COP27: Norðurlönd vilja tryggja að jafnrétti ráði för við loftslagsumskiptin

09.11.22 | Fréttir
tre tjejer på en buss
Ljósmyndari
Yadid Levy/norden.org
Grænu umskiptin munu velta við hverjum steini í samfélaginu – en hvaða áhrif hefur breytingin á karla og konur? Dagana 14.–15. nóvember standa Norðurlönd fyrir nokkrum umræðuviðburðum á loftslagsfundinum COP27 um það hvernig réttlát loftslagsstefna getur litið út.

Á undanförnum árum hafa kröfur ungs fólks um að hafa áhrif á loftslagsstefnuna verið háværar. Nú er jafnframt í auknum mæli kallað eftir því að tryggt verði að tekið sé mið af jafnréttismálum og fleiri sjónarmiðum þegar ákvarðanir eru teknar varðandi loftslagsumskiptin.

 

„Jafnréttismálin eiga sinn flöt í allri pólitík og við viljum vekja athygli á því í Norræna skálanum á loftslagsfundinum. Norðurlönd hafa barist fyrir samfélagi fyrir öll, þar sem jafnrétti ríkir, og það er kominn tími til að innleiða það líka í grænu umskiptin,“ segir Jonas Wendel, settur framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar.

Einkynja atvinnugreinar skapa vandamál

Skipuleggjendur samgöngumála, framleiðendur farartækja, matvælaframleiðendur, orkufyrirtækin og tískufyrirtækin, en einnig yfirvöld á sviði umönnunar og heilsugæslu, eru allt aðilar sem hafa mikil völd til að hafa áhrif á loftslagsumskiptin.

Það getur haft úrslitaáhrif um hvort nýjar loftslagslausnir skili árangri að jafnt konur sem karlar hafi áhrif innan þessara greina.

Lífsstílsbreytingar nauðsynlegar

Samkvæmt loftslagsnefnd SÞ þarf bæði lífsstílsbreytingar og nýja tækni til að ná markmiði Parísarsamkomulagsins um 1,5 gráðu hækkun.

Rannsóknir sýna að þær atvinnugreinar þar sem unnið er að tæknilegum loftslagslausnum eru of karllægar en innan heilsugæslu og umönnunar er því öfugt farið.

Jafnframt eru konur betur í stakk búnar fyrir lífsstílsbreytingar en það má tengja því umönnunarhlutverki sem konur eru aldar upp í.

Meiri koldíoxíðlosun frá samgöngum karla

„Konur eru fyrirmyndir þegar við á Norðurlöndum þurfum að gera breytingar á lífi okkar. Í Svíþjóð er koldíoxíðlosun frá samgöngum karla til að mynda tvöföld á við það sem gerist hjá konum. Á öllum sviðum loftslagsbaráttunnar getum við litið til kvenna og lært af lífsháttum þeirra, segir Emma Holten, femínisti og aðgerðasinni frá Danmörku sem tekur þátt í umræðunni Placing gender equality at the heart of green jobs þann 14. nóvember.

Samstarf við Afríkusambandið

Fimm viðburðir í Norræna skálanum (P90) á loftslagsfundinum í Sharm el Sheik snúast um það hvernig við tryggjum réttlát græn umskipti.

Auk þess standa Norðurlönd ásamt Afríkusambandinu fyrir opinberum hliðarviðburði á COP27, Nordic & African Leaders: Why Gender is Key to the Green Transition þann 15. nóvember. 
 

Fylgist með á staðnum í Sharm el Sheik eða á netinu.