Frumbyggjar eru í sérlega viðkvæmri stöðu gagnvart loftslagsbreytingum

30.06.22 | Fréttir
COSP
Photographer
Christina Lindström
Fatlaðir frumbyggjar eru minnihlutahópur innan minnihlutahóps og þegar kemur að loftslagsbreytingum eru þeir í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Þetta voru skilaboðin á norrænum hliðarviðburði á fundi Sameinuðu þjóðanna um samninginn um réttindi fatlaðs fólks (CRPD) í New York.

Viðburðurinn var hluti af formennsku Noregs í Norrænu ráðherranefndinni og stóð norska barna-, ungmenna- og fjölskyldustofnunin fyrir honum. Gry Haugsbakken, ráðuneytisstjóri menningar- og jafnréttisráðuneytisins í Noregi, setti viðburðinn með því að leggja áherslu á að hnignun líffræðilegrar fjölbreytni og umhverfisins kemur verr niður á frumbyggjum en öðrum.

„Nýleg skýrsla greinir frá því að fötlun fólks er stundum notuð sem ástæða OG afsökun fyrir því að ganga á rétt viðkomandi sem frumbyggja. Skortur á þekkingu og virðingu fyrir andlegri tengingu frumbyggja við landið og náttúruna er sérstök áskorun,“ sagði Gry Haugsbakken.

Minnihlutahópar innan minnihlutahópa

Öll norrænu löndin hafa fullgilt samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (CRPD) og kusu með yfirlýsingu um réttindi frumbyggja. Það er innleiðingin sem er vandamálið.

„Allt of oft gleymast menningarleg réttindi frumbyggja þegar kemur að hópum með sérstakar þarfir þar sem þar er um að ræða minnihlutahópa innan minnihlutahópa,“ sagði Runar Myrnes Balto, þingmaður Samaþingsins í Noregi, sem fer með heilbrigðis-, jafnréttis- og sýnileikamál.

Allt of oft gleymast menningarleg réttindi frumbyggja þegar kemur að hópum með sérstakar þarfir þar sem þar er um að ræða minnihlutahópa innan minnihlutahópa.

 

Runar Myrnes Balto, þingmaður Samaþingsins í Noregi

Hlustum á viðkomandi hópa

Engin allsherjarlausn hentar öllu. Þvert á móti neyðir slíkt öll til að gangast undir sjónarmið meirihlutans sem oft hefur í för með sér útilokun þeirra sem skera sig úr. Menningarnæmi og tungumálið skipta miklu máli þegar kemur að því að meta þörf einstaklinga á þjónustu, greiningu, endurhæfingu og umönnun. Jafnframt er mikilvægt að hlusta á viðkomandi hóp.

„Fatlað fólk er sérfræðingar í sínu eigin lífi og innsýn þess og reynsla þegar kemur að vandamálum varðandi fötlun er nauðsynleg til að geta þróað og innleitt stefnu sem gagnast fötluðu fólki,“ lagði Astrid Krag, ráðherra félags- og öldrunarmála í Danmörku, áherslu á.

Stærsti minnihlutahópur heims

Sif Holst, varaformaður samtaka fatlaðra í Danmörku og fulltrúi Danmerkur í norræna fötlunarráðinu, lagði áherslu á að samfélagið setji fatlað fólk oft allt undir einn hatt.

„Fatlað fólk telur um einn milljarð manns í heiminum, sem gerir okkur að stærsta minnihlutahópi heims. Við erum af öllum uppruna, með allar tegundir fötlunar, alls konar menntun og félagslegan bakgrunn,“ sagði Sif Holst. Hún benti á að við þurfum þverfaglegt sjónarhorn sem tekur tillit til þessa fjölbreytileika.