Berjast þarf gegn makamorðum

02.11.23 | Fréttir
Tone og Kine
Ljósmyndari
Norden
Norræna ráðherranefndin þarf að efla aðgerðir sínar í baráttunni gegn ofbeldi og morðum maka í nánum samböndum. Nánar tiltekið þurfa Norðurlöndin að koma upp sameiginlegri skilgreiningu og skráningu á ofbeldi og makamorðum. Þannig hljóma nýsamþykktar tillögur Norðurlandaráðs.

Í Noregi býr kona sem heitir Kine Pedersen Aamodt. Hún er fórnarlamb ofbeldis af hálfu fyrrverandi maka. Henni var nauðgað 190 sinnum. Hún varð einnig fyrir pyntingarkenndu, grófu og alvarlegu ofbeldi, eins og dómstólar í Noregi lýsa því. Fyrrverandi maki og árásarmaður Kine hefur nú verið dæmdur og vistaður í fangelsi. Hún valdi sjálf að stíga fram með sögu sýna og nú vinnur hún að því að koma í veg fyrir að aðrir upplifi þá martröð sem hún gekk í gegnum. Velferðarnefnd Norðurlandaráðs vill styðja hana og aðra í þessari baráttu. 

Sameiginlegar skilgreiningar og skráningar á ofbeldi og makamorðum

Norðurlandaráð hefur nú samþykkt tillögu Norrænu velferðarnefndarinnar um að berjast gegn ofbeldi í nánum samböndum. Að gera slíkt innan norræns samstarfs hefur veruleg jákvæð áhrif á þessar aðgerðir, segir Tone Trøen, varaformaður velferðarnefndar Norðurlandaráðs.


„Norrænu löndin líkjast hvert öðru á þessu sorglega sviði. Þess vegna er það skoðun mín og nefndarinnar að norrænt samstarfi myndi hafa í för með sér virðisauka og efla forvarnir og baráttu gegn ofbeldi og makamorðum,“ segir Tone Trøen.

Makamorð eru jafnréttisáskorun   

Því miður er frásögn Kine ekki einsdæmi. Tíðni ofbeldis og morða í nánum samböndum er há á Norðurlöndum miðað við aðra hluta heimsins. Rannsókn sýnir að makamorð eru alls 27% allra morða í Noregi. Það er tvöfalt meðaltalið á heimsvísu. Tölfræðin sýnir einnig að almennt eru það fleiri karlmenn sem fremja ofbeldi og morð gegn kvenkyns mökum sínum í nánum samböndum fremur en á hinn veginn.


„Ofbeldi gegn konum og kvennamorð eru frá mörgum hliðum séð stærsta jafnréttisáskorunin sem Norðurlöndin standa frammi fyrir,“ segir Eva Lindh, formaður velferðarnefndar Norðurlandaráðs. 
Hún bendir á að þörf er á norrænu samstarfi um að skapa sameiginlegar skilgreiningar og skráningu. Það vantar slíkan sameiginlegan upphafspunkt, sem gerir það erfiðara að starfa saman í baráttunni gegn ofbeldi og morðum í nánum samböndum. 

Norrænt samstarf hefði í för með sér virðisauka og myndi efla forvarnir og baráttuna gegn ofbeldi og makamorðum

Tone Trøen, varaformaður velferðarnefndar Norðurlandaráðs
Tone T
Ljósmyndari
Stine Østby/norden.org

Aðlaga þarf aðgerðirnar að samískum samfélögum

Silje Karine Muotka, varaforseti Þingmannaráðs Sama, hefur rætt þetta mál í velferðarnefnd Norðurlandaráðs. Hún bendir á að hugsa verði til samfélags Sama í þessum aðgerðum.


„Ofbeldi í nánum samböndum er alvarlegt samfélagsvandamál sem kemur í veg fyrir að við getum lifað góðu lífi. Gera verður umbætur á Samaþingunum til gripið verði til aðgerða sem binda enda á ofbeldi. Norrænu ríkin bera ábyrgð á því að verja íbúa sína gegn ofbeldi og það þýðir að einnig þarf að aðlaga aðgerðir gegn ofbeldi í nánum samböndum að samískum samfélögum,“ segir Silje Karine Muotka.