Britt Bohlin kveður Norðurlandaráð

18.09.20 | Fréttir
Britt Bohlin
Photographer
Magnus Fröderberg/norden.org
Britt Bohlin framkvæmdastjóri Norðurlandaráðs lætur af störfum 31. janúar 2021, tæplega einu ári fyrr en fyrirhugað var. Bohlin hóf störf á skrifstofu Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn í janúar 2014.

„Þetta er aðeins af persónulegum ástæðum,“ segir Britt Bohlin. „Ég verð 65 ára í febrúar og það er viðtekinn eftirlaunaaldur í Svíþjóð. Vegna faraldursins hefur maðurinn minn, sem er í áhættuhóp, þurft að halda sig á heimili okkar í Svíþjóð á meðan ég hef að hluta til þurft að vera í Kaupmannahöfn starfsins vegna. Ég vil verja meiri tíma með fjölskyldunni en ég get núna. Þetta er einfaldlega ekkert skemmtilegt eins og þetta er núna,“ segir Bohlin.

Fram að innreið kórónuveirunnar var þetta þó bæði áhugavert og spennandi.

„Þetta hefur verið dramatískur tími fyrir samstarfið,“ segir Bohlin. Hún nefnir að flóttamannastraumurinn 2015 hafi verið prófsteinn á samstarfið og minnir á Norðurlandaráðsþingið í Reykjavík það ár.

„Þá var tilfinningin sú að ríkisstjórnirnar hefðu eiginlega bara rætt þá erfiðu stöðu sem var uppi í gegnum fjölmiðla en skyndilega voru þær staddar þarna í sama herbergi. Norðurlandaráð bauð upp á vettvang til að hittast og tala saman. Svo þróaðist samtalið áfram,“ segir Bohlin. „Norðurlandaráð lék mjög veigamikið hlutverk við þessar aðstæður og kom inn á hárréttum tíma.“

Skilvirkara og árangursríkara samstarf

Bohlin nefnir einnig skipulagsbreytingarnar sem gerðar hafa verið í tíð hennar.

„Áður en ég byrjaði tók ég þátt í Norðurlandaráðsþinginu í Ósló haustið 2013. Þar fylgdist ég með og þótti margt spennandi og gott en sumt var langdregið og leiðinlegt. Úr því að mér þótti það taldi ég að eflaust þætti mörgum öðrum það líka,“ segir hún og hlær.Sú skoðun hennar leiddi til endurskipulagningar á starfsemi Norðurlandaráðs sem fól meðal annars í sér fækkun nefnda til að auka skilvirkni og breytingar á starfsreglum sem fólu í sér að fyrsta umræða um allar nefndartillögur skuli fara fram á þinginu.

„Það styttir meðferðartímann og leiðir til þess að málin sem við afgreiðum eigi betur við en áður því þau festast ekki í löngu ferli.“

Ég vil verja meiri tíma með fjölskyldunni en ég get núna

Britt Bohlin

COVID-19 hefur áhrif á samstarfið

„Sem stendur er andrúmsloftið í samstarfinu ekki sem best,“ segir Bohlin.

„Kórónuveiran hefur sett sitt mark á það og landamærasvæðin hafa orðið illa úti. Skortur á samræmingu á milli landanna hefur skapað vandamál.“Um leið vill hún þó benda á jákvæð áhrif faraldursins.

„Við höfum lært að nýta okkur rafrænar lausnir og meira að segja tekist að fá fundatúlkunina til að virka. Við viljum minnka loftslagsspor okkar eins og við getum og þess vegna verður hluti af fundum Norðurlandaráðs áfram rafrænn eftir að faraldrinum lýkur,“ segir hún.

„En pólitískt samtal virkar ekki ef það er eingöngu í fjarfundaformi. Fólk þarf að hittast í eigin persónu. Það er ekki hægt að byggja upp góð sambönd á fjarfundum en þeir hjálpa til við að viðhalda þeim,“ segir Bohlin.

Strax verður hafist handa við að leita að eftirmanni Britt Bohlin en gert er ráð fyrir að nýr framkvæmdastjóri Norðurlandaráðs taki til starfa í byrjun febrúar 2021.