Norrænt samstarf um loftslagsmál eflt

25.01.19 | Fréttir
Norges klimaminister Ola Elvestuen (bak fra venstre), Danmarks eneri-, forsynings- og klimaminister Lars Christian Lilleholt, Norges statsminister Erna Solberg, Finlands statsminister Juha Sipilä, Islands statsminister Katrin Jakobsdottir, Sveriges minister for internasjonalt utviklingssamarbeid og klima og visestatsminister Isabella Lövin og Islands minister for miljø og naturressurser Guðmundur Ingi Guðbrandsson samlet på klimatoppmøte i Helsinki. 

Norges klimaminister Ola Elvestuen (bak fra venstre), Danmarks eneri-, forsynings- og klimaminister Lars Christian Lilleholt, Norges statsminister Erna Solberg, Finlands statsminister Juha Sipilä, Islands statsminister Katrin Jakobsdottir, Sveriges minister for internasjonalt utviklingssamarbeid og klima og visestatsminister Isabella Lövin og Islands minister for miljø og naturressurser Guðmundur Ingi Guðbrandsson samlet på klimatoppmøte i Helsinki. 

Photographer
Laura Kotila/Valtioneuvoston kanslia

Ola Elvestuen, umhverfisráðherra Noregs, (aftast frá vinstri), Lars Christian Lilleholt, ráðherra Danmerkur í orku-, veitu- og loftslagsmálum, Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, Juha Sipilä, forsætisráðherra Finnlands, Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands, Isabella Lövin, varforsætisráðherra Svíþjóðar og ráðherra orkumála og alþjóðlegrar þróunarsamvinnu, og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra Íslands, samankomin á leiðtogafundi um loftslagsmál í Helsinki.

Norðurlönd einsetja sér að verða kolefnishlutlaus og taka forystu í baráttunni gegn hnattrænni hlýnun eftir því sem segir í nýrri yfirlýsingu forsætisráðherra Norðurlanda á leiðtogafundi í Helsinki. Fundurinn er liður í kröftugu norrænu samstarfi um loftslagsmál innan vébanda Norrænu ráðherranefndarinnar.

Forsætisráðherrar Norðurlanda og aðrir ráðherrar sem hafa loftslagsmál á sinni könnu komu saman í Helsinki föstudaginn 25. janúar. Þeir urðu sammála um að efla norrænt samstarf um loftslagsmál og taka forystu í loftslagsbaráttunni. 

- Tilgangurinn með fundinum er að gera umheiminum ljóst að Norðurlönd skuldbinda sig til að virða 1,5 gráðu markmiðið. Við ætlum að herða og uppfæra þær skuldbindingar sem lönd okkar hafa tekið á sig samkvæmt Parísarsamningnum og erum fús að berjast gegn loftslagsbreytingum á hvaða alþjóðlega vettvangi sem er, segir Kimmo Tiilikainen, ráðherra Finnlands í umhverfis-, orku- og húsnæðismálum, sem ásamt Juha Sipilä forsætisráðherra bauð til þessa fundar um loftslagsmál.

(Fréttin heldur áfram eftir myndbandið)

Setja sér strangari loftslagsmarkmið

Í yfirlýsingunni segir meðal annars að Norðurlönd muni setja sér strangari markmið í loftslagsmálum til ársins 2020 og  vinna saman að því að verða kolefnishlutlaus.

„Með samvinnu getum við þróað lausnir sem miða að núlllosun og hafa hnattræn áhrif. Við verðum að gera iðnaði á Norðurlöndum kleift að taka forystu í grænum umskiptum (…) Með þessari yfirlýsingu skuldbindum við okkur til að vinna að kolefnishlutleysi í öllum norrænu löndunum fimm og til að afla norrænni loftslagsstefnu fylgis hvarvetna á alþjóðavettvangi þar sem unnið er að lausnum til að draga úr hnattrænni losun“, segir í yfirlýsingunni, en henni verður fylgt eftir í Norrænu ráðherranefndinni. 

Norrænt samstarf

Ákvörðunin er tekin með hliðsjón af loftslagssamningum Sameinuðu þjóðanna í Katowice í desember á nýliðnu ári og skýrslu milliríkjanefndar samtakanna um loftslagsbreytingar frá því í haust sem sýnir að ríki heims verði að herða á sér til að ná markinu um að takmarka hnattræna hlýnun við 1,5 gráður.

Samstarf Norðurlanda um loftslags- og umhverfismál á sér langa sögu, til dæmis á grundvelli verkefnis forsætisráðherranna „Nordic Solutions to Global Challenges“ og heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna fyrir árið 2030 sem lúta að ýmsum norrænum lausnum á hnattrænum viðfangsefnum eins og þeim er lýst í Parísarsamningnum og sjálfbærnimarkmiðunum sautján.

Í fararbroddi

Forsætisráðherrar Norðurlanda vilja setja markið hærra að því er varðar loftslagsmálin.

– Fundurinn tekur af tvímæli um að norrænu löndin geri öll sem eitt loftslagsbreytingar að forgangsmáli og að við getum brugðist fljótt við. Ég tel að löndin geti unnið nánar saman varðandi loftslagsmál. Við höfum öll sett okkur stefnu um kolefnishlutleysi og getum öll lært meira hvert af öðru, segir Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands, en land hennar fer með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni árið 2019.