Betri matur fyrir börn og ungmenni á Norðurlöndum

20.08.18 | Fréttir
Børn og mad
Photographer
Bjørn Bertheussen/Norden.org
Þann 31. ágúst 2018 munu aðilar frá öllum norrænu ríkjunum koma saman í fyrsta sinn á þinginu Nordic Assembly, þar sem fjallað verður um opinberar máltíðir. Þingið skal verða árlegur viðburður og er hluti af norræna samstarfsverkefninu Nordic Plate. Börn og ungmenni verða í brennidepli í ár og ætlunin er deila reynslu og bestu starfsháttum milli norrænu ríkjanna og að þróa áfram hugmyndir sem geta tryggt að börnum og ungmennum á Norðurlöndum sé boðið upp á góðan mat og máltíðir.

5,5 milljónir opinberra máltíða á Norðurlöndum

Dag hvern eru framreiddar 5,5 milljónir opinberra máltíða á Norðurlöndum og opinber útgjöld vegna þessara máltíða eru talsverð. Það má færa margvísleg rök fyrir því að líta ætti á opinberar máltíðir sem annað og meira en einungis útgjöld.

Máltíðir hins opinbera má nýta til að miðla og styðja við matarmenningu, sjálfbærni, matargerð og lýðheilsu um öll Norðurlönd. Því boðar Nordic Plate til samkomu um opinberar máltíðir.

Matur og máltíðir út frá samnorrænu sjónarhorni

Samnefnari opinberra máltíða á Norðurlöndum er að þær eru óaðskiljanlegur og mikilvægur hluti velferðarkerfisins – hvort sem um er að ræða matargerð á leikskólum og í skólum eða umönnun á sjúkrahúsum og hjúkrunarheimilum. Norræn matargerð hefur jafnframt fengið aukna athygli á síðustu áratugum.

Árið 2018 tilkynnti Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, WHO, að norrænn hversdagsmatur væri hollur og veitti góða vörn gegn algengum lífsstílssjúkdómum. Stofnunin mælti með að meginreglur úr norrænu mataræði væru innleiddar í auknum mæli í opinberar ráðleggingar um mataræði.

Með þetta í huga vilja skipuleggjendur Nordic Assembly koma á tengingu milli næringarráðlegginga, gæða matarins og góðra máltíða þvert á landamæri og matarmenningu. Ætlunin er að nýta reynsluna til þess að þróa og betrumbæta opinberar máltíðir.

Brú milli hugmynda og aðgerða

Nordic Assembly 2018 er fyrir öll þau sem koma að mat fyrir börn og ungmenni innan hins opinbera. Í dagskránni er áhersla lögð á hagnýtar lausnir og að byggja brú milli hugmynda og aðgerða.

Þátttakendum býðst að fara í vettvangsferð fimmtudaginn 30. ágúst og kynnast hvernig Kaupmannahafnarborg hefur tekist til með opinberar máltíðir fyrir börn og ungmenni. Farið verður í heimsóknir á daggæslustofnanir og í skóla í Kaupmannahöfn.

Þingið sjálft, Nordic Assembly, fer svo fram föstudaginn 31. ágúst. Þar verður markaðstorg með sýningarstöndum, vinnustofum og kynningum, þar sem hlýða má á reynslu frá meðal annars Reykjavíkurborg, grunnskólanum í Tingvoll og skólagörðum í Kaupmannahöfn.

Dæmi um góðan, opinberan mat, hvaðanæva af Norðurlöndum, verða kynnt fyrir þátttakendum og munu ekki einungis virkja bragðlaukana, heldur einnig lyktarskyn og sjón.

Nordic Assembly nýtur stuðnings Norrænu ráðherranefndarinnar og er skipulagt af aðilum í Nordic Plate-verkefninu, með Københavns Madhus í fararbroddi.