Barneignir Norðurlandabúa aukast í kjölfar faraldursins, öfugt við þróunina annars staðar í álfunni

23.03.22 | Fréttir
Barn på Christiansborg
Photographer
Liselotte Sabroe/Ritzau Scanpix
Þrátt fyrir aukið atvinnuleysi og óvissu um framtíðina fjölgaði fæðingum á Norðurlöndum árið 2021, samkvæmt rannsóknarskýrslunni State of the Nordic Region sem var birt í dag. Í skýrslunni eru einnig birtar nýjar samanburðartölur um efnahagslegan bata eftir heimsfaraldurinn.

Á tveggja ára fresti tekur norræna rannsóknarstofnunin Nordregio púlsinn á efnahagsmálum, vinnumarkaðnum og íbúaþróun í öllum norrænum sveitarfélögum og landshlutum. Í ár er í skýrslu Nordregio, „State of the Nordic Region“, fjallað um heimsfaraldurinn, áhrif hans kortlögð og settir fram ýmsir mælikvarðar sem sýna hversu þrautseigt norræna samfélagslíkanið er þegar á reynir. 

Í skýrslunni er dregin upp mynd af Norðurlöndum sem standa í raun ekki lengur undir orðspori sínu fyrir almenna velferð og félagslegan jöfnuð en þoldu þó býsna vel almennu niðursveifluna í alþjóðahagkerfinu og voru fljót að ná sér á strik. 

Sílækkandi fæðingatíðni í áratug

Fólk á Norðurlöndum hefur greinilega nógu mikla trú á kerfinu til að eignast börn þótt hart sé í heimi. Að Grænlandi undanskildu fæddust fleiri börn árið 2021 en árið 2020, þótt munurinn á milli ára hafi reyndar verið lítill í Svíþjóð. Í Noregi, Finnlandi og á Íslandi er þessi aukning ánægjulegur viðsnúningur eftir sílækkandi fæðingatíðni í áratug.

Með þessari þróun verður náttúruleg fólksfjölgun á Norðurlöndum á tímum heimsfaraldurs, þegar samsvarandi tölur fóru lækkandi í mörgum öðrum Evrópulöndum. 
 

Trú á félagsleg öryggisnet

„Svo virðist vera sem norræn pör sem hafa neyðst til að láta starfsframa sinn bíða, verið í leyfi frá vinnu eða verið sagt upp störfum, hafi séð tækifæri til að eignast börn og ef til vill auka tekjur heimilisins með foreldraorlofsgreiðslum“ segir Nora Sánchez Gassen, rannsakandi og einn höfunda skýrslunnar. 

 

Einungis örfá lönd utan Norðurlanda voru með hærri fæðingatölur og bara Holland komst nálægt tölunum á Norðurlöndum.


„Ein tilgáta er að ung pör á Norðurlöndum hafi treyst á ríkið bæti fyrir tekjutap í heimsfaraldrinum og í kjölfar hans, þ.e.a.s. að félagslegu öryggisnetin í þessum löndum séu nægilega sterk,“ bætir Sánchez Gassen við. 

 


Miðað við Evrópusambandið nema fjárfestingar Norðurlanda í neyðarpökkum töluvert yfir meðallagi. Danir fjárfestu mest, eða sem nemur 32% af vergri landsframleiðslu. Hlutfallið var 16% í Svíþjóð.   

Heimilistekjur lækkuðu ekki

Þar sem fjármálakerfi Norðurlanda voru tiltölulega sterk þegar kreppan skall á var hægt að verja fé í bætur vegna vinnutaps, skattaívilnanir og stuðning við lítil og meðalstór fyrirtæki. Meðaltekjur heimila lækkuðu ekki, þökk sé fjárfestingum í vinnumarkaðsúrræðum. Í skýrslunni kemur einnig fram að þessar ráðstafanir gegndu lykilhlutverki í því að draga úr félagslegum áhrifum heimsfaraldursins. 



