Bertel Haarder frá Danmörku er nýr forseti Norðurlandaráðs

29.10.20 | Fréttir
Bertel Haarder och Annette Lind 2020.

Bertel Haarder och Annette Lind 2020.

Ljósmyndari
Charlotte de la Fuente

Bertel Haarder og Annette Lind, forseti og varaforseti Norðurlandaráðs 2021.

Bertel Haarder frá Danmörku hefur verið kjörinn forseti Norðurlandaráðs árið 2021. Forsætisnefnd Norðurlandaráð kaus hann sem forseta á stafrænum fundi síðastliðinn fimmtudag. Annette Lind frá Danmörku var kjörin varaforseti.

Bertel Haarder er reynslumikill stjórnmálamaður. Hann var fyrst kjörinn á danska Þjóðþingið árið 1975 og hefur gengt ráðherraembættum í samanlagt 22 ár. Hann hefur einnig verið fulltrúi Norðurlandaráðs og forsætisnefndar um árabil og er vel kunnugur þeim sem fylgjast með málefnum Norðurlanda.

Norrænt samstarf er Bertel Haarder hjartans mál og á tímum COVID-19 hefur hann oftar en einu sinni, sem formaður norræna Stjórnsýsluhindranaráðsins, hvatt ríkisstjórnir landanna til að vinna saman í baráttunni gegn heimsfaraldrinum.

Heimsfaraldurinn í forgangi

Viðbrögðin við faraldrinum og samstarf Norðurlanda í framtíðarkrísum eru því í forgangi í formennskuáætlun Danmerkur í Norðurlandaráði 2021. Í áætluninni kemur meðal annars fram að heimsfaraldurinn hafi leitt til þess að löndin brugðust með mismunandi hætti, sem skapaði vandamál fyrir þá sem vinna, stunda nám, ferðast til og fjárfesta í öðru norrænu landi.

Skilaboð dönsku formennskunnar eru að Norðurlöndin verði að læra af mistökum sínum, meðal annars að því er varðar landamæratakmarkanir.

„Ég vona að við getum lært af reynslunni af lokun landamæra. Við ættum ekki að endurtaka landamæralokanir sem hafa að mínu mati engin áhrif. Ef landamærum er lokað þarf það að vera gert með samtarfi milli landanna,“ segir Bertel Haarder.

Áhersla á viðbúnað

Í dönsku formennskuáætluninni er lýst eftir yfirgripsmeiri samnorrænni viðbragðsáætlun til að löndin verði betur búin undir hvers konar erfiðleika í framtíðinni, svo sem heimsfaraldur og náttúruhamfarir. Einnig er lög áhersla á mikilvægi aukins samstarfs í varnar- og öryggismálum og norrænnar fjárfestingar á norðurslóðum.

„Stórveldi takast nú á um norðurslóðir og Norðurlönd verða að vinna saman að því að tryggja frið um svæðið. Áætlunin boðar aukna áherslu á þetta mál í Norðurlandaráði.“

Í dönsku formennskuáætluninni er einnig kallað eftir auknu samstarfi um loftlagsmál, vinnu gegn stjórnsýsluhindrunum, samstarfi um menningar- og ferðamál og fjárfestingar til að auka skilning á norrænum tungumálum.

Annette Lind vill auk þess taka til aðgerða í baráttunni fyrir lýðræði, sem einnig er nefnd í dönsku áætluninni. Hún segir að lýðræðinu sé ógnað, þar á meðal í Evrópu.

„Við sjáum að lýðræði, mannréttindum og réttarríkinu er ógnað alvarlega mjög nálægt okkur í Evrópu. Þróunin í til dæmis Póllandi og Ungverjalandi hefur verið slæm fyrir lýðræði. Þess vegna er einstaklega mikilvægt að við á Norðurlöndum sameinumst um sameiginleg gildi okkar og vinnum að heilbrigðri lýðræðisþróun í Evrópu og heiminum öllum,“ segir Annette Lind.

Taka við um áramót

Bertel Haarder er í Venstre-flokknum, sem er flokkur hægrisinnaðra og frjálslyndra. Í Norðurlandaráði er hann í flokkahópi miðjumanna. Hann var einnig forseti Norðurlandaráðs árið 2011.

Annette Lind er jafnaðarmaður og í flokkahópi jafnaðarmanna í Norðurlandaráði.

Þau munu taka við sem forseti og varaforseti ráðsins um áramótin.

 

Norðurlandaráð er opinber samstarfsvettvangur þjóðþinga Norðurlanda. Ráðið skipa 87 fulltrúar frá Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi, Svíþjóð og Álandseyjum, Færeyjum og Grænlandi.