordic Carbon Neutrality“ sem norrænu forsætisráðherrarnir undirrituðu í Helsinki í janúar 2019, nýju norrænu framtíðarsýninni þar sem fram kemur að Norðurlöndin eigi að vera sjálfbærasta svæði heims og sameiginlegri yfirlýsingu norrænu forsætisráðherranna og Nordic CEOs for a Sustainable Future.
Markviss og vandleg eftirfylgni með þessu var einnig forgangsmálefni á ráðherrafundinum á miðvikudag.
Loftslags- og umhverfisráðherrarnir ræddu einnig um hringrásarhagkerfið sem hluta af lausn loftslagsvandans og mögulegan efnahagslegan ávinning sem það gæti haft í för með sér á Norðurlöndum. Ráðherrarnir ákváðu að efna til úttektar þar sem tækifærin væru metin og hvaða aðgerðir væru nauðsynlegar til þess að hrinda því í framkvæmd.