Sérfræðingar í málefnum farandfólks með nýjar tillögur til norrænna ráðherra aðlögunarmála

25.10.23 | Fréttir
Nordic Migrant Expert Forum
Photographer
Martin Thaulow
Sérfræðingar sem skipa norræna nefnd um málefni farandfólks afhenti norrænum ráðherrum aðlögunarmála 13 nýjar tillögur á fundi Norrænu ráðherranefndarinnar um aðlögunarmál í Reykjavík.

Undanfarið ár hafa sérfræðingar í norrænni nefnd um málefni farandfólks leitast við að svara spurningunni: Hvað felst í góðri aðlögun? Afraksturinn er 13 tillögur sem lagðar voru fyrir norræna ráðherra í aðlögunarmálum á fundi þeirra í Reykjavík í þeim tilgangi að veita ráðherrunum innblástur við áframhaldandi pólitískt starf.

Sameiginleg og mælanleg norræn nálgun á aðlögunarmál

Takura Matswetu, formaður nefndarinnar, tók sjálfur þátt í fundinum og skilaboðin frá honum voru eftirfarandi: Mælanlegar aðgerðir í aðlögunarmálum eru leiðin til árangurs. Takura mæltist jafnframt til þess að norrænu ráðherrarnir kæmu sér saman um skilgreiningu á sameiginlegri og mælanlegri norrænni nálgun á aðlögunarmál. Skilgreiningin þarf að vera víðtæk og ná til nokkurra sviða, svo sem menntunar, aðlögunar á vinnumarkaði og tungumálanáms. Markmiðið á að vera að skapa samfélagslega samstöðu sem byggist á réttlæti.

Mælanlegar aðgerðir í aðlögunarmálum eru leiðin til árangurs

Takura Matswetu, formaður Norrænu sérfræðinefndarinnar um málefni farandfólks

Persónuleg reynsla og fagþekking

Nefndin er skipuð fulltrúum frá öllum norrænu löndunum auk sjálfsstjórnarsvæðanna. Allir nefndarmenn eru af erlendu bergi brotnir en það gefur tillögum þeirra aukið vægi þar sem þeir geta byggt þær á eigin reynslu af því að hafa fæðst í löndum utan Norðurlanda og flutt svo hingað. Þeir eru jafnframt sérfræðingar á sviði aðlögunarmála, m.a. með sérþekkingu á sviði menntamála, vinnumarkaðarins, jafnréttis og félags- og heilbrigðismála. 

Félagslega sjálfbært svæði   

Norræna ráðherranefndin stofnaði sérfræðinefndina með það fyrir augum að ráðherrar aðlögunarmála geti mótað sem besta stefnu í aðlögunarmálum innan hvers lands og á Norðurlöndum í heild sinni og þannig stuðlað að uppfyllingu framtíðarsýnar Norrænu ráðherranefndarinnar um að Norðurlönd verði félagslega sjálfbærasta svæði heims árið 2030.