„Ráðstafanirnar voru fordæmalausar og efldu enn frekar norrænu velferðarkerfin, sem þó voru sterk fyrir. Þetta var mögulegt vegna þess að fjármálakerfi okkar voru töluvert öflugri en í fjármálakreppunni 2008,“ segir Carlos Tapia, yfirmaður rannsókna hjá Nordregio og einn höfunda skýrslunnar State of the Nordic Region. 

 

„En jafnvel þótt ráðstafanir vegna heimsfaraldursins hafi ekki haft veruleg áhrif á skuldir og skuldahalla ríkisins hefði ekki verið hægt að halda þeim endalaust áfram. Það er ólíklegt að efnahagur norrænu ríkjanna hefði þolað langan COVID-faraldur.“

Helmingi minni afleiðingar en í ESB

Á heildina litið var efnahagsleg niðursveifla á Norðurlöndum í samræmi við meðaltalið á alþjóðavísu en mun minni en í Evrópusambandinu. Verg landsframleiðsla dróst saman um 3% á Norðurlöndum miðað við 5,9% í ESB. Sökum þess hve Íslendingar eru háðir ferðaþjónustu voru áhrifin mest á Íslandi árið 2020, þar sem verg landsframleiðsla dróst saman um 7,1%.

Sambærileg tala í Danmörku var 2,1% en 0,7% í Noregi.

Mest áhrif á eldra fólk og innflytjendur

Þrátt fyrir neyðarpakka og velferðarkerfi hefur COVID-kreppan leitt greinilega í ljós þann ójöfnuð sem ríkir milli ólíkra launahópa, einkum á dreif- og þéttbýlissvæðum þar sem félagslegar og efnahagslegar aðstæður eru bágar. Viðkvæmustu hóparnir, þ.e.a.s. eldra fólk, lágtekjufólk og innflytjendur, hafa orðið verst úti, bæði hvað varðar tíðni sýkinga og félagsleg áhrif heimsfaraldursins.

TÖLUR/Efnahagslegar stuðningsráðstafanir á Norðurlöndum

Samanlagt virði allra efnahagslegra stuðningsráðstafana í Danmörku nam 32,7% af vergri landsframleiðslu.

 Þar á eftir kom Svíþjóð með 16,1% af vergri landsframleiðslu. Finnar, Íslendingar og Norðmenn fjárfestu sem nemur 12–14% af vergri landsframleiðslu.

Til samanburðar námu efnahagslegar stuðningsráðstafanir í ESB um 10,5% af vergri landsframleiðslu.

TÖLUR/Skýrslan State of the Nordic Region

Nordregio tekur saman og gefur út skýrsluna The State of the Nordic Region annað hvert ár, í nánu samstarfi við Norrænu ráðherranefndina. Þar er að finna einstakt samansafn upplýsinga um efnahagsmál, lýðfræðilegar tölur, fólksflutninga, stafvæðingu, atvinnumál og margt fleira. Í skýrslunni er borin saman þróun á Norðurlöndum á lands-, svæðis- og staðarvísu með 26 kortum og nánari skýringarmyndum. Norðurlönd, þ.e.a.s. Danmörk, Finnland, Ísland, Noregur og Svíþjóð, auk Grænlands, Færeyja og Álandseyja, eru með heildstæðustu landsvæðum í heimi. Nordregio er norræn rannsóknarstofnun um byggðaþróun og skipulagsmál sem Norræna ráðherranefndin stofnaði árið 1997.

Skýrslan kemur út á degi Norðurlanda, 23. mars 2022

Við bjóðum til fimm útgáfuhófa í norrænu höfuðborgunum fimm á degi Norðurlanda, 23. mars. Þar koma saman ráðherrar, þingmenn, rannsakendur og æskulýðsfulltrúar, svo fátt eitt sé nefnt. Boðið verður upp á að spyrja spurninga á staðnum eða fylgjast með á netinu. Upplýsingar og skráning:

Tengiliðir fyrir fjölmiðla:

Gustaf Norlén, aðalkortleggjari og verkefnastjóri skýrslunnar
gustaf.norlen@nordregio.org
+46 76 169 39 54

Nora Sánchez Gassen, PhD
nora.sanchezgassen@nordregio.org
+46 70 931 08 08