Björgum norrænum börnum og ungmennum úr nauðungarhjónaböndum erlendis

27.10.20 | Fréttir
Blomster
Photographer
Scanpix.dk
Þegar norræn börn og ungmenni eru þvinguð í hjónabönd erlendis þurfa yfirvöld að eiga betri möguleika á að hjálpa þeim aftur heim. Til þess stendur metnaður norrænu velferðarnefndarinnar, sem beindi tilmælum um málið til ríkisstjórna norrænu landanna á þinginu í ár. Lykillinn er aukið samstarf norrænna sendiskrifstofa.

„Yfirvöld á Norðurlöndum bera ábyrgð á norrænum börnum og ungmennum, hvar sem þau kunna að vera stödd í veröldinni. Séu þau þvinguð í hjónaband erlendis verða sendiskrifstofur okkar að vinna saman að því að koma þeim heim,“ segir formaður norrænu velferðarnefndarinnar, Bente Stein Mathisen, á þingi Norðurlandaráðs í ár. Velferðarnefndin beinir því eftirfarandi tilmælum til ríkisstjórna Norðurlanda: „Að þær eigi frumkvæði að því að sendiskrifstofur þeirra erlendis vinni saman og samræmi starfsemi sína til að geta með skjótum og skilvirkum hætti hjálpað þeim sem þvinguð hafa verið í hjónaband.“ Flokkahópur hægrimanna í Norðurlandaráði lagði fram tillöguna sem velferðarnefndin fjallar nú um. 

 

Þau gætu verið nágrannar okkar 

Ekki er vitað hve mikill fjöldi barna og ungmenna hefur verið þvingaður í hjónaband erlendis eða hver undanfari slíkra hjónabanda er í öllum tilvikum. Ein aðferð sem velferðarnefndinni er kunnugt um er að ungmenni sé lokkað til annars lands og talin trú um að það sé á leið í frí eða venjulega fjölskylduheimsókn. Þegar á hólminn er komið kemst ungmennið svo að því að framundan er brúðkaup sem hann eða hún er þvingað til að samþykkja. 



„Það er hræðileg tilhugsun að í öðrum löndum séu börn og ungmenni í nauðungarhjónaböndum sem hefðu annars getað verið nágrannar okkar eða samnemendur. Norðurlandaráð æskunnar styður þessa tillögu,“ sögðu fulltrúar Norðurlandaráðs æskunnar í velferðarnefndinni, Seda Kekec og Kenneth Storm Jessen.

 

Hægara sagt en gert

Í Helsingforssamningnum, sem er grundvöllur hins opinbera norræna samstarfs, eru ákvæði sem gera norrænum sendiskrifstofum kleift að styðja borgara nágrannalandanna í öðrum löndum að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Það þýðir að sendiskrifstofurnar eiga þegar í samstarfi af þessu tagi á öðrum sviðum. Málið vandast þó með hliðsjón af því að ríkisstjórnir norrænu landanna verða að koma sér saman um stefnu í málaflokknum, auk þess sem norrænir borgarar í öðrum löndum þurfa að lúta lögum viðkomandi landa, sem getur gert ferlið flóknara og dregið málið á langinn að mati velferðarnefndarinnar.  


„Einmitt þess vegna er öflugt samstarf sendiskrifstofanna nauðsynlegt til að geta hjálpað börnum og ungmennum úr nauðungarhjónaböndum,“ undirstrikar Bente Stein Mathisen. 


 

Félagslega sjálfbær Norðurlönd

Pólitískt starf að því að koma börnum og ungmennum heim úr nauðungarhjónaböndum ber að skoða út frá áherslu norrænu velferðarnefndarinnar á viðkvæma hópa og jafnrétti og út frá framtíðarsýn Norrænu ráðherranefndarinnar fyrir árið 2030: Norðurlönd eiga að verða sjálfbærasta og samþættasta svæði heims – meðal annars: Félagslega sjálfbær Norðurlönd – Saman ætlum við að efla samfellt svæði án aðgreiningar þar sem jafnrétti ríkir og sem byggist á sameiginlegum gildum og enn öflugri menningarsamskiptum og velferð